Afrekssjóður

Reglur um afrekssjóð skíðadeildar Breiðabliks

1. gr.
Tilgangur
            Tilgangur sjóðsins er að veita afreksíþróttafólki í skíðadeild Breiðabliks á aldrinum 15 ára og eldri fjárhagslegan styrk vegna æfinga eða keppni og þannig búa þeim sem besta aðstöðu til að stunda íþrótt sína.

2. gr.
Viðmið styrkveitinga
            Við styrkveitingar skal taka mið af eftirfarandi:
a) Árangri á innlendum og erlendum vettvangi.
b) Markmiðum og áætlunum um æfingar og/eða þátttöku í keppnum innanlands og erlendis.
c) Unnum titlum í íþróttinni á árinu.

3. gr.
Stjórn sjóðsins
Sjóðsstjórn skal skipuð þremur einstaklingum. Stjórn skíðadeildar Breiðabliks skipar tvo og alpagreinanefnd skipar einn. Starfsstími sjóðsstjórnar er samhliða aðalfundum skíðadeildar Breiðabliks.
Hlutverk sjóðsstjórnar er að ákvarða styrkveitingar, hafa eftirlit með nýtingu styrkveitinga, og sjá um kynningarstarfsemi sjóðsins. Sjóðsstjórn er heimilt að setja sér vinnureglur um úthlutun.

4. gr.
Umsóknir um styrki
Stjórn sjóðsins auglýsir eftir umsóknum um styrki einu sinni á ári og skulu þær berast á þar til gerðum eyðublöðum fyrir 15. nóvember ár hvert.
Með umsóknum skulu fylgja:
a) Áætlanir um æfingar og fyrirhugaða þátttöku í keppnum.
b) Fjárhagsáætlun vegna fyrirhugaðra æfinga og/eða keppna.
c) Upplýsingar um aðra styrki.
d) Umsögn þjálfara.
e) Önnur gögn er stjórn sjóðsins kann að telja nauðsynleg.
Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til að afla sér nánari upplýsinga en þeirra sem fram koma á umsóknareyðublaði og leita umsagnar annarra aðila.
Styrkveitingar, sem sjóðstjórn ákveður, skulu bornar undir stjórn skíðadeildar Breiðabliks til staðfestingar.

5. gr.
Greiðsla styrkja
Styrkir verða greiddir til styrkhafa í tvennu lagi, helmingur þegar ákvörðun liggur fyrir og hinn helmingurinn að fengnu fjárhagslegu uppgjöri og stuttri greinargerð um það. Vanræki styrkþegi þessa upplýsingaskyldu eða telji sjóðsstjórnin að styrkurinn hafi ekki verið nýttur í samræmi við framlagðar áætlanir er sjóðsstjórn heimilt að synja eða víkja frá frekari styrkveitingum.
Styrkupphæðir miðast við fjármagnsgetu sjóðsins hverju sinni. Við styrkveitingar er ekki heimilt að ganga á stofnfé sjóðsins.

6. gr.
Skyldur styrkþega
Allir þeir sem þiggja styrk úr sjóðinum skulu hlíta þeim reglum sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit, svo og þeim almennu siða- og lagareglum sem gilda um framkomu íþróttamanna.

7. gr.
Varsla afrekssjóðs
Vörslu og reikningshald sjóðsins annast stjórn skíðadeildar Breiðabliks. Endurskoðaða reikninga sjóðsins skal birta árlega með reikningum skíðadeildar Breiðabliks á aðalfundi deildarinnar.
Fjármuni sjóðsins skal ávallt varðveita og ávaxta með tryggum hætti.

8. gr.
Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi:
a) Árlegt framlag samkvæmt fjárhagsáætlun stjórnar skíðadeildar Breiðabliks.
b) Frjáls framlög og söfnunarfé.
c) Vaxtatekjur.
Stofnfé sjóðsins er 500.000 krónur.

9. gr.
Gildistími
Reglur þessar eru samþykktar af aðalfundi skíðadeildar Breiðabliks 14. apríl 2010.


Umsóknareyðublað er hægt að nálgast hér.