Samþykktir

Samþykkt á aðalfundi 1989

Skipting lottótekna og rekstrarframlags frá Kópavogsbæ
Á aðalfundi 1989 voru samþykktar reglur um skiptingu á rekstrarframlagi Kópavogsbæjar og lottótekjum.
25 % fara til reksturs hjá aðalstjórn
3 % fara í varasjóð
62 % skiptast milli deilda eftir iðkendafjölda sbr. úthlutunarreglur íþróttaráðs.
10 % til deilda eftir árangri að mati stjórnar.
UMSK og íþróttaráð hafa veitt styrki til einstakra verkefna og hefur þeim verið haldið utan við þessa skiptingu.
Reglur þessar hafa þann kost að þær hvetja deildirnar til starfs en þann ókost að aðalstjórn á erfitt með að styðja við bakið á þeim sem ef til vill helst þurfa á fjármunum að halda hverju sinni en eiga erfiðast með fjáröflun. Að öðru leyti vísast til ársreiknings aðalstjórnar.

Æfingagjöld

Markmið

Æfingagjöld verði samræmd milli deilda eftir því sem hægt er.
Æfingagjöld skuli miðast við þá þjónustu sem veitt er og deildir fari ekki í verðstríð sín á milli.

 

Tillaga samþykkt á aðalfundi 1993.

Getraunir
Aðalfundur Breiðabliks haldinn í Félagsheimili Kópavogs 25. maí 1993 samþykkir að framlengja gildistíma samþykktar frá síðasta aðalfundi um Getraunir til 31. maí 1994.

Samræming á tekjuöflun Breiðabliks.

Eftirfarandi tillögur voru lagðar fyrir formannafundi fyrst 7. mars 1994. Stærstur hluti þeirra hefur verið samþykktur en um þær, sem ekki hafa verið samþykktar, liggja tillögur fyrir um samræmingu.

Forsendur tillagna.
Samkvæmt 7. gr. laga Breiðabliks ber aðalstjórn að samræma fjáraflanir deilda.
Stefnumótunin hvetur til frekari samræmingar í tekjuöflun, búningum og útgáfustarfsemi.

1. Styrkur frá Kópavogsbæ og Lottótekjur

Fyrir liggur aðalfundarsamþykkt þar sem tekjum er skipt í samræmi við úthlutun styrks frá bænum (sjá hér að framan bls. 4 -1).


2. Getraunir.

Umsjón Getrauna (1x2) eru nú í höndum knattspyrnu-deildar. Fimm deildir fá greiðslur úr sameiginlegum potti í samræmi við eldri framlög. Þær eru auk knattspyrnu-deildar, frjálsíþrótta-. handknattleiks-, karate- og sunddeild.
Ef auk félagsnúmers er notað hópnúmer gefst deildum kostur á að eyrnamerkja sér tekjur sérstaklega.
Lagt er til að þær deildir sem ekki fá nú hlutdeild í sameiginlegum potti fái slíka hlutdeild þegar þær hafa náð ákveðnum árangri í eyrnamerktri sölu.


3. Auglýsingaskilti

3.1 Kópavogsvöllur.
a) Auglýsingaskiltum á Kópavogsvelli er skipt þannig:
- knattspyrnudeild Breiðabliks hefur 45%
- frjálsíþróttadeild Breiðabliks 10%
- og HK 45%.
b) Ekki hefur tekist að fylla völlinn og geta því aðrar deildir nýtt sér þessa tekjuöflun.

3.2 Sandgrasvöllur
Hér geta allar deildir selt eins og þær vilja. Samráð skal þó haft við framkvæmdastjóra.

3.3 Sundlaug
Sunddeild hefur ein tekjur af skiltum í sundlaug.

3.4 Skíðaskáli
Skíðadeild hefur ein tekjur af skiltum í og við skíða-skálann.

3.5 Brýr yfir Hafnarfjarðarveg
Fjórir auglýsingafletir eru alfarið í höndum Brúarnefndar. Tekjum hefur verið varið í uppbyggingu félagssvæðis og til að rétta af fjárhag knattspyrnudeildar í gegnum árin.

3.6 Veltiskilti við Hafnarfjarðarveg
Samkvæmt aðalfundarsamþykkt hefur fjáröflunarnefnd handknattleiksdeildar allar tekjur og ber alla skatta af auglýsingunum fram til 1996. Tekjurnar eru notaðar til að greiða upp skuldir deildarinnar.
Fyrirsjáanlegt að framlengja verður samninginn við fjáröflunarnefndina.

3.7 Veltiskilti við Reykjanesbraut.
Aðalstjórn hefur séð um rekstur skiltisins og rennur tekjuafgangur í uppbyggingu á félagssvæði, samhliða því sem verið er að greiða skiltið niður.

3.8 Íþróttahús Breiðabliks
Körfuknattleiks- og handknattleiksdeild hafa hvor um sig 45% þriggja hliða en aðalstjórn hefur umsjón með vesturhlið og 10% hinna hliðanna í salnum.
Aðrir fletir í íþróttahúsinu sem vera kynni að settar yrðu upp auglýsingar á yrðu alfarið í höndum aðalstjórnar.

3.9 Auglýsinga og upplýsingaskilti við vesturakrein upp í Hamraborg
Körfuknattleiksdeild sér um rekstur og fær tekjur af því skilti. Knattspyrnudeild nýtir yfir sumarið upplýsinga-hlutann.
Lagt er til að karfan að setji upp fleiri slík skilti.


4.0 Blaðaútgáfa

Vísað er til samþykktar aðalfundar 1993 um fréttabréf. (Sjá meðf. samþ. á bls. 2 -12)


5.0 Uppákomur

a) Fyrir liggur að eftirfarandi uppákomur hafa fest í sessi.
- Áramótabrenna
- Árshátíð í febrúar.
- Herra- og kvennakvöld knattspyrnudeildar í mars.
- Uppskeruhátíðir í apríl-maí og í september - október.
Þessa þætti þarf að útfæra nánar.
Lagt er til að stærri hátíðir og veislur verði ekki oftar en einu sinni í mánuði. Einum og hálfum mánuði fyrir árshátíð félagsins eru hátíðir þar sem fram fer matsala bannaðar á vegum félagsins.


6.0 Íþróttamót

a) Lagt er til að deildir komi mótum og uppákomum inn á dagatal Breiðabliks, eins fljótt og auðið er. Hugsanlegt væri að tengja dagatalið útgáfu fréttabréfs og tryggja þar með nauðsynlega endurnýjun vegna viðbóta og breytinga.
Enn fremur er lagt til að deildir hafi eins mikið samráð og samræmi einstaka uppákomur sín á milli eftir því sem unnt er.
b) Lagt er til að einstaka deildir standi ekki fyrir mótum er snerta íþróttagreinar annarra deilda nema að fengnu samþykki viðkomandi deildar.


7.0 Ýmiss rekstur

7.1 Kópavogsvöllur
a) Veitingasala á vellinum á kappleikjum er hjá viðkomandi deild.
c) Ef Breiðabliki yrði falinn reksturinn þá yrði hann í höndum rekstrarnefndar félagssvæðisins.

7.2 Sandgrasvöllur
Allur rekstur er í höndum rekstrarnefndar.

7.3 Skíðaskáli
Allur rekstur er í höndum skíðadeildar.

7.4 Sundlaug
Sunddeild rekur sjálfsala í sundlauginni.

7.4 Íþróttahús Breiðabliks
Sjá erindisbréf rekstrarnefndar bls. 2 - 8.
Lagt er til að sérstakar uppákomur svo sem sýningarhald, tónlistarkvöld o.fl. verði í höndum sérstakrar fjáröflunarnefndar félagsins.

8.0 Ýmis verkefni

a) Föst útburðarverkefni eru nú eingöngu á vegum handknattleiksdeildar og þá einungis sjónvarpsvísir Stöðvar tvö.
b) Sunddeild er með fasta aðila sem þeir sækja dósir til.

9.0 Styrktaraðilar

Lagt er til að deildir leggi fram lista á formannafundi tvisvar á ári (vor og haust) yfir helstu stuðningsaðila og verði á þeim fundum farið yfir listana til samræmingar á fjáröflunum.

 

Bókhaldslykill Reglugerð ÍSÍ um bókhald

Leiðbeiningar fyrir gjaldkera og bókara

Reglur íþróttaráðs um styrkveitingar

Heiðranir v/árangurs:
Til deilda íþróttafélaganna í Kópavogi.
Vegna heiðrunar íþróttafólks sem skarað hefur fram úr á sl. ári er óskað eftir yfirliti frá hverri deild yfir eftirfarandi titla/árangur:
* Íslandsmeistara
* bikarmeistara og / eða
* Íslandsmethafa á þessu ári.
Yfirlit þetta verður að staðfesta af stjórn deildar svo tekið verði tillit til þess.

Skilafrestur til íþróttafulltrúa er fyrir mánudaginn 6. des. 1993.

Virðingarfyllst,
_______________________
Jón Júlíusson, íþróttafulltrúi

 

Reglugerð um tilnefningu íþróttafélaga á íþróttamanni Kópavogs

1. a) Íþróttamaðurinn verður að vera í íþróttafélagi innan ÍSÍ í Kópavogi og hafa unnið afrek sín undir merkjum þess.
b) Íþróttamaðurinn verður að vera í sérhæfðu íþróttafélagi sem nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag, þ.m.t. Kópavog og er innan ÍSÍ (Íþróttafélag fatlaðra o.s.frv.) Hann verður að hafa unnið afrek sín undir merkjum þess. Íþróttamaður, sem er í félagi samkvæmt b-lið, þarf að eiga lögheimili í Kópavogi starfsárið sem tilnefningin nær yfir.
2. Íþróttamaðurinn verður að hafa sýnt a.m.k. árangur á landsmælikvarða á árinu.
3. Stjórn hverrar deildar íþróttafélags sendir rökstudda tilnefningu um besta íþróttamann úr hverjum aldurshópi innan sinna vébanda til íþróttaráðs.
Aldurshóparnir eru þessir:
a) 12 ára og yngri
b) 13 - 16 ára
c) 17 ára og eldri
Aldur miðaður við afmælisdag ræður hvar í aldurshópi íþróttamaðurinn lendir.
4. Með tilnefningu skal fylgja skrá yfir afrek viðkomandi íþróttamanns og umsögn þjálfara hans. Blaðaúrklippur og aðrar opinberar umsagnir eru æskilegar.
5. Reglugerðin gildir frá og með árinu 1988.

REGLUGERÐ UM ÚTHLUTUN SÉRSTYRKJA ÍÞRÓTTARÁÐS:

1. Úr sjóðnum eru veittir sérstyrkir til íþróttamála.
2. Allir geta sótt um fjárveitingar úr sjóðnum.
3. Íþróttafulltrúi skal svara öllum umsóknum og rökstyðja niðurstöðuna fyrir hönd íþróttaráðs.
4. Styrkir vegna þróunar-, sérverkefna, keppnisferða og móta eru afgreiddir 2 sinnum á ári og skulu umsóknir berast 14 dögum fyrir auglýsta úthlutun.
5. Styrkir fyrir unnin afrek skulu veittir á sama tíma og aðrir styrkir
þ.e. á íþróttahátíð í lok ársins og í upphafi sumars. Skal sú upphæð sem til þess er veitt vera a.m.k. 20% heildarupphæðar.
6. Reglugerðin tekur gildi frá og með árinu 1992.