Lög og reglur félagsins

LÖG BREIÐABLIKS

Nafn

1. grein
Félagið heitir Breiðablik og er ungmennafélag. Heimili félagsins og varnarþing er í Kópavogi.

Markmið

2. grein
Tilgangur félagsins er að skapa félagsmönnum sínum aðstöðu og tækifæri til að iðka íþróttir og hvers konar félags- og tómstunda¬starfsemi.

Félagar

3. grein
Félagi telst hver sá sem þess óskar eða tekur þátt í starfi félagsins. Skal félagi skráður í eina eða fleiri deildir sem starfræktar eru í félaginu. Aðalstjórn heldur skrá yfir félaga með aðstoð deilda. Aðalstjórn getur vikið félaga úr félaginu fyrir stórfellt brot á félagsreglum.

Merki og búningur

4. grein
Merki félagsins er hvítur kyndill með rauðum loga á grænum grunni. Fyrir neðan miðju kyndilsins er letrað BREIÐABLIK. Aðallitur keppnis- og æfingabúninga félagsins er grænn.

Skipulag

5. grein*****
Málefnum félagsins er stjórnað sem hér segir: Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málefnum þess sbr. 6. gr. Aðalstjórn framkvæmir stefnu aðalfundar og stýrir málefnum félagsins milli aðalfunda sbr. 7. gr. Félaginu er skipt í deildir sem sinna afmörkuðu sviði íþrótta-, félags- og tómstundamála. Aðalfundur deildar mótar meginstefnu um starfsemi hennar sbr. 8. gr. Deildarstjórn sér um daglegan rekstur deildar á milli aðalfunda hennar sbr. 9. gr. Aðalstjórn er heimilt að kjósa framkvæmdastjórn sbr. 7. gr. 

Aðalfundur félagsins

6. grein** **** *****
Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málefnum þess. Hann skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tilkynningu í dagblöðum og á heimasíðu félagsins með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalstjórn skal skipa uppstillinganefnd eigi síðar en 28 dögum fyrir aðalfund. Tillögu sinni skal uppstillinganefnd skila til framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund og skal hún liggja frammi á skrifstofu félagsins til fundardags.Tillögur um lagabreytingar skulu berast framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund og skulu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins til fundardags. Á aðalfundi skal leggja fram skýrslu um starfsemi félagsins og deilda þess ásamt ársreikningum deilda og samstæðureikning félagsins. Aðalfundur ákvarðar skiptingu styrkja ríkis, sveitarfélags og íþróttahreyfingarinnar til félagsins á milli aðalstjórnar og deilda. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti eiga allir félagar en eftirtaldir hafa atkvæðisrétt:
a) aðalstjórn félagsins sbr. 7. gr. a) lið,
b) stjórnir deilda félagsins,
c) fulltrúar kjörnir af deildum, einn fulltrúi fyrir hverja 20 félaga, þó ekki fleiri en 10.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Kosning starfsmanna fundarins.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Umræður og afgreiðsla á skýrslu stjórnar og ársreikningi félagsins.
4. Umræður um málefni félagsins.
5. Lagabreytingar.
6. Kosningar
a) formaður, b) varaformaður, c) gjaldkeri, d) ritari,
e) þrír meðstjórnendur,
f) endurskoðandi,
g) tveir skoðunarmenn reikninga.
7. Önnur mál.
Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Til þess að breyta lögum félagsins þarf þó 2/3 hluta greiddra atkvæða. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi. Falli atkvæði jöfn ræður hlutkesti.

Aðalstjórn

7. grein*****

Aðalstjórn framkvæmir stefnu aðalfundar, stýrir málefnum félagsins á milli aðalfunda, vinnur að alhliða eflingu þess og gætir hagsmuna félagsins í hvívetna. Aðalstjórn skipar starfsnefndir um framkvæmd tiltekinna verkefna. Hún hefur umráðarétt yfir öllum sameiginlegum eigum félagsins og umsjón með rekstri þeirra og varðveislu. Hún ákvarðar um stofnun nýrrar deildar, leggur niður deild og tekur við eigum deildar sem hættir störfum. Hún samræmir starf og stýrir sameiginlegum málum deilda, skipuleggur sameiginlega þjónustu innan félagsins og annast upplýsingamiðlun. Aðalstjórn setur reglur um fjárreiður og meðferð fjármuna, hefur eftirlit með fjárhag deilda og annarra starfseininga félagsins og gerir samstæðureikning fyrir félagið, sem endurskoðaður er og áritaður af löggiltum endurskoðenda. Aðalstjórn annast samskipti félagsins við stjórnvöld og önnur samtök með mál sem varða félagið allt. Aðalstjórn hefur heimild til að ráða framkvæmda¬stjóra félagsins. Hann framkvæmir ákvarðanir aðalstjórnar og stýrir skrifstofu félagsins. Hann skal í starfi sínu kappkosta að hafa samráð við deildir félagsins og aðstoða þær eftir föngum í starfi sínu.
Aðalstjórn skipa:
a) Sjö menn, formaður, vara¬formaður, gjaldkeri, ritari og þrír meðstjórnendur, sem kosnir eru á aðalfundi til árs í senn.
b) Formenn deilda.
Heimilt er aðalstjórn að kjósa úr sínum hópi framkvæmdastjórn sem formaður stýrir. Aðalstjórn skal koma saman einu sinni í mánuði hið minnsta. Aðalstjórn ber að halda að minnsta kosti einn fund á ári sameiginlega með stjórnum deilda til að ræða málefni sem tengjast starfi félagsins. Bygging, kaup og sala fasteigna félagsins er háð samþykki slíks fundar.

Aðalfundur deildar

8. grein* *** ****

Aðalfundur deildar mótar meginstefnu um starfsemi hennar. Aðalfund deildar skal halda ár hvert eigi síðar en 15. apríl eða 15. nóvember eftir eðli starfseminnar. Aðalfundur skal boðaður með minnst viku fyrirvara með tilkynningu í dagblaði, tölvupósti eða á annan sannanlegan hátt og ávallt á heimasíðu félagsins. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir félagar viðkomandi deildar. Atkvæðisrétt hafa allir félagar 16 ára og eldri. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning starfsmanna fundarins.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Umræður og afgreiðsla á skýrslu stjórnar og ársreikningi deildarinnar.
4. Umræður um málefni deildarinnar.
5. Kosningar
a) formaður,
b) aðrir stjórnarmenn,
c) varamenn.
6. Önnur mál.
Á aðalfundi deildar ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi. Falli atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Vanræki deild að halda aðalfund skal aðalstjórn boða til fundarins og annast framkvæmd hans.

Deildarstjórn

9. gr.
Deildarstjórn er kosin á aðalfundi hennar til árs í senn. Hún skal skipuð formanni, gjaldkera, ritara og allt að 6 meðstjórnendum og 3 varamönnum eftir ákvörðun fundarins um fjölda stjórnarmanna. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Á milli aðalfunda sér deildarstjórn um starfsemi deildar. Í því felst m.a. að skipuleggja starf deildarinnar, skipa starfsnefndir hennar og hafa umsjón með framkvæmd starfsins. Deildum er heimilt að innheimta af félögum sínum æfingagjöld sem deildarstjórn ákveður. Deildarstjórn ber ábyrgð á útgjöldum, tekjuöflun og fjárreiðum deildar og að fylgt sé opinberum reglum og fyrirmælum aðalstjórnar um bókhald, endurskoðun, reikningsskil og meðferð fjármuna.

Slit félagsins

10. grein
Verði félagið lagt niður skulu eignir þess ganga til Kópavogskaupstaðar.

Gildistaka

11. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla eldri lög úr gildi.

Samþykkt á aðalfundi 1997
* Samþykkt á aðalfundi 2003
**Samþykkt á aðalfundi 2004
*** Samþykkt á aðalfundi 2008
**** Samþykkt á aðalfundi 2013
***** Samþykkt á aðalfundi 2015

 

 

RAMMASAMNINGUR
um byggingu íþróttamannvirkja

SAMNINGSAÐILAR:

1. grein:

Bæjarstjórn Kópavogs gerði svofellda samþykkt 14. júní 1989:

 

„Bæjarstjórn samþykkir þá meginstefnu um byggingu íþróttamannvirkja í samstarfi íþróttafélaganna og kaupstaðarins, að bæjarsjóður leggi fram 8% stofnkostnaðar þeirra, að fullnægðum tilteknum skilyrðum, þar til framlag Íþróttasjóðs ríkisins hefur borist. Samningur um samstarf og eignarhlutföll liggi ávallt fyrir áður en framkvæmdir hefjast."

 

Á grundvelli þessarar samþykktar gerir bæjarstjórinn í Kópavogi f.h. bæjarstjórnar Kópavogs svohljóðandi rammasamning við Íþróttafélagið Gerplu, Handknattaleiksfélag Kópavogs, Íþróttafélag Kópavogs og Ungmennafélagið Breiðablik:

 

2. grein:

Bæjarstjórn Kópavogs annars vegar og hins vegar hvert hinna áðurnefndu félaga skuldbinda sig til að gera samstarfssamning, eftir því sem við á og tilefni gefst til um:

a) Undirbúning, hönnun, framkvæmdaáætlun, stjórnun framkvæmda og stofnkostnað vegna bygginga íþróttamannvirkja,

b) afnot kaupstaðarins af íþróttamannvirkjum og

c) gildistíma samstarfssamninganna.

 

GILDISTÍMI:

3. grein:

Rammasamningur þessi gildir í fjögur ár í senn og framlengist sjálfkrafa sé honum ekki sagt upp með tólf mánaða fyrirvara. Samningurinn er þó ekki uppsegjanlegur í fyrsta skipti fyrr en fimm árum eftir undirritun.

4. grein:

Gerður skal samstarfssamningur um hvern áfanga í framkvæmdum þannig að báðir samningsaðilar geti miðað áætlanir sínar við hæfilega langan tíma.

ALMENN ÁKVÆÐI:

5. grein:

Samstarfssamningar milli kaupstaðarins og íþróttafélaganna eru ekki aðeins viðurkenning kaupstaðarins á þjónustuhlutverki íþróttafélaganna heldur einnig yfirlýsing íþróttafélaganna um hlutverk sitt og skyldur í bæjarlífinu.

6. grein:

Með rammasamningi þessum skuldbinda íþróttafélögin sig til að leggja kapp á þjónustu við bæjarbúa og gera sem flestum þeirra mögulegt að stunda íþróttir, hverjum á sínu sviði, m.a. með því að láta þá sitja fyrir um aðstöðu og leigu á lausum tímum í íþróttamannvirkjum og á íþróttavöllum.

7. grein:

Íþróttafélögin skuldbinda sig til að veita báðum kynjum jafna aðstöðu til íþróttaiðkana.

8. grein:

Íþróttafélögin skuldbinda sig til að veita öllum aldurshópum jafna aðstöðu til íþróttaiðkana í mannvirkjum sem kaupstaðurinn hefur lagt fé til og að haga starfi sínu þannig að sem flestir einstaklingar geti tekið þátt í íþróttum.

9. grein:

Vegna fjárframlaga Kópavogskaupstaðar til íþróttamannvirkja skuldbinda íþróttafélögin sig til að láta bæjarbúa sitja fyrir um leigu á tímum sem eru a.m.k. 10% þess tíma sem er til ráðstöfunar eftir skólatíma.

10. grein:

Kópavogskaupstaður hefur forgangsrétt til notkunar á íþróttamannvirkjum á skólatíma fyrir skólabörn enda verði gerður sérstakur samningur þar um. Í allt að tíu ár eftir að íþróttamannvirki hefur verið tekið í notkun úthlutar íþróttaráð tímum í samráði við viðkomandi íþróttafélag svo sem tíðkast hefur í mannvirkjum kaupstaðarins. Íþróttafélag fær greitt fyrir tíma sem úthlutað er til annarra íþróttafélaga.

11. grein:

Íþróttafélögin skuldbinda sig til að auðvelda bæjarbúum umferð um íþróttamannvirki utan dyra s.s. með því að gera ráð fyrir skokk-, göngu- og hjólreiðabrautum um félagssvæði sín sem tengist aðliggjandi brautum.

EIGNARAÐILD:

12. grein:

Bæjarstjórn vill með samningi um eignaraðild fyrst og fremst tryggja að fé sem bæjarsjóður leggur fram til byggingar íþróttamannvirkja nýtist þeim bæjarbúum sem stunda íþróttir og heilsurækt.

Þegar íþróttamannvirki er fullgert öðlast viðkomandi íþróttafélag full umráð þess með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum greinum þessa samnings og annast þá á eigin ábyrgð rekstur og viðhald mannvirkisins. Hætti íþróttafélag starfsemi sinni í Kópavogi falla mannvirki þess til bæjarfélagsins nema um annað verði samið.

Þinglýsa skal þeirri kvöð á eignina að sala hennar og veðsetning sé með öllu óheimil án sérstaks samþykkis beggja samningsaðila.

FJÁRMÖGNUN:

13. grein:

Samkvæmt 1. grein ber íþróttafélögum að leggja fram 20% stofnkostnaðar við íþróttamannvirki sem þessi rammasamningur nær til.

14. grein:

Þegar komið er að framkvæmd við tiltekinn byggingaráfanga skal íþróttafélag gera fjármálastjóra bæjarins og fulltrúa bæjarráðs grein fyrir með hvaða hætti félagið mun leggja fram sinn hluta stofnkostnaðarins. Íþróttafélagi er heimilt að leggja fram sinn hluta með öðru en peningum, t.d. vinnu sjálfboðaliða eða efni en þá skulu aðilar semja um mat á því framlagi. Grundvöllur verðlagningar skal vera almennt verð samkvæmt teknum tilboðum í samskonar eða sambærileg verk við aðrar byggingar á vegum Kópavogskaupstaðar.

15. grein:

Íþróttafélag skal í síðasta lagi í nóvember hvert ár senda bæjarráði áætlun um stofnkostnað vegna framkvæmda næsta árs. Bæjarstjórn ákveður þá framlög vegna stofnkostnaðar til íþróttamannvirkja svo sem venja er við afgreiðslu fjárhagsáætlana.

16. grein:

Laus búnaður og áhöld eru ekki innifalin í stofnkostnaði þeim sem bæjarfélagið tekur þátt í að greiða.

17. grein:

Framlag íþróttasjóðs ríkisins, eða sjóða sem taka við hlutverki hans, rennur í bæjarsjóð sbr. samþykkt bæjarstjórnar frá 13. júní 1989.

UNDIRBÚNINGUR:

18. grein:

Við undirbúning að byggingu íþróttamannvirkis ber að taka tillit til gildandi skipulags. Þess skal gætt að kostir umhverfisins nýtist. Einnig skal hyggja að nauðsyn á mannvirkinu, að það sé hagkvæmt í alla staði og geti nýst öllum bæjarbúum á fjölbreytilegan hátt.

19. grein:

Deildarstjóri byggingadeildar bæjarins er fulltrúi bæjarráðs gagnvart íþróttafélögunum nema bæjarráð ákveði annað. Fulltrúi bæjarráðs gætir hagsmuna bæjarins á öllum stigum byggingar íþróttamannvirkja, frá undirbúningi til loka verks og ber ábyrgð á því eftirliti sem Kópavogskaupstaður hefur á framkvæmd verksins. Um íþróttamál hefur hann samstarf við íþróttaráð.

20. grein:

Við hönnun ber m.a. að hafa í huga væntanlega notkun og notagildi, hagkvæmni í byggingaraðferðum og í vali á byggingarefni, skiptingu í byggingaráfanga, að viðhald verði í lágmarki og daglegur rekstur sem auðveldastur og ódýrastur. Hönnun fylgi kostnaðaráætlun hverju sinni.

21. grein:

Framkvæmdaáætlun skal m.a. miðast við hversu brýn þörf er fyrir mannvirkið, greiðslugetu samningsaðila, byggingaráfanga, dagsetningu einstakra verkþátta og vinnu sjálfboðaliða. Framkvæmdaáætlun skal miðast við kostnaðaráætlanir og samþykkjast af bæjarráði.

STJÓRN FRAMKVÆMDA:

22. grein

Stjórn framkvæmda er í höndum viðkomandi íþróttafélags. Byggingadeild bæjarverkfræðings eða fulltrúi sem bæjarráð tilnefnir, sbr. hér að framan, fer með eftirlit. Kostnaður við eftirlit og stjórnun greiðist af byggingarfé hvers mannvirkis.

ÁGREININGUR:

23. grein

Rísi ágreiningur út af samningi þessum skal það mál rekið fyrir bæjarþingi Kópavogs.

Kópavogi, 29. október 1989

F.h. F.h.

bæjarstjórnar Kópavogs Ungmennafélagsins

Breiðabliks

 

Kristján Guðmundsson (sign.) Logi Kristjánsson (sign.)

bæjarstjóri formaður

 

Samningur um skíðaskála

 

Skíðadeild Breiðabliks og Bæjarsjóður Kópavogs gera með sér eftirfarandi samning:

 

1. grein.

Skíðadeild Breiðabliks tekur að sér að ljúka við á sinn kostnað byggingu Skíðaskálans Breiðabliks - Skíðamiðstöðvar Kópavogs. Áætlaður kostnaður við þá framkvæmd er

3.600.000,- og verði henni að fullu lokið á árinu 1996.

 

Á móti mun Bæjarsjóður Kópavogs veita Skíðadeild Breiðabliks fjárstuðning sem nemur afborgunum og vöxtum vegna skuldabréfs nr. 210287, að fjárhæð kr. 6.244.000,- í Sparisjóði Kópavogs, eftir að samið hefur verið um breytingu á því í lán til 6 ára með árlegum afborgunum , fyrst í nóvember 1993.

 

2. grein.

Bæjarsjóður Kópavogs greiðir reikning frá Rafberg hf. að upphæð kr. 479.325,- en þessi reikningur átti að vera með í uppgjöri vegna 60/40 skiptingar milli Kópavogs og Skíðadeildar.

Skíðadeild hefur nú þegar greitt kr. 270.000,- á móti þessum reikningi.

 

3. grein.

Rekstur Skíðaskálans Breiðabliks - Skíðamiðstöðvar Kópavogs verður í höndum Skíðadeildar Breiðabliks, sem einnig mun sjá um viðhald Skálans undir eftirliti Framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogskaupstaðar.

 

4. grein.

Bæjarsjóður tekur þátt í rekstri Skíðaskálans með eftirfarandi hætti:

 

1) Bæjarsjóður greiðir allar tryggingar vegna Skálans.

2) Bæjarsjóður tekur þátt í rafmagnskostnaði með árlegri greiðslu að fjárhæð kr. 320.000,- miðað við byggingavísitölu 195,7 stig.

3) Bæjarsjóður greiðir 60% af viðhaldskostnaði Skíðaskálans, Skíðadeild greiðir 40%.

 

Annar kostnaður s.s. laun skálavarðar, símakostnaður, aðkeypt vatn og hreinlætisvörur svo og önnur aðkeypt þjónusta sem fallið getur undir venjubundinn rekstrarkostnað, fellur á Skíðadeild Breiðabliks.

Til að mæta þessum útgjöldum hefur Skíðadeild leigutekjur af Skálanum.

 

5. grein.

Samningur þessi gildir í 10 ár, en er uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara.

Samningur þessi öðlast gildi þegar Bæjarráð Kópavogs og stjórn Skíðadeildar Breiðabliks hafa veitt samþykki sitt.

 

 

F.h. Skíðadeildar Breiðabliks F.h. Bæjarráðs Kópavogs

 

________________________ _______________________

 

 

Vottar:

 

___________________________________ kt.______________

 

___________________________________ kt.______________

 

 

Rekstrarsamningur

 

 

Bæjarsjóður Kópavogs kt: 700169-3759 og Ungmennafélagið Breiðablik kt: 480169-0699 gera með sér samning um rekstur íþróttamannvirkja í Kópavogsdal nánar tiltekið íþróttahús og sandgrasvöll.

 

 

1. grein

Breiðablik tekur að sér rekstur íþróttahúss, sandgrasvallar og félagsheimilis við Dalsmára 5 í Kópavogi. Rekstrarnefnd fer með rekstur mannvirkjanna f.h. aðalstjórnar Breiðabliks. Íþróttafulltrúi skipar einn fulltrúa með málfrelsi og tillögurétti í rekstrarnefndina. Fyrri samningar falla úr gildi.

 

2. grein

Samningur þessi gildir frá og með 1. janúar 1998 og endurskoðast árlega við gerð fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar. Samningsaðilar geta sagt samningum upp með 3ja mánaða fyrirvara miðað við áramót.

 

3. grein

Bókhald vegna reksturs skal fært eins og lög og reglur kveða á um. Breiðablik skuldbindur sig til að skila íþróttafulltrúa sundurgreindu rekstraryfirliti liðins árs fyrir 1. febrúar og síðan ársfjórðungslega 15. dag skilamánaðar sem eru apríl, júlí og október. Embætti íþróttafulltrúa getur hvenær sem er óskað eftir sundurgreindum hreyfingarlistum fyrir hvern einstakan rekstrarþátt samningsins á samningstímanum ef ástæða þykir til að mati embættisins. Samið skal sérstaklega um sundurgreiningu launaliðar verði eftir því óskað.

Verði um vanefndir á skilum að ræða samkvæmt framanskráðu, er Kópvogsbæ heimilt að fella samninginn þegar úr gildi og taka yfir reksturinn frá með næstu mánaðarmótum eftir skiladag.

Á grundvelli ársfjórðungsyfirlits getur Kópavogsbær gert athugasemdir og óskað leiðréttinga á rekstrinum strax. Breiðablik getur jafnframt óskað leiðréttinga á rekstrarframlagi á grundvelli ársfjórðungsyfirlitsins. Ef ekki hafa farið fram viðhlítandi leiðréttingar að mati íþróttafulltrúa, við skil næsta 3ja mánaða uppgjörs, áskilur Kópavogsbær sér allan rétt til að taka yfir reksturinn á þeim hluta íþróttahússins sem er í eigu bæjarins. Jafnframt yfirtekur Kópavogsbær réttindi og skyldur starfsfólks að því marki sem þær eru samrýmanlegar þeim ákvæðum sem almennt gilda um starfsmenn Kópavogsbæjar.

 

4. grein

Breiðablik skuldbindur sig til þess að öll umgengni og þrif á mannvirkjunum sé í fyllsta samræmi við kröfur bæjarins þar um.

 

5. grein

Kópavogsbær hefur forgang að íþróttahúsinu og sandgrasvellinum ásamt baðaðstöðu undir íþróttakennslu skólanna frá kl. 8:00 til 15:00, alla virka daga vikunnar, frá 1. september til 1. júní hvert skólaár. Nýti skólarnir ekki allan þann tíma, er Breiðablik heimilt að ráðstafa honum í samráði við íþróttafulltrúa.

Kópavogsbær hefur heimild til að nota íþróttamannvirkin á öðrum tímum og í öðrum tilgangi en að framan greinir enda sé fyrirvari ekki skemmri en þrír mánuðir og samkomulag verði við Breiðablik um notkunina. Í slíkum tilfellum greiðir Kópavogsbær ekki leigu fyrir afnot mannvirkjanna en bætir Breiðabliki hins vegar upp sannanlegt tekjutap vegna þeirrar útleigu sem fellur niður auk þess þann útlagða kostnað sem af notkuninni leiðir. Jafnframt því mun Kópavogsbær leitast við að leysa húsnæðisvanda einstakra deilda sem upp kann að koma. Á öðrum tímum hefur Breiðablik húsið til ráðstöfunar, sbr. grein 6.

 

6. grein

Breiðablik úthlutar tímum í húsinu og á sandgrasvelli undir starfsemi sína í fullu samráði við íþróttafulltrúa og með samþykki íþróttaráðs og skulu æfingatöflur vetrarins liggja fyrir til afgreiðslu í síðasta lagi 20. ágúst ár hvert. Hver tímaeining er 50 mínútur. Breiðablik hefur afnot af íþróttahúsinu undir æfingar deilda, íþróttaskóla og keppni allt að 126 tímaeiningum á viku. Jafnframt því hefur Breiðablik 24 tímaeiningar og HK 14, á sandgrasvellinum þar af allt að 50% tímanna um helgar.

 

7. grein

Breiðablik ber alla ábyrgð á rekstri mannvirkja, samkvæmt 1. grein, og skal leitast við að ná sem hagstæðustum rekstri þeirra

 

8. grein

Tekjur af rekstri mannvirkjanna eða hluta þeirra eru tvenns konar.

8.1. Fastar tekjur

Kópavogsbær greiðir rekstrarkostnað við íþróttahúsið og sandgrasvöllinn samkvæmt fjárhagsáætlun ár hvert. Fyrir árið 1998 hljóðar áætlunin upp á 30.106 þús. kr.

Greiðslurnar skiptast í tvennt.

Greiðslur vegna orkukostnaðar, trygginga og fasteignagjalda greiðast samkvæmt framlögðum reikningum. Með greiðslur vegna viðhalds húss fer samkvæmt ákvæðum 10 gr. samningsins. Aðrar greiðslur s.s vegna launa og annars rekstrarkostnaðar greiðast með jöfnum mánaðargreiðslum.

8.2. Aðrar tekjur

Framlag Breiðabliks til reksturs íþróttamannvirkjanna er kr. 520 þús. Aðrar tekjur af útleigu mannvirkjanna og af annarri starfssemi hefur Breiðablik til ráðstöfunar til að bæta þjónustu við félagsmenn sína og aðra bæjarbúa.

 

9. grein

Á skólatíma er öll sölustarfsemi bönnuð í húsinu nema með samþykki íþróttafulltrúa. Breiðablik er einu heimilt að stunda sölustarf á íþróttasvæði Breiðabliks að uppfylltum skilyrðum laga um verslunarleyfi og með samþykki íþróttafulltrúa. Einnig er Breiðablik einu heimilt að selja auglýsingar á svæðinu. Staðsetning auglýsinga skal vera samkvæmt teikningum hönnuða.

Þessi rekstur sem er á kostnað og áhættu Breiðabliks, er undanskilinn rekstri mannvirkjanna og er með öllu óviðkomandi Kópavogsbæ.

 

10. grein

Til viðhalds ráðstafar Kópavogsbær allt að 0,5% af byggingarkostnaði mannvirkjanna. Fé af viðhaldslið skal eingöngu ráðstafað til viðhalds mannvirkjanna.

Tæknideild Kópavogsbæjar, hér eftir nefnd T.D., gerir áætlun um reglubundið viðhald mannvirkjanna í samráði við Breiðablik fyrir hvert ár. Áætlunin skal liggja fyrir í ársbyrjun. Allar viðhaldsframkvæmdir á mannvirkjunum eru háðar samþykki T.D. sem hefur yfirumsjón með þeim, segir til um hvernig og hvenær eigi að vinna verkið og tekur það út að verki loknu, áður en reikningar eru greiddir.

T.D. ber að yfirfara og samþykkja reikninga. Í upphafi árs fær Breiðablik 200.000,- kr. innborgað af viðhaldsfé ársins og skal sú upphæð að jafnaði vera til ráðstöfunar hjá félaginu meðan fé endist til viðhalds húss skv. fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar. Gera þarf reglulega grein fyrir ráðstöfun á þessu fé á mánaðarlegum fundum fulltrúa T.D. og Breiðabliks.

Verði tjón á mannvirkjunum við aðra notkun en það er ætlað til t.d. útleigu á vegum Breiðabliks gegn gjaldi ber Breiðablik allan kostnað vegna þess sbr. 15 grein.

T.D. í samráði við Breiðablik skal sjá um gjaldfært meiriháttar viðhald á húsnæði og lóð. Slíkar endurbætur og breytingar skulu ákveðnar við gerð fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar hverju sinni, en þær eru:

Meiriháttar lagfæringar á gólfi í íþróttasal, og gerviefni sandgrasvallar.

Endurnýjun á þakefni og gluggum.

Utanhússmálningu og meiriháttar viðgerðir á útveggjum.

Meiriháttar lagfæring á hitakerfi, loftræsti-, raf- og frárennslislögnum.

Nauðsynlegar úrbætur til að mæta kröfum eldvarnareftirlits.

T.D. í samráði við Breiðablik gerir tillögu um fjáhæð til meiriháttar viðhalds húsnæðis og lóðar, vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar.

Verði samningnum sagt upp af öðrum hvorum samningsaðila skuldbindur Breiðablik sig til þess að skila eignum, öðru en félagsheimili, til bæjarins í sambærilegu ástandi og félagið tók við þeim.

 

11. grein

Breytingar á mannvirkjum og lóð eru óheimilar án skriflegs samþykkis Kópavogsbæjar.

 

12. grein

Öll umhirða mannvirkja og lóða að undanskildum grasæfingasvæðum, skal vera í höndum Breiðabliks og skal hún, eins og aðrir rekstrarþættir vera á fjárhagsáætlun hvers árs. Breiðabliki er heimilt að semja sérstaklega við Tækni- og/eða íþróttadeild bæjarins eða aðra aðila um framkvæmd lóðaumhirðu, s.s. um umhirðu sandgrasvallar, sé það talið hagkvæmt.

 

13. grein

Til áhaldakaupa fyrir íþróttakennslu grunnskólanna skal varið allt að kr. 208 þús. af fjárframlagi ársins samkvæmt grein 8.1. Önnur tækjakaup fjármagnar Breiðablik alfarið.

 

14. grein

Ráðningar starfsmanna, sem eru framkvæmdastjóri hússins, rekstrarstjóri og almennir starfsmenn (baðvarsla, gæsla, ræsting og afleysingar) og samningar um réttindi og kjör þeirra skulu vera í höndum Breiðabliks. Leita skal umsagnar íþróttafulltrúa við ráðningar í öll störf. Breiðablik skuldbindur sig til þess að hafa að lágmarki tvo starfsmenn við störf í íþróttahúsi á hverjum tíma meðan starfsemi er í gangi og á skólatíma tvo baðverði, karl og konu.

 

15. grein

Breiðablik skuldbindur sig til þess að hafa mannvirkin tryggð í samræmi við óskir Kópavogsbæjar þar um og í fullu samráði við eftirlitsaðila húseigna bæjarins. Tjón á mannvirkinu af völdum annarar útleigu en íþróttakennslu skólanna og starfssemi íþróttafélagsins er alfarið á ábyrgð félagsins.

 

16. grein

Komi upp ágreiningur um túlkun eða útfærslu þessa samnings skal málinu vísað til eignaraðila til úrskurðar.

 

Kópavogi,

 

F.h. Kópavogsbæjar F.h. Umf. Breiðabliks

 

 

 

Vitundarvottar:

 

 

 

 

 


Vinnureglur

 

 

um viðhaldsliði samnings Kópavogsbæjar og Breiðabliks um rekstur íþróttahússins Smárans fyrir árið 1998.

 

1. Meginreglan er að viðhaldsframkvæmdir eru háðar samþykki Tæknideildar. Það á bæði við um forgangsröðun verkefna og eins um hver vinni viðkomandi verk.

 

2. Rekstraraðilar skulu sinna nauðsynlegu minniháttar viðhaldi. Í þessu felst m.a. að kalla til viðgerðarmenn og útvega efni.

Rekstraraðilar geta í samráði við Tæknideild sinnt viðhaldsverkefnum beint, (þ.e. lagt til efni og/eða vinnu). Reikningar fyrir þau verk skulu samþykktir af Tæknideild eins og aðrir reikningar.

 

3. Stefnt er að því að fulltrúar samningsaðila þ.e. framkvæmdastjóri og/eða rekstrarstjóri íþróttahússins Smárans og eftirlitsmaður fasteigna hjá Kópavogsbæ hittast annan þriðjudag í hverjum mánuði í Smáranum vegna viðhalds hússins. Ef annar samningsaðili telur brýnt að boða til aukafundar þá skal það gert án tafar.

· Á þessum fundunum skal m.a. skoða verkstöðu, taka ákvarðanir um fyrirhugaðar framkvæmdir, fara yfir og samþykkja sreikninga,

· einnig farið yfir áætlanir og tillögur um stærri viðhaldsframkvæmdir.

 

4. Íþróttafulltrúi Kópavogs og rekstrarnefnd Smárans skulu fylgjast með því að vinnureglur þessar séu virtar og geta ef þess er óskað setið fundina.

 

 

Gjört í Kópavogi, 1998

 

 

__________________ ________________________ _____________________

Jón Júlíusson Stefán L. Stefánsson Ásgeir Friðgeirsson

Íþróttafulltrúi Deildarstjóri Formaður

Framkvæmdasviðs Breiðabliks

Tæknideildar Kópavogsbæjar

 

 

 

REGLUGERÐ FYRIR REKSTRARNEFND ÍÞRÓTTAHÚSS OG SANDGRASVALLAR

Samþykkt á aukaaðalfundi 12. október 1994.

Hlutverk:

Rekstrarnefnd félagssvæðis Breiðabliks annast allan daglegan rekstur mannvirkja samkvæmt rekstrarsamningi Kópavogs og Breiðabliks dags. 15.okt 1994.

Til verkefna nefndarinnar heyra m.a.:

Ákvörðun leigugjalda af mannvirkjum og innheimta þeirra.

Úthlutun tíma til deilda félagsins og sölu þeirra, er lausir kunna að vera.

Standa fyrir fjáröflunum til að auka rekstrartekjur mannvirkjanna s.s. með mótshaldi og /eða annarri notkun mannvirkja.

Ráðningu starfsfólks að fengnum tillögum framkvæmdastjóra.

Umsjón með minni háttar framkvæmdum á svæðinu sem rúmast innan fjárhagsáætlunar.

Umsjón með rekstri og viðhaldi mannvirkja.

Nefndin skal vinna í nánum tengslum við aðalstjórn og formenn deilda til að tryggja sem besta nýtingu starfsfólks og hagkvæmastan rekstur svæðisins og skal formaður nefndarinnar sitja reglulega formannafundi.

Skipan nefndarinnar

Nefndin skal skipuð 3 mönnum. Á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund tilnefnir aðalstjórn 3 menn til tveggja ára í senn. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.

Fjármál

Nefndin hefur sjálfstæðan fjárhag. Nefndin skilar inn ársfjórðungslegum yfirlitum í samræmi við rekstrarsamning. Á aðalfundi félagsins skal nefndin leggja fram endurskoðaða reikninga til samþykktar. Reikningsár rekstrarnefndar miðast við almanaksárið.

Nefndin skal leggja fjárhagsáætlun fyrir aðalstjórn til samþykktar fyrir 15. október ár hvert og endurskoðaða áætlun í maí og september ef ástæða er til.

Fundargerðir, ársskýrslur

Nefndin skal halda fundargerðarbók og skal afrit fundargerða lagt fram á formannafundum mánaðarlega. Ársskýrslu nefndarinnar skal skila til aðalstjórnar eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund félagsins.

Gildistaka, breytingar

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Þeim má ekki breyta nema á aðalfundi.

 

 

 

REGLUGERÐ UM HEIÐURSVEITINGAR

Samþykkt á aðalfundi Breiðabliks 2016

Framkvæmdastjórn félagssins skipar fimm manna nefnd til heiðursveitinga skv.reglugerð þessari. Nefndin velur sér formann.

Reglugerð um veitingu bikara á aðalfundi Breiðabliks.

Framkvæmdastjórn Breiðabliks getur á aðalfundi félagsins veitt bikara til viðurkenningar á starfi innan deilda félagsins á síðasta starfsári. Bikararnir sem um ræðir eru farandbikarar og veittir til eins árs í senn.
Veita má eftirfarandi viðurkenningar á aðalfundi félagsins:

Deildabikar: Er veittur einni af deildum félagsins. Við ákvörðun um veitingu skal tekið tillit til virkni starfs innan deildarinnar, nýliðunar, árangurs í keppni og fjárhagslegrar afkomu á síðasta starfsári.

Þjálfarabikar: Er veittur þjálfara hjá einni af deildum félagsins. Við ákvörðun um veitingu skal tekið tillit til árangurs, hvor heldur um er að ræða hóp- eða einstaklingsíþróttagrein. Þá skal einnig litið til áhuga, menntunar og metnaðar.

Afreksbliki – karlar: Veittur þeim karli sem náð hefur bestum árangri karla innan félagsins síðasta starfsári.

Afreksbliki – konur: Veittur þeirri konu sem náð hefur bestum árangri kvenna innan félagsins á síðasta starfsári.

Afreksblikar Breiðabliks: Veittur því liði eða keppnishóp sem náð hefur bestum árangri hóps eða liðs innan félagsins á síðasta starfsári.

Félagsmálabikar: Er veittur þeim einstaklingi sem sýnt hefur framúrskarandi dugnað og áhuga í starfi innan félagsins. Ákvörðun um veitingu félagsmálabikars taka síðustu þrír handhafar bikarsins hverju sinni.“
Samþykkt eftir umræður.
 

Samþykkt á aðalfundi Breiðabliks 1990.

Bronsbliki

Aðalfundur Breiðabliks haldinn 28. Maí 1998 , samþykkir að deildum félagsins verði heimilað að afhenda traustum félögum, sem starfað hafa í a.m.k. fjögur ár að málefnum félagsins, starfsmerki Breiðabliks, sem verði úr bronsi.

 

Silfurbliki

Silfurblikann má veita einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins eða einstakra deilda þess. Mest má veita fimm merki á ári hverju.

Gullbliki

Gullblikann má veita einstaklingum sem hafa um langt skeið unnið mikið starf fyrir félagið eða einstaka deildir þess. Mest má veita eitt merki að jafnaði á ári.

Heiðursbliki

Heiðursblika, heiðursfélaga, má undir sérstökum kringumstæðum kjósa einstaklinga, 50 ára eða eldri, sem hafa unnið framúrskarandi starf fyrir félagið um langan tíma eða hafa á annan veg reynst félaginu einstaklega vel.

Aðalstjórn félagsins ákveður á stjórnarfundi, þar sem allir meðlimir hennar eru mættir hverjir skulu sæmdir heiðursviðurkenningum félagsins. Kosning heiðursblika verður að vera samhljóða.

Á hverjum aðalfundi skal aðalstjórn birta lista með nöfnum allra þeirra sem hlotið hafa viðkenningar þessar.

 

 

AÐALFUNDASAMÞYKKTIR

 

Samþykkt á aðalfundi 1989

Skipting lottótekna og rekstrarframlags frá Kópavogsbæ

 

Á aðalfundi 1989 voru samþykktar reglur um skiptingu á rekstrarframlagi Kópavogsbæjar og lottótekjum.

 

25 % fara til reksturs hjá aðalstjórn

3 % fara í varasjóð

62 % skiptast milli deilda eftir iðkendafjölda sbr. úthlutunarreglur íþróttaráðs.

10 % til deilda eftir árangri að mati stjórnar.

 

UMSK og íþróttaráð hafa veitt styrki til einstakra verkefna og hefur þeim verið haldið utan við þessa skiptingu.

 

Reglur þessar hafa þann kost að þær hvetja deildirnar til starfs en þann ókost að aðalstjórn á erfitt með að styðja við bakið á þeim sem ef til vill helst þurfa á fjármunum að halda hverju sinni en eiga erfiðast með fjáröflun. Að öðru leyti vísast til ársreiknings aðalstjórnar.

 

Tillögur samþykktar á aðalfundi 1993.

Sögunefnd

Aðalfundur Breiðabliks haldinn í Félagsheimili Kópavogs 25. maí 1993 samþykkir að kjósa 5 manna sögunefnd sem m.a. skal hafa það verkefni að:

- skipuleggja heimildaöflun (ritað mál, myndir o.fl.) fyrir félagið,

- taka viðtöl við eldri félagsmenn og afla efnis frá þeim,

- hefja undirbúning að söguritun fyrir félagið með það að markmiði að hún komi út í tilefni 50 ára afmælis félagsins árið 2000.

Nefndin hafi heimild til að ráða mann til verksins, í samráði við aðalstjórn.

 

Getraunir

Aðalfundur Breiðabliks haldinn í Félagsheimili Kópavogs 25. maí 1993 samþykkir að framlengja gildistíma samþykktar frá síðasta aðalfundi um Getraunir til 31. maí 1994.

 

Búninganefnd

Aðalfundur Breiðabliks haldinn í Félagsheimili Kópavogs 25. maí 1993 samþykkir að aðalstjórn skipi 3ja til 5 manna búninganefnd fyrir félagið sem hafi það verkefni að:

- samræma útlit keppnis- og æfingabúninga.

- annast sameiginleg innkaup á búningum, sem auk sölu til einstakra deilda yrði til sölu í félagsheimilinu.

- nefndin leitist við að samræma tekjuöflun deildanna v/búningakaupanna.

Aðalfundurinn beinir því til stjórna deilda að þær láti nefndinni í té með sem mestum fyrirvara hvaða þörf deildirnar hafa fyrir búninga.

 

 

 

Fréttabréf

Aðalfundur Breiðabliks haldinn miðvikudaginn 2. júní 1993 samþykkir eftirfarandi um blaðaútgáfu Breiðabliks:

1. Fréttabréfa og blaðaútgáfa félagsins verði samræmd.

2. Að aðalstjórn bjóði út eða ráði verktaka til að gefa út átta blaðsíðna fréttabréf 6 til 8 sinnum á ári. Við það skal miðað að greiðsla félagsins vegna útgáfunnar verði ekki nema því sem prentunar og dreifingarkostnaði nemur.

3. Að einstakar deildir gefi ekki út ársrit eða fréttabréf heldur geti þær fengið fréttabréfið stækkað og helgað viðkomandi íþróttagrein (deild). Ef sérstök ástæða er til t.d. tugs afmæli deildar mætti gefa út sérstakt blað eða rit.

Kostnað og/ eða tekjur af stækkun fréttabréfsins ber viðkomandi deild, sem jafnframt safnar þá auglýsingum og/eða styrktarlínum.

Tillögur samþykktar á aðalfundi 1994

 

Tillaga um útgáfu sérstakra árskorta

Aðalstjórn sjái um útgáfu árskorta í samráði við stjórnir deilda.

Árskortin gildi á heimaleiki og mót á vegum allra deilda að undanskildum bikarleikjum.

Korthafar verði:

Heiðursfélagar, gullblikar, bæjarfulltrúar, íþróttaráð og aðalstjórn. Enn fremur fyrirtæki, sem gert hafa samninga við félagið og formannafundur samþykkir að sýna þann heiður.

Gildistími kortanna verði 1 ár og eru þau gefin út á nafn.

 

 

 

 

 

Æfingagjöld.

Samþykkt á aðalfundi 2016

Æfingagjöld eru ákveðin af stjórnum deilda félagsins fyrir komandi starfsár hverju sinni og taka þau mið af þeirri þjónustu sem veitt er.
Breiðablik leitast við að koma til móts hagsmuni barnafjölskyldna, hvort heldur sem er þegar fleiri en eitt barn af sama heimili æfa hjá félaginu eða sami iðkandi æfir fleiri en eina grein. Í slíkum tilfellum er heimilt að veita afslátt af æfingagjöldum.
Aðalstjórn Breiðabliks skal í upphafi hvers starfsárs ákveða afsláttarreglur vegna æfingagjalda fyrir starfsárið. Afsláttarreglurnar skulu kynntar deildum og birtar á heimasíðu félagsins.
Innheimtufulltrúi annast endurgreiðslu afsláttar samkvæmt þeim reglum sem gilda hverju sinni.