Körfubolti

Blikar Bikarmeistarar í unglingaflokki karla

Fyrsti bikarmeistaratitill körfuknattleiksdeildar Breiðabliks kom í hús í gær, á fimmtugasta afmælisári deildarinnar. Eftir spennusigur á ÍR þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin, nældu strákarnir okkar í unglingaflokki í titilinn eftirsótta.

Á leið sinni í úrslitaleikinn lögðu strákarnir lið Þórs frá Akureyri, Njarðvík og Fjölni.

Leikurinn í gær var spennandi frá fyrstu mínútu, þar sem liðin skiptust á leiða. Bæði lið voru skipuð leikmönnum sem spila stór hlutverk hjá meistaraflokkum félaganna og var leikurinn ákaflega skemmtilegur, eins og við var að búast. Þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan 82-80 Blikum í vil. Í lokasókn ÍR-inga, kom Breiðablik í veg fyrir að ÍR næði að jafna metin og setja leikinn mögulega í framlengingu. Það var svo Árni Elmar sem kláraði leikinn á vítalínunni. Lokatölur 84-80.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar flautan gall í leikslok, hjá strákunum sem og á áhorfendapöllunum. Liðið er skipað leikmönnum sem flestir hafa spilað saman upp alla yngri flokka Breiðabliks og hafa lengi stefnt að stórum titli, sem loks var landað.

Þjálfarateymi Breiðabliks á hrós skilið, en leikur liðsins var vel skipulagður og yfirvegaður. Lárus þjálfari sagði í lok leiks að þetta væri stund sem hann ætti aldrei eftir að gleyma, enda væri þetta fyrsti titillinn sem hann hampaði sem þjálfari.

Snorri Vignisson var valinn maður leiksins og var vel að því kominn, en Snorri skilaði 23 stigum, 12 fráköstum og 4 stolnum boltum.

Við erum sannarlega stolt að hafa innan okkar raða þessa frábæru körfuboltamenn og það er ljóst að framtíðin er björt í Smáranum.

Til hamingju með titilinn strákar og ÁFRAM BREIÐABLIK! 

Körfubolti

Bikarævintýri Breiðabliks

Breiðablik reið á vaðið í bikarviku KKÍ, þegar strákarnir okkar mættu stórskota- og stjörnuliði KR í fjögurra liða úrslitum Maltbikars karla. Var þetta í fyrsta sinn í sögu félagsins sem Breiðablik lék í undanúrslitum bikarkeppni í Laugardalshöll og óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt í hópnum. Fyrir leikinn voru flestar spár á þann veg að margfaldir og ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar KR myndu einfaldlega valta yfir hið unga lið Breiðabliks. Raunin varð önnur og mættu Kópavogspiltar dýrvitlausir í leikinn, gáfu allt sem þeir áttu og veittu KR-ingum harða keppni og hörkuleik. Að lokum fór þó svo að vesturbæjarliðið vann sanngjarnan sigur, sem þó var ekki eins afgerandi og spáð hafi verið.

Við erum gríðarlega stolt af strákunum okkar, en þeir voru félaginu til mikils sóma og geta svo sannarlega borið höfuð hátt. Körfuknattleiksdeild Breiðabliks vill þakka öllu stuðningsfólki sem lagði leið sína í höllina og gerði þennan leik að ógleymanlegri stund. Við erum á því að stemningin hafi öll verið okkar megin á pöllunum allan leikinn. Allt það jákvæða sem út úr leiknum kom, verður tekið og byggt á því til framtíðar. Áfram Breiðablik
 

Körfubolti

Hægt að kaupa miða á bikarleikinn í Höllinni í Smáranum

Viðureign Breiðabliks og KR í 4-liða úrslitum Maltbikarsins fer fram þann 10. janúar kl 17:00 í Laugardalshöllinni

Körfuknattleiksdeildin þakkar stuðninginn og góða mætingu á miðforsöluna í gærkvöldi!

Þeir sem ekki náðu að tryggja sér miða í gær geta mætt í afgreiðslu í Smárans og nælt sér í miða á leikinn. Miðsala mun vera í afgreiðslunni fram að leik og hægt verður að greiða með greiðslukorti og auðvitað reiðufé.

Breiðablik nýtur ekki góðs af þeim miðum sem seldir verða við hurð á leikdegi svo við hvetjum fólk og fyrirtæki til að styðja við félagið okkar allra með því að kaupa miða á leikinn í Smáranum.

Nú fer hver að verða síðastur að verða sér út um Breiðabliks SnapBack derhúfur en hægt er að panta með því að senda skilaboð á Facebooksíðu Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks eða með pósti á netfangið .(JavaScript must be enabled to view this email address)

Körfubolti

Blikar með 3 fulltrúa í A-landsliðsverkefni

Frá vinstri: Hildur Sigurðardóttir, Sóllilja Bjarnadóttir og Isabella Ósk.

Við Blikar erum afar stolt að segja frá því að við áttum þrjá fulltrúa í íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta, sem tók þátt í æfingamóti í Lúxemborg milli jóla og nýárs. Isabella Ósk og Sóllilja Bjarnadóttir voru að spila sína fyrstu leiki fyrir Íslands hönd og voru þær landi og þjóð til sóma.

Hildur var fastamaður í íslenska landsliðinu sem leikmaður, en er rétt eins og þær Isabella og Sóllilja er hún núna að stíga sín fyrstu skref sem landsliðsþjálfari. Við óskum stelpunum okkar innilega til hamingju.

Körfubolti

Breiðablik í Höllina: Forsala miða í Smáranum

BREIÐABLIK Í HÖLLINA

Þann 10. janúar næstkomandi kl. 17:00 mun Breiðablik leika í 4 liða úrslitum Maltbikarsins í Laugardalshöll. Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem Breiðablik keppir í undanúrslitum bikars í Höllinni og skorum við því á alla Kópavogsbúa að fjölmenna í Laugardalshöll, hvetja strákana til dáða og verða hluti af sögunni.

Miðvikudaginn 3. janúar hefst forsala á miðum á leikinn. Forsalan verður í veitingasal Smárans á 2. hæð, milli klukkan 17:00 – 18:00. Félagið hefur fengið úthlutað miðum til sölu og rennur allur ágóði af þeirri miðasölu til Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks.

Breiðablik nýtur ekki góðs af þeim miðum sem seldir verða við hurð á leikdegi, svo við hvetjum fólk og fyrirtæki til að styðja við félagið okkar allra með því að kaupa miða á leikinn í Smáranum.

Miðaverð er kr. 1500 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir börn 5-15 ára.
Einnig verðum við með Breiðabliks derhúfur til sölu. Hægt verður að fá tvenns konar húfur, annars vegar grænar og hinsvegar svartar. Verð á grænni derhúfu er kr. 3900 og svartri kr. 4500.
Á forsölunni verður körfuknattleiksdeildin með tilboð á derhúfum og miðum á leikinn.
• Græn derhúfa + fullorðinsmiði á leikinn á kr. 4900.
• Svört derhúfa + fullorðinsmiði á leikinn á kr. 5500.

Körfubolti

Blikar eiga tvo fulltrúa í verkefnum kvennalandsliðsins

 Undirbúningur fyrir Eurobasket 2019 er farinn á fullt hjá íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta. Ísland mætir Svartfjallalandi í Laugardalshöll 11. nóvember og Slóvakíu ytra þann 15. nóvember.


Breiðablik á tvo fulltrúa í þessu landsliðverkefni en Isabella Ósk Sigurðardóttir var valin í 23 leikmanna æfingahóp. Einnig var Hildur Sigurðardóttir, þjálfari meistaraflokks Breiðabliks ráðin sem aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins nú á dögunum.


Við Blikar óskum stelpunum okkar innilega til hamingju með árangurinn og hvetjum um leið alla til þess að mæta í Laugardagshöll á laugardaginn og syðja við bakið á íslenska landsliðinu.


ÁFRAM BREIÐABLIK OG ÁFRAM ÍSLAND!!
 

Körfubolti

Búningadagur í Smáranum 24. okt

Sæl öll kæru foreldrar.

Í byrjun ágúst skrifaði stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks undir fjögurra ára samning við Errea, en Errea hefur til að mynda hannað búninga fyrir íslenska landsliðið í körfubolta, sem og fótbolta. Efnið sem notað er í búningana er fyrsta flokks, en það er bæði létt og teygjanlegt og hentar því fullkomlega til körfuboltaiðkunar.

Þriðjudaginn 24. október frá kl. 16:00-19:00, munu körfuknattleiksdeildin og Errea standa fyrir mátunardegi fyrir iðkendur yngri flokka félagsins, í veislusal Smárans á 2. hæð. Iðkendur geta mátað og fundið sína réttu stærð á búningum sem og mátað annan körfuboltafatnað, eins og hettupeysur, upphitunartreyjur, æfingasett og annan varning sem verður í boði.

Þá viljum við einnig benda á að skráningu á iðkendum er verulega ábótavant og viljum við beina þeim vinsamlegu tilmælum til foreldra að skrá börn sína í Nóra fyrir vikulok, sjá hér https://breidablik.felog.is/
. Þjálfarar geta einnig aðstoðað við skráningu.

Bestu kveðjur
Stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks 

Körfubolti

WOK ON í lið með Breiðablik

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur gert samstarfssamning við WOK ON, veitingastað sem sérhæfir sig í asískri matargerð þar sem hollusta og gæði eru í fyrsta sæti. Leikmenn meistaraflokka karla og kvenna verða því fullir orku í vetur, en þeir munu fá mat frá WOK ON eftir leiki.

Núna geta Kópavogsbúar og nágrannar sem annt er um heilsuna glaðst með okkur því WOK ON mun opna glænýjan stað á Smáratorgi í nóvember. WOK ON opnaði fyrst í Borgartúni fyrir rúmu ári og hefur staðurinn notið gífurlegra vinsælda, sérstaklega meðal íþróttafólks í fremstu röð! Það er mikið fagnaðarerindi fyrir körfuna í Kópavogi að fá eins flottan og sterkan bakhjarl með sér í lið. 

Körfubolti

Minniboltaæfingar falla niður meðan á Sjávarútvegssýningu stendur

Minniboltaæfingar falla niður dagana 11. - 18. september 

Vegna Sjávarútvegssýningunnar sem haldin verður í Smáranum og Fífunni dagana 13. – 15. september falla niður allar æfingar hjá flokkum minnibolta Breiðabliks frá 11. 18. september. Þann 19. september munu æfingar vera samkvæmt stundarskrá en hana má finna hér.

Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að hringja í þjálfara til að fá frekari upplýsingar sé þess þörf. Símanúmer þjálfara má finna á æfingatöflu.
  

Körfubolti

Æfingatafla körfunnar

Æfingatafla körfunnar gildir frá og með mánudeginum 4. september 2017.

Smellið hér til að skoða töfluna.

Körfubolti

Hildur Björg til Breiðabliks

Hildur Björg Kjartansdóttir landsliðskona í körfuknattleik hefur ákveðið að ganga til liðs við Breiðablik og mun því leika með liðinu í Dominos deildinni næsta vetur. Síðustu árin hefur Hildur Björg leikið með liði Háskólans í Texas í Rio Grande, við góðan orðstír. Áður en hún hélt að utan spilaði hún með Snæfelli og varð Íslandsmeistari með liðinu vorið 2014. Síðasta tímabilið sem Hildur Björg spilaði hérlendis var hún með 15 stig og 10 fráköst að meðaltali í leik. Hildur Björg hefur leikið 12 A-landsleiki og mun leika með landsliðinu á Smáþjóðaleikanum sem hefjast á mánudaginn.

Hildur Sigurðardóttir þjálfari Breiðsbliks kveðst afar ánægð með að fá Hildi Björgu til liðs við félagið. „Hildur Björg er ein allra besta körfuknattleikskona landsins og mun án efa gera góða hluti í vetur. Hildur er vinnusöm, metnaðarfull og góður liðsfélagi og passar því mjög vel inn í þann hóp sem þegar er til staðar hjá Breiðablik. Ég er virkilega ánægð með að fá að starfa með henni næsta vetur.
 

Körfubolti

Sumaræfingar í körfunni 2017

Notum sumarið til að bæta okkur!

Lið verða til á veturna, leikmenn verða til á sumrin!

Í sumar verða æfingar fyrir 11 ára og eldri fjórum sinnum í viku, frá mánudegi til fimmtudags.
Aðaláherslan er á einstaklingsfærni, bæði í vörn og sókn, enda er sumarið tíminn fyrir leikmenn til að vinna í veikleikum sínum og bæta sinn leik fyrir komandi tímabil. Æfingatímarnir eru eftir árgöngum en strákar og stelpur æfa á sama tíma.

Þjálfari í sumar er Lárus Jónsson.
Skráning er í Nóra kerfinu á slóðinni: https://breidablik.felog.is/
Gjaldið fyrir sumarið er 25 þúsund krónur

Sumarnámskeið eru fyrir 6-11 ára en allar nánari upplýsingar má finna á forsíðunni undir "Sumarnámskeið Breiðabliks 2017"

Körfubolti

Aníta Rún í USA

Viðtal við Anítu Rún sem fór til USA að spila háskólakörfubolta

Aníta í miðjum leik

Andri Þór tók fyrir skemmstu viðtal við Anítu Rún sem hefur verið erlendis í háskólakörfubolta undanfarið tímabil.

Sæl Aníta.

Segðu okkur frá hvar þú ert og hvað þú ert að gera? 

Heyrðu, ég er í skóla í Kansas, Cowley College, sem er junior college (útskrifar nemendur á tveimur árum í stað fjögurra ára) en við spilum í efstu deild NJCAA og vorum rankaðar 17. besta liðið í Bandaríkjunum fyrir tímabilið.

Hvernig vildi þetta til allt saman og hvenær kveiknaði hjá þér þessi hugmynd, þ.e. að halda til Bandaríkjanna til að spila í háskólaboltanum þar?

Frá því ég man eftir mér hefur mig alltaf dreymt um að spila körfubolta erlendis. Það var svo þegar ég fór í Sixers Camps með Blikastelpunum þegar ég var 15 ára sem ég áttaði mig á því að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að láta rætast. Á þeim tíma var ég samt sem áður að fara að byrja í Verzló (Verzlunarskóla Íslands) og mig langaði ekki til þess að dragast aftur úr í menntaskólanum hér heima en talaði mikið um það að mig langaði að láta af þessu verða við foreldra mína. Eftir Verzló lét ég svo loksins af þessu verða með hjálp þjálfara og foreldra minna og mun ég aldrei sjá eftir þeirri ákvörðun.

Hvernig gengur skólinn hjá þér og hvernig er venjulegur dagur? 

Skólinn hér er nokkuð þægilegur, ég er að læra verkfræði svo áfangarnir sem ég er að taka núna eru basically bara stærðfræði og eðlisfræði áfangar sem ég hafði tekið áður á síðustu 2 árunum í Verzló með smá viðbót þannig ég myndi segja að ég var vel undirbúin en mesta breytingin var í raun bara að læra allt á ensku.
Dagarnir mínir eru mjög svipaðir og þægilegir. Þrisvar í viku erum við með æfingu frá 6-7:30 á morgnanna fyrir skóla, svo er ég í tímum frá 8-11 og síðan er æfing alla daga vikunnar frá 13:30-15:30. Eftir æfinguna get ég svo eytt deginum í hvað sem ég vil sem er mjög þægilegt og gerir mér kleift að standa mig betur námslega þar sem ég næ alltaf að klára heimanám og hef tíma til að læra fyrir próf.

Hvað með næringuna? Ekkert skyr og ekkert íslenskt vatn. Hvað færðu eiginlega að borða þarna?

Úff, ég verð að viðurkenna að maturinn hér er alveg skelfilegur stundum. Við borðum allar í mötuneytinu hérna og það er bókstaflega allt djúpsteikt og löðrandi í osti. Kaninn hugsar ekkert mikið út í mataræðið svo þær fá sér burger, franskar og vöfflu í eftirrétt á hverjum degi liggur við en við erum sex í liðinu frá Evrópu/Ástralíu, við hugsum meira út í næringuna og fáum okkur alltaf salat allavega eina sinni á dag og reynum svona að velja það skársta sem er í boði.

Hvað með félagslífið? Var ekkert erfitt að eignast vini og komast inn í hlutina þarna úti?

Nei það var alls ekki erfitt að kynnast fólkinu hér, sérstaklega komandi frá öðru landi, þar sem flestir höfðu mikinn áhuga á að heyra hvernig er að vera Íslendingur. Einnig hjálpar mikið til að við búum á heimavist svo t.d. er byggingin mín ætluð fyrir körfubolta-, fótbolta- og frjálsíþróttastelpur. Þar með kynntumst við allar mjög fljótt og urðum mjög nánar.
Fólkið sem starfar í kringum skólann og allt íþróttastarfið var ótrúlega hjálplegt að koma manni inn í hlutina svo ég komst mjög fljótt í góða rútínu.
Skólinn minn útvegar einnig fósturfjölskyldu fyrir alla sem eru erlendir, ég var virkilega heppin með fjölskyldu sem býr í ekta amerísku húsi með sundlaug í bakgarðinum. Þau hafa séð til þess að ég læri inn á alla þeirra menningu og hef því tekið þátt í öllum amerískum hefðum með þeim. Þau hafa tekið mig inn í fjölskylduna og dekrað mikið við mig, hjálpa mér við allt sem ég þarf, og alltaf tilbúin að skutla mér ef ég þarf að komast eitthvert á milli staða. Þau klárlega auðvelda dvölina hér og gera hana ennþá persónulegri.

Hvað hefur verið erfiðast við að aðlagast þarna úti?

Ég myndi segja að æfinga álagið hafi verið erfiðast að aðlagast þar sem suma daga átti maður hrikalega erfitt með að koma sér á æfingu. Það komu tímar þar sem maður var að drepast úr harðsperrum, þreytu og máttleysi en maður þurfti samt sem áður að rífa sig upp klukkan 5 að morgni til og vera 100% tilbúin í æfingu því það er ekkert í boði að gera æfingarnar af hálfum krafti.

Hvernig er svo körfuboltinn? Eru æfingar strangar og hvernig er samkeppnin?

Já, æfingarnar eru á allt öðru leveli en ég hef nokkurn tíman kynnst heima. Ég er til dæmis nokkuð viss um að ég hef hlaupið fleiri spretti á þessu tímabili en ég hafði gert yfir allan ferilinn samanlagt. Boltinn sem er spilaður hér er einnig miklu hraðari og þjálfarinn minn lagði mikla áherslu á varnarleik og þá sérstaklega full-court pressu vörn. Hann lagði þá einnig gríðarlega áherslu á að við værum í þrusu formi og þar að leiðandi var mikið hlaupið.
Samkeppnin var gríðarlega mikil og því mikil barátta á hverri einustu æfingu. Til að mynda eru 3 af okkar bestu leikmönnum nú þegar komnar með tilboð til að transfera í NCAA division 1 skóla eftir að þær útskrifast úr Cowley.


Hvernig gengur þér og liðinu? Eigið þið möguleika á að ná langt?

Okkur gekk nokkuð vel, við enduðum í 5.-6. sæti í deildinni okkar og komumst því í úrslitakeppnina þar sem 8 lið spila. Hún var haldin í svaka flottri höll í Wichita sem var þvílík upplifun. Okkar fyrsti keppinautur var Butler en þær höfðu unnið okkur í báðum leikjum tímabilsins. Við hins vegar mættum og sýndum hvað í okkur býr, unnum leikinn 84-77, og þar með tryggðan farseðil í undanúrslit. Þar mættum við Hutch sem var rankað í öðru sæti yfir alla junior háskóla í bandaríkjunum og mátti því búast við erfiðum leik. Þær reyndust okkur aðeins of stór biti og unnu 81-58 og þær enduðu á að vinna alla keppnina.

Hvernig ertu að bæta þig og hvað er það helsta sem þú ert að læra?

Ég er að læra ótrúlega mikið á þessu hérna og að bæta mig á hverjum einasta degi. Ég hef þurft að læra að vinna með þjálfara sem lætur þig heyra það ef þú ert ekki að standa þig á æfingu eða ert ekki að gera æfingarnar að fullum krafti. Hann stendur yfir þér og öskrar þig í gengnum þrekhringi og stigahlaup. Hann sér til þess að maður er nægilega hræddur við hann að maður reynir að gera allt 100% rétt sem hann segir þér en maður sé samt ekki það hræddur að maður þori ekki að tala við hann. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og hann hefur klárlega gert mig að betri leikmanni á þessum 7 mánuðum sem ég hef verið hér. Það helsta sem ég hef bætt mig í hér eru skotin mín og svo áræðni og kraftur undir körfunni.

Við þökkum Anítu kærlega fyrir þessa innsýn í líf leikmanns í háskólakörfubolta.

Körfubolti

Fjölmennt og skemmtilegt lokahóf

Lokahóf körfuknattleiksdeildar Breiðabliks fór fram síðasta vetrardag, þann 19. apríl, og var eitt hið fjölmennasta í áraraðir. Þar komu saman leikmenn meistaraflokka, þjálfarar, stjórn og stuðningsfólk. Meistaraflokkarnir sýndu frábær myndbönd þar sem tímabilið var gert upp með góðu gríni. Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum voru neðangreindum leikmönnum veittar viðurkenningar.

Mestu framfarir í meistaraflokki karla: Ragnar Jósef Ragnarsson
Efnilegasti leikmaðurinn í meistaraflokki karla: Sveinbjörn Jóhannesson
Besti varnarmaðurinn í meistaraflokki karla: Birkir Víðisson
Mikilvægasti leikmaðurinn í meistaraflokki karla: Snorri Vignisson

Mestu framfarir í meistaraflokki kvenna: Eyrún Ósk Alfreðsdóttir
Efnilegasti leikmaðurinn í meistaraflokki kvenna: Isabella Ósk Sigurðardóttir
Besti varnarmaðurinn í meistaraflokki kvenna: Telma Lind Ásgeirsdóttir
Mikilvægasti leikmaðurinn í meistaraflokki kvenna: Sóllilja Bjarnadóttir

Lið ársins var að þessu sinni:
Bakverðir: Sóllilja Bjarnadóttir og Telma Lind Ásgeirsdóttir
Framherjar: Snorri Vignisson og Isabella Ósk Sigurðardóttir
Miðherji: Egill Vignisson
Sjötti maður: Leifur Steinn Árnason
Leikmaður ársins var Isabella Ósk Sigurðardóttir.

Þá veitti stjórn deildarinnar þremur góðum félögum bronsmerki Breiðabliks, þeim Guðna Hafsteinssyni, Hildi Björgu Aradóttur og Árna Þór Jónssyni.

Á mynd frá vinstri: Lárus Jónsson (þjálfari meistaraflokks karla), Andri Þór Kristinsson (aðstoðarþjálfari meistaraflokka), Hildur Sigurðardóttir (þjálfari meistaraflokks kvenna), Sóllilja Bjarnadóttir, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir, Telma Lind Ásgeirsdóttir, Isabella Ósk Sigurðardóttir, Ragnar Jósef Ragnarsson, Egill Vignisson, Sveinbjörn Jóhannesson, Birkir Víðisson, Leifur Steinn Árnason og Snorri Vignisson.

Körfubolti

Aðalfundi Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks lokið

Á aðalfundi Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks (KKDB) fóru venjubundin aðalfundarstörf fram sem eru tíunduð hér í meðfylgjandji skjölum.

Formaður og stjórn voru endurkjörin fyrir utan að einn nýr stjórnarmeðlimur bættist við; Gunnar Sv. Friðriksson. Hann mun verða nýr formaður Unglingaráðs KKDB.

Formaður:
Sigríður Halldóra Kristjánsdóttir
Aðrir stjórnarmenn:
Jónas Pétur Ólason, gjaldkeri
Eiríkur Aðalsteinsson
Heimir Snær Jónsson
Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir
Þórólfur Heiðar Þorsteinsson
Gunnar Sv. Friðriksson

Skjöl

Fundargerð aðalfundar Körfuknattleiksdeildar 2017
Ársskýrsla stjórnar körfuknattleiksdeildar Breiðabliks

Körfubolti

Breiðablik í Domino’s deildinni að ári!

Sigursælt kvennaliðið ásamt stuðningsmönnum sínum

Á föstudaginn síðastliðinn fór fram oddaleikur á Akureyri milli Þórs Akureyri og Breiðabliks í úrslitakeppni 1. deildar kvenna. Staðan í einvíginu var 1-1 og því hreinn úrslitaleikur um sætið í efstu deild að ári.

Leikurinn fór 42:56 og vann því Breiðablik einvígið 2-1.

Breiðablik lék síðast í efstu deild árið 2015 og þar á undan árið 2007 en félagið hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari, árið 1995. Breiðablik á að baki sex tímabil í efstu deild og verður því tímabilið 2017-2018 það sjöunda í sögunni.

Til hamingju stelpur! 

Körfubolti

Oddaleikur fyrir norðan!

Leikur 3 í úrslitaviðureign Breiðabliks og Þórs Akureyris.

Mikil stemming var í Smáranum í gær þegar stelpurnar mættu Þór Akureyri í úrslitakeppni 1. deildar kvenna, um sæti í Domino's deildinni á næsta tímabili.

Oddaleikur liðanna fer fram á föstudaginn kl. 19:30, í Síðuskóla á Akureyri. Við ætlum að taka rútu fyrir liðið og stuðningsfólk, sem fer frá Smáranum um kl. ellefu á föstudagsmorgun. Við vonumst til að flest ykkar geti komið með okkur og hvatt stelpurnar okkar. Endilega sendið okkur skilaboð gegnum Facebook-síðuna okkar (https://www.facebook.com/kkdbreidabliks/)!

Áfram Breiðablik. 

Körfubolti

Öllu til tjaldað í Smáranum

Leikur 4 í úrslitaviðureign Blika og Valsara

Þá er komið að fjórðu viðureign Breiðabliks og Vals í undanúrslitum 1. deildar karla.

Leikur Breiðabliks og Vals síðastliðinn mánudag var mikil rússíbanareið, en staðan fyrir leikinn var 2-0 fyrir Val og því mikil pressa á Blikum að vinna. Gera má ráð fyrir að leikurinn á fimmtudaginn verði því æsispennandi og hvetjum við Kópavogsbúa, sem og aðra körfuboltaunnendur, til að mæta og hvetja strákana til sigurs.

 

Það verður öllu tjaldað til í Smáranum. Við opnum húsið kl.18:15 og byrjum á að grilla hamborgara fyrir svanga aðdáendur. Börger og gos á litlar 1.000 krónur.

Fyrir leikinn, kl. 18:50, mætir Herra Hnetusmjör, tryllir lýðinn og rífur upp stemminguna. Í hálfleik mætir svo danshópur frá Dansstúdíó World Class með áframhaldandi stemmingu og gleði.

Þau sem ekki komast í Smárann á fimmtudaginn, geta fylgst með leiknum á BlixTV heima úr stofu, en þeir Máté Dalmay og Hraunar Karl Guðmundsson munu lýsa gangi leiksins.
https://livestream.com/accounts/1946688/events/7163550

Fjölmennum í Smárann. Áfram Breiðablik! 

Körfubolti

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks 2017

Aðalfundur KKD Breiðabliks verður haldinn miðvikudaginn 5. apríl kl 19:00 í veitingasal Smárans.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf

Allir velkomnir
Stjórnin

Körfubolti

Körfuboltinn á 4 leikmenn í yngri landsliðum

Lokahópar í yngri landsliðum komnir - 4 Blikar þar

Leikmenn sem munu mynda yngri landslið Íslands í sumar og taka þátt í landsliðsverkefnunum sumarið 2017 hafa verið valdir.

Í röðum U15 stúlkna eru þær Bríet Ófeigsdóttir og Þórdís Rún Hjörleifsdóttir, báðar í Breiðablik.

Í röðum U15 drengja eru þeir Arnar Hauksson og Friðrik Anton Jónsson, báðir í Breiðablik.

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks óskar þeim til hamingju, haldið áfram að standa ykkur!

Körfubolti

Körfuboltaskóli Breiðabliks í vetrarfríinu

Körfuboltaskóli Breiðabliks verður með tveggja daga námskeið í Smáranum dagana 20. og 21. febrúar, en þá er vetrarfrí í öllum grunnskólum Kópavogs. Námskeiðið er fyrir bæði stelpur og stráka í 1.-4. bekk og verður báða dagana frá kl. 9:00 til 12:00. Iðkendum er velkomið að mæta kl. 8:30.

Iðkendur eiga að mæta með hollt og gott nesti.

Þátttökugjald er 5.000 kr. fyrir báða daga eða 3.000 kr. fyrir annan daginn. Skráning og greiðsla fer fram á https://breidablik.felog.is náms,keiðið ber þar nafnið „Körfuboltaskóli Breiðabliks KK og KVK“.

Athugið takmarkaður fjöldi.

Aðalþjálfarar verða Lárus Jónsson og Helgi Hrafn Ólafsson.

Körfubolti

Auður Íris í Smárann

Meistaraflokki kvenna í körfuknattleik hefur borist góður liðsauki fyrir seinni hluta keppnistímabilsins í vetur. Auður Íris Ólafsdóttir hefur ákveðið að spila með Breiðablik það sem eftir lifir tímabilsins 2016-2017.

Auður Íris er uppalin hjá Haukum og hefur spilað þar næstum alla tíð en var fyrri hluta þessa tímabils hjá Skallagrími. Hún klæðist nú græna Blikabúningnum og verður gaman að fylgjast með henni í Smáranum iðjagræna.

Við bjóðum Auði velkomna – og áfram Breiðablik!

Körfubolti

Jólakveðja

Smárinn lakkaður yfir hátíðarnar

Í dag verður hafist handa við að lakka parketið í Smáranum. Salurinn verður því lokaður fram til 2. janúar næstkomandi. Þjálfarar hvers flokka hafa verið að leita að tímum í öðrum húsum milli jóla og nýárs, hægt er finna út með þá tíma á síðum Facebook. Íþróttahús skólanna verða lokuð fram til 2. janúar sömuleiðis. Körfuknattleiksdeild Breiðabliks óskar ykkur öllum kærleika og friðar um jólin og farsældar á nýju körfuboltaári. Gleðileg jól!
Körfubolti

Skráning iðkenda - Körfuknattleiksdeild Breiðabliks

Foreldrar/forráðamenn

Nú er starfið komið á fullt hjá okkur í körfuknattleiksdeild Breiðabliks og hvetjum við þá foreldra/forráðamenn sem eiga eftir að ganga frá æfingagjöldunum að ganga frá greiðslu sem fyrst.
Hægt er að ganga frá æfingagjöldunum (og skipta greiðslum) á greiðslusíðu félagsins https://breidablik.felog.is/
Einnig biðjum við fólk um að uppfæra upplýsingar í Nóra (greiðslukerfinu) ef orðið hafa breytingar á símanúmerum og/eða tölvupósti en mikilvægt er að þar séu réttar upplýsingar skráðar ef ná þarf í foreldara t.d. vegna slysa/óhappa.

Æfingagjöldin eru óbreytt frá því í fyrra. Þau má finna undir flipanum "Æfingagjöld".

Eftir 23. nóvember verða sendir út greiðsluseðlar með heildargjaldinu til þeirra sem eiga eftir að ganga frá æfingagjöldunum.
Ef eitthvað er óljóst eða spurningar vakna biðjum við ykkur um að hafa samband á netfangið .(JavaScript must be enabled to view this email address)

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks


 

Körfubolti

Skallagrímur sigraði Blika

Á mánudagskvöld 7. nóvember fékk karlalið Breiðabliks lið Skallagríms í heimsókn í Smárann og heimamenn þurftu að lúta í lægra haldi fyrir gestunum í Maltbikarnum góða, 77-88.​ Borgnesingar náðu forystu frá fyrstu mínútu og hleyptu Blikum aldrei fram úr sér, þrátt fyrir að leikurinn hafi verið mjög upp og niður.

Frá byrjun sýndi Flenard Whitfield stóru mönnum Breiðabliks hreyfanleika sem þeir réðu stundum frekar illa við, en hjálparvörnin var yfirleitt sein og tilþrifamaskína Borgnesinga endaði fór út af eftir rúmar 8 mínútur með 9 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og 1 varið skot (ásamt einni misheppnaðari troðslu sem hefði eflaust komist í Körfuboltakvöld Domino's ef að hún hefði heppnast). Reynsluboltinn Maggi Gun náði sömuleiðis að trúða heimamenn í fyrsta leikhluta. Magnús, sem er ekki þekktastur fyrir hraða eða að komast að körfunni, lék sér að því að fara fram hjá Kópavogspiltunum og skilaðu 5 stigum í fyrsta leikhluta, tvö sniðskot og eitt and-1 víti sem hann sótti listilega. Blikar virtust seinir í gang í leikhlutanum en náðu aðeins að bjarga andlitinu með áhlaupi undir lokin. Staðan eftir fyrstu 10 mínútur; 19-28, Skallagrím í vil.

Annar leikhlutinn einkenndist af mörgum sóknarfráköstum og að menn sofnuðu mikið á verðinum í að stíga menn út, enda tóku bæði lið 40% af öllum sóknarfráköstum sínum í leiknum í þessum leikhluta. Skallagrímsmenn skiptust á að skora en Breiðablik passaði að missa þá aldrei of langt frá sér. Blikar náðu aftur í lok leikhlutans að ná smá áhlaupi og þegar gengið var inn í búningsklefanna í hálfleik höfðu þeir bætt stöðuna um 1 stig, 40-48 í hálfleik fyrir gestunum.

Blikar hófu seinni hálfleikinn með góðri vörn og þrist frá Snorra Vignissyni til að minnka muninn í 5 stig og undirritaður leyfði sér að vona að 1. deildar lið gæti stolið sigri á móti úrvalsdeildarliði. Skallagrímur ætlaði hins vegar ekki að hlusta á slíkt rugl og settu í hærri gír og tóku sitt eigið áhlaup þar sem að þeir skoruðu 17 stig á móti 4 stigum hjá Breiðablik. Enn og aftur reyndu Blikarnir að klóra í bakkann og náðu lítillega að laga stöðuna sem var þó orðinn 56-69 fyrir seinasta leikhlutann. Glæsilegasta flétta leikhlutans var án efa þegar Birkir Víðisson stökk hæð sína til að verja þriggja stiga skot Magnúsar Gunnarssonar og í hraðaupphlaupinu sem hlaust af þeirri blokk munaði minnstu að hann næði að setja sinn eigin þrist til að setja punktinn yfir i-ið.

Á seinustu 10 mínútunum reyndu heimamenn að taka áhlaup og náðu margsinnis að laga stöðuna í minna en 10 stig en þá höfðu Skallarnir alltaf svör við því (oft í formi þriggja stiga körfu). Blikar börðust allt til enda en gátu bara ekki unnið upp muninn sem Borgnesingar byggðu upp gegnum allan leikinn. Það var lítið hægt að gera því nær sem leikmenn nálguðust lokaflautuna og þegar hún gall var lokastaðan staðreynd; 77-88, Skallagrím í vil.

Þá er ljóst að Skallagrímur fer áfram í 16-liða úrslit og þeir munu þar mæta Valsmönnum. Fyrst þeir gátu unnið Breiðablik búast Kópavogsbúar fastlega við að þeir komist alla leið í úrslitaleik bikarsins og taki hvaða mótherja sem að þeir kynnu að hitta þar.

Breiðablik: Tyrone Garland 35 stig/4 stoðsendingar, Halldór Halldórsson 11 stig/7 fráköst/3 stoðsendingar, Birkir Víðisson 9 stig, Sveinbjörn Jóhannesson 7 stig/9 fráköst, Egill Vignisson 7 stig, Ragnar Jósef Ragnarsson 5 stig, Snorri Vignisson 3 stig/5 fráköst.

Skallagrímur: Flenard Whitfield 20 stig/9 fráköst/6 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 15 stig/7 stoðsendingar/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 14 stig/5 fráköst, Bjarni Guðmann Jónsson 10 stig/7 fráköst/3 stoðsendingar, Darrell Flake 9 stig, Davíð Guðmundsson 9 stig, Kristófer Gíslason 5 stig/8 fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 4 stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson 2 stig.

Helgi Hrafn Ólafsson

Körfubolti

Meira malt, meira malt

Blikasigur í bikarnum

Breiðablik komst í kvöld í 8-liða úrslit Maltbikarkeppni kvenna þegar þær lögðu Fjölnisstúlkur, 73-60, í hörkuleik í Smáranum, en staðan var, 35-35, í hálfleik. Bæði þessi lið leika í 1. deild kvenna og mættust fyrir um mánuði síðan í Grafarvoginum. Blikastúlkur unnu þá öruggan sigur, 56-75, en allt annað var að sjá gestina úr Grafarvoginum í kvöld. Fjölnisstúlkur mættu ákveðnar til leiks og höfðu tögl og hagldir í 1. leikhluta. Þær voru greinilega staðráðnar í að bæta fyrir slakan leik liðanna í deildinni í október. Blikastúlkum voru hinsvegar nokkuð mislagðar hendur í sókninni og náðu gestirnir forystu eins og, 0-5, 8-15 og 10-17. Blikastúlkur hresstust til muna í 2. leikhluta og fór pressuvörnin þeirra að ganga ágætlega. Þær náðu fljótt að saxa á forskot gestanna - enda bara 2 stig - og komust yfir, 21-19, og svo aftur, 25-19, og voru síðan jafnan með frumkvæðið allt til loka hálfleiksins þegar Fjölnir klóraði hressilega í bakkann margfræga og jafnaði metinn, 35-35. Blikastúlkur mættu ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og í 3. leikhluta má segja að þær hafi lagt grunninn af glæstum bikarsigri í Maltkeppninni. Þær unnu leikhlutann, 15-7, og náðu oft og tíðum góðri baráttu í vörninni og héldu gestunum í aðeins sjö stigum í leikhlutanum. Í fjórða leikhluta leiddu heimastúlkur með 10-12 stigum en gestirnir úr Grafarvoginum neituðu ávallt að gefast upp. Þær náðu að minnka muninn niður í 8 stig, 57-49, þegar tæplega 5 mínútur lifðu leiks. Þá voru Blikar í ráðleysislegri sókn og skotklukkan við það að renna út. Einhverra hluta vegna endurnýjaðist hún og dómararnir gerðu enga athugasemd við það og náði Shanna þá að skora afar mikilvæga 3ja stiga körfu fyrir Blika og breyta stöðunni úr, 57-49, í, 60-49. Blikar sigldu svo leiknum nokkuð örugglega í höfn og verða í hattinum góða þegar dregið verður í 8-liða úrslitum keppninnar. Hjá Blikastúlkum sá byrjunarliðið nánast um stigaskorunina: Telma, Ísabella, Sóllilja, Shanna og Inga. Það segir þó ekki alla söguna því aðrar í liðinu áttu góðan leik og létu vel til sín taka á vellinum. Þá er aukinheldur gaman að sjá að Hildur, þjálfari Blika, róterar liði sínu mikið og treystir greinilega öllum í hópnum. Hún virðist hinsvegar lítið gefin fyrir leikhlé en undirritaður hefur ekki enn séð hana taka eins og eitt slíkt! Hvað um það. Fjölnisstúlkur eru úr leik í bikarnum en léku miklu betur en fyrir um mánuði síðan þegar sömu lið áttust við. Eins og stóð á Maltflöskunum gömlu og góðu hlýtur þessi leikur þó að verða þeim nærandi og styrkjandi og gott ef hann gefur þeim ekki líka hraustlegt og gott útlit líka! Sæbi, þjálfari Fjölnis, getur vel byggt á frammistöðu stúlknanna í kvöld og eru þær greinilega á uppleið eftir rýra uppskeru í deildinni það sem af er vetri. Breiðablik: Shanna Dacanay 17 stig/4 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Telma Lind Ásgeirsdóttir 17 stig/6 stolnir boltar, Sóllilja Bjarnadóttir 13 stig/5 fráköst/3 stoðsendingar, Inga Sif Sigfúsdóttir 9 stig/3 stolnir boltar, Hafrún Erna Haraldsdóttir 2 stig, Kristín Rós Sigurðardóttir 2 stig, Linda Kristjánsdóttir 1 stig. Fjölnir: Berglind Karen Ingvarsdóttir 15 stig/7 fráköst/7 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Margrét Ósk Einarsdóttir 11 stig/5 fráköst, Eva María Emilsdóttir 9 stig/10 fráköst, Fanney Ragnarsdóttir 8 stig, Aníka Lind Hjálmarsdóttir 6 stig/5 fráköst, Friðmey Rut Ingadóttir 5 stig/3 stoðsendingar, Guðrún Edda Bjarnadóttir 4 stig/10 fráköst/4 stolnir boltar, Margrét Eiríksdóttir 2 stig. Gylfi Gröndal
Körfubolti

Baráttuglaðir Blikar lögðu FSu

Tyrone Garland með þrefalda tvennu

Breiðablik vann öruggan sigur á FSu, 100-90, í Smáranum í kvöld eftir að staðan hafði verið 62-44 í hálfleik, heimamönnum í vil. Sigurinn var í raun aldrei í hættu þrátt fyrir að lokastaðan hafi aðeins verið 10 stig. Blikar nældu þar með í góðan sigur eftir tvo tapleiki í röð meðan Sunnlendingar eru væntanlega komnir niður á jörðina eftir afar góðan sigur á Val, 94-90, á mánudaginn.

Fín umgjörð var í Smáranum og vel mætt á áhorfendabekkina. FSu byrjaði leikinn vel og voru greinilega með sjálfstraustið í botni eftir Valsleikinn. Þeir náðu forystu 7-10 og virtust til alls líklegir. Blikar settu þá í gang pressuvörn sína sem sló gestina algerlega út af laginu og heimamenn snéru stöðunni úr, 7-10, í, 27-17, á rúmum fimm mínútum; 20-7 sprettur hjá Blikum!

Blikar fóru hamförum í 2. leikhluta og skoruðu 35 stig á tíu mínútum. Hinir geðþekku Sunnlendingar sáu vart til sólar eftir fyrri hálfleikinn þótt þeir hafi nú gert heil 44 stig í honum. Blikar gerðu þeim lífið leitt með pressuvörninni og virtist sem allur taktur hafi farið úr leik gestanna við hina "agresífu" vörn heimamanna.

Í upphafi 3. leikhluta náðu Blikar oft yfir 20 stiga forystu og héldu margir grænklæddir stuðningsmenn að nú væri stórsigur í uppsiglingu. En öðru nær; gestirnir neituðu að gefast upp allan leikinn og eiga hrós skilið fyrir að ná muninum niður í 10 stig. Það gæti aukinheldur skipt máli þegar reikningsskil deildarinnar verða gerð upp með hækkandi sól á næsta ári.

Atkvæðamestur Blika í kvöld var Tyrone Garland með 37 stig, tók 10 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal knettinum 9 sinnum! Snorri Vignisson var með flottan leik, gerði 19 stig, þar af 17 af þeim í fyrri hálfleik, og reif niður 8 fráköst. Birkir var sínum gömlu félögum erfiður og setti 15 stig, Egill negldi 10 stig í seinni hálfleik og Sveinbjörn hirti 13 fráköst.

Hjá gestunum var Terrence Motley með 30 stig, tók 13 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Næstur var Ari Gylfason með 14 stig en aðeins tveir leikmenn hjá FSu náðu að koma sér í tveggja stafa tölu í stigaskoruninni.

Næsti leikur Blika er gegn Hamri í Hveragerði meðan FSu fær Fjölni í heimsókn.

Tvær hörkurimmur framundan á Suðurlandsundirlendinu sem öngvin má missa af!

Gylfi Gröndal

Körfubolti

Æfingatafla körfuboltans 2016-2017 komin!

Kæru foreldrar og iðkendur!

Æfingatafla körfuknattleiksdeildar Breiðabliks 2016-2017 er komin í loftið! 

Æfingar hefjast að fullu 1. september! Verið er að vinna í Blikarútu í sameiningu við aðrar deildir, það skýrist vonandi fljótlega.

Æfingatöfluna má skoða hér

Spurningar um töflu sendist á Helga Hrafn rekstrarstjóra (510-6412, .(JavaScript must be enabled to view this email address)

Áfram körfubolti - Áfram Breiðablik!

Körfubolti

Keke á leið á klakann

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur gengið frá samningi við bandaríska leikmanninn Keke Veal. Keke er 23 ára gömul og fædd í Opelousas, Louisiana.

Hún spilaði fyrir University of Louisiana Ragin' Cajuns í öll fjögur ár sín í háskólaboltanum (NCAA, Division 1) og er talin með betri leikmönnum sem hafa spilað fyrir það lið. Á síðasta árinu sínu þar var hún með 17.7 stig, 3.8 fráköst, 2.5 stoðsendingar og 2.5 stolna bolta að meðaltali í leik.

Við bjóðum Keke velkomna, en von er á henni í byrjun september.

Körfubolti

Sóllilja komin heim

Meistaraflokki kvenna í körfuknattleik hefur borist góður liðsauki fyrir komandi átök í 1. deildinni í vetur. Sóllilja Bjarnadóttir hefur ákveðið að snúa aftur heim í Kópavoginn fagra en hún er uppalinn Bliki. 

Undanfarin fjögur ár hefur Sóllilja leikið með Val við góðan orðstír en klæðist nú græna búningum á nýjan leik og verður gaman að fylgjast með henni í Smáranum iðjagræna.

Velkomin heim Sóllilja – og áfram Breiðablik!

Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks óskar eftir þjálfurum

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks óskar eftir að ráða yngri flokka þjálfara. Um er að ræða þrjár stöður.

• Minnibolta átta og níu ára drengja
• 7. og 8. flokk kvenna (aldur 13 -14 ára)
• Drengjaflokkur

Um er ræða efnilega og fjölmenna flokka. Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af þjálfun körfuknattleiks og mikill kostur ef menntun á sviði íþróttamála er fyrir hendi.
Frekari upplýsingar veitir Helgi Hrafn í síma 848-8954 eða með tölvupósti .(JavaScript must be enabled to view this email address)
 

Körfubolti

Breki í æfingahóp landsliðsins

Breki Gylfason

Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, er búinn að velja í 41 manna æfingahóp fyrir undankeppni EM 2017 í haust.

Meðal þeirra er hinn ungi og efnilegi Breki Gylfason sem hefur æft með Breiðablik alla tíð. Breki er einmitt núna úti á Grikklandi að spila með U20 landsliði karla þar sem hann er að skila fínum mínútum af bekknum með 2 stigum, 0.3 fráköstum og eina stoðsendingu að meðaltali í leik. Breki, ásamt nokkrum úr U-20 landsliðshópnum, verður með í næsta æfingahóp þar sem landsliðið frá því í fyrra á EM 2015 í Berlín mætir.

Landsliðið er eins og áður sagði að undirbúa sig fyrir undankeppni EM 2017 í haust og mun m.a. fara á æfingamót í Austurríki 11.-14. ágúst þar sem íslenska liðið mætir heimamönnum, Póllandi og Slóveníu.

Í ágúst mun landsliðið æfa í Smáranum og heimaleikirnir hjá Íslandi verða því hér í Kópavogi. Ísland er í riðli með Belgíu, Sviss og Kýpur.

Breki að spila fyrir U-18 landsliðið (Mynd: Karfan.is)
Körfubolti

Birkir gerist Bliki

Birkir Víðisson hefur skrifað undir eins árs samning við körfuknattleiksdeild Breiðabliks. Birkir er uppalinn í FSu og spilaði hálft tímabil með þeim í Dominos deild karla á síðasta ári. Hann er annar leikmaðurinn úr þeirra röðum sem gengur til liðs við Blika og mun spila með liðinu á næsta tímabili. Birkir mun styrkja liði Blika enn frekar og færa okkur einu skrefinu nær því að spila í efstu deild.

Við bjóðum Birki hjartanlega velkominn.

Körfubolti

Nýr þjálfari meistaraflokks kvenna

Körfuknattsleikdeild Breiðabliks hefur gengið frá ráðningu Hildar Sigurðardóttur sem þjálfara meistarflokks kvenna. Tekur hún til starfa þann 1. júlí næstkomandi en ráðningin er til þriggja ára.

Hildi er nánast óþarfi að kynna enda hefur hún verið einn besti leikmaður í íslenskum körfubolta um árabil. Hildur lék að mestum hluta með KR og Snæfelli á sínum ferli og lék rúmlega 280 leiki í efstu deild. Varð hún m.a. fimm sinnum Íslandsmeistari með þessum liðum og var valin leikmaður ársins 2014 og 2015. Þá er hún sá leikmaður sem hefur leikið flesta landsleiki, eða 79 talsins. Hildur er íþróttafræðingur að mennt.

Stjórn körfuknattsleikdeildar Breiðabliks lýsir yfir mikilli ánægju með ráðningu Hildar og hlakkar til samstarfsins.

Með þessari ráðningu er því ljóst að Lárus Jónsson mun einbeita sér alfarið að þjálfun meistaraflokks karla, ásamt því að taka að sér fleiri verkefni er varða starf deildarinnar.

Körfubolti

Bjarni Geir til Breiðabliks

Bjarni Geir Gunnarsson hefur gengið til liðs við Breiðablik á nýjan leik. Bjarni Geir kemur til Breiðabliks frá FSu þar sem hann fór vaxandi á liðnu leiktímabili í efstu deild. Bjarna Geir er ætlað stórt hlutverk hjá Blikum á næstu leiktíð, og er það stefnan að tryggja sér sæti meðal þeirra fremstu á komandi ári.

Bjarni þekkir ágætlega til í Smáranum, þar sem hann spilaði fyrir félagið í yngri flokkum. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn aftur!

Körfubolti

Blikar í unglingalandsliðum

Um síðastliðna helgi æfðu U16 og U18 ára landslið í 16 manna æfingahópum og nú er búið að velja þá 12 leikmenn sem skipa landsliðin fyrir NM 2016 sem fram fer í Finnlandi dagana 26.-30. júní næstkomandi.

Þjálfarar U16 drengja, þeir Benedikt Guðmundsson og Sævaldur Bjarnason, völdu okkar mann Hafstein Guðnason í lokahópinn en Sigurður Sölvi Sigurðarson, sem hafði líka komist í úrtakshópinn, situr eftir heima í þetta skiptið.

Hjá U18 stelpunum eigum við líka fulltrúa en Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, sem spilaði stórt hlutverk þegar liðið varð Norðurlandameistari í fyrra, er aftur í hópnum.

Sveinbjörn Jóhannesson glímir við meiðsl og missir því af NM með U18 liðiðnu en mun fara á EM síðar í sumar.

Þá hefur Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari U20 karla, kallað saman 18 manna æfingahóp fyrir sumarið og mun liðið æfa næstu daga. Í þeim hópi eru tveir fulltrúar Breiðabliks, þeir Breki Gylfason og Snorri Vignisson. Í lok mánaðarins verður svo 12 manna lið valið fyrir verkefni sumarsins sem er EM um miðjan júlí.
 

U16 og U18 hóparnir í heild sinni
Æfingahópur U20 í heild sinni
 

Körfubolti

Sumaræfingar í körfunni

Lið verða til á veturna, leikmenn verða til á sumrin!

Í sumar verða æfingar fyrir 11 ára og eldri fjórum sinnum í viku, frá mánudegi til fimmtudags.
Aðaláherslan er á einstaklingsfærni, bæði í vörn og sókn, enda er sumarið tíminn fyrir leikmenn til að vinna í veikleikum sínum og bæta sinn leik fyrir komandi tímabil. Æfingatímarnir eru eftir árgöngum en strákar og stelpur æfa á sama tíma.

Þjálfari í sumar er Baldur Már Stefánsson.
Skráning er í nóra kerfinu á slóðinni: https://breidablik.felog.is/
Gjaldið fyrir sumarið er 25 þúsund krónur

Sumarnámskeið eru fyrir 6-11 ára en allar nánari upplýsingar má finna á forsíðunni undir "Sumarnámskeið"

Körfubolti

Uppskeruhátíð yngri flokka körfunnar

Fimmtudaginn 12. maí verður vetrarstarfi yngri flokkanna slúttað með uppskeruhátíð í Smáranum.
Þar koma saman iðkendur, foreldrar, þjálfarar og fleiri og fara í ýmsa körfuboltaleiki, veittar viðurkenningar fyrir veturinn og grillaðar pylsur.  Hátíðin hefst kl 17:00 og verður lokið um 18:30 svo allir komist heim að horfa á Eurovision smile

Sjáumst í Smáranum!!

Körfubolti

Isabella Ósk valin besti ungi leikmaðurinn

Isabella Ósk með verðlaunin sín

Á uppskeruhófi KKÍ sem haldið var í dag voru ýmis verðlaun afhent vegna góðrar frammistöðu fyrir tímabilið 2015 -2016.
Körfuknattleiksdeild Breiðabliks átti sinn fulltrúa en Isabella Ósk Sigurðardóttir var valinn besti ungi leikmaðurinn í 1. deild kvenna.

Isabella er fædd árið 1997. Hún hefur æft og spilað með Breiðabliki frá ellefu ára aldri. Í vetur spilaði hún 20 leiki með meistaraflokki kvenna og var með 6,9 stig og 10,1 frákast á tæpum 25 mínútum að meðaltali.
Körfuknattsleikdeild Breiðabliks óskar Isabellu innilega til hamingju með viðurkenninguna!

Þá voru nokkrir aðrir Blikar sem fengu atkvæði þó þeir hafi ekki unnið til verðlauna, hjá kvennaliðinu fengu Berglind Karen Ingvarsdótir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, Isabella Ósk og Telma Lind Hrafnkelsdóttir atkvæði í kjöri á úrvalsliði deildarinnar og ásamt Isabellu Ósk fékk Elín Sóley einnig atkvæði í kjörinu á besta unga leikmanninum.  Hjá karlaliðinu fékk Sveinbjörn Jóhannesson atkvæði í kjöri á úrvalsliði deildarinnar og Snorri Vignisson í kjöri á besta unga leikmanninum.

Fréttin á kki.is


 

Körfubolti

5 Blikar valdir í unglingalandslið Íslands

Á dögunum tilkynnti körfuknattleikssambandið 16-18 manna æfingahópa unglingalandsliða Íslands, U15, U16 og U18 fyrir verkefni sumarsins. Þar eiga Blikar 5 fulltrúa og verður gaman að fylgjast með krökkunum okkar á erlendri grund í sumar.

Blikarnir sem voru valdir eru:

Steinar Snær Guðmundsson í U15 ára landslið drengja
Hafsteinn Guðnason í U16 ára landslið drengja
Sigurður Sölvi Sigurðarson í U16 ára landslið drengja
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir í U18 ára landslið stúlkna
Sveinbjörn Jóhannesson í U18 ára landslið drengja

Frétt kki.is um landsliðin 

Körfubolti

Tyrone Garland til Breiðabliks

Körfuknattsleikdeild Breiðabliks og Tyrone Garland hafa komist að samkomulagi að hann spili með meistaraflokki karla næsta tímabil.

Tyrone Garland er 24 ára gamall Bandaríkjamaður fæddur í Philadelphia, Pennsylvania. Hann spilaði fyrir Virginia Tech háskóla tímabilin 2010-2012 en skipti yfir í La Salle tímabilin 2012-2014. Síðasta tímabilið fyrir La Salle spilaði hann 31 leik og var með 12,6 stig ásamt 2,6 stoðsendingum á 29,5 mínútum að meðaltali.

Garland spilaði sem atvinnumaður fyrir Mississauga Power í kanadísku deildinni (NBL) tímabilið 2014-2015 þar sem hann spilaði 16 leiki og var með 12,9 stig og 4,1 stoðsendingu að meðaltali.
Von er á Garland í byrjun september til Íslands.

Nánari upplýsingar um kappann eru á wikipedia síðu hans:
https://en.wikipedia.org/wiki/Tyrone_Garland
 

Myndbönd

Myndbrot af sigurkörfu Tyrone með liði LaSalle háskólans

Körfubolti

Lokahóf körfunnar

Verðlaunahafar vetrarins ásamt þjálfurum, aftari röð frá vinstri: Snjólfur Björnsson, Snorri Vignisson, Sveinbjörn Jóhannesson, Isabella Sigurðardóttir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, Telma Lind Ásgeirsdóttir og Berglind Karen Ingvarsdóttir. Fremri röð Breki Gylfason, Jónas Ólason þjálfari mfl kk, Heimir Snær Jónsson aðstoðarþjálfari mfl kk og Árni Eggert Harðarson þjálfari mfl kvk

Lokahóf körfuknattleiksdeildarinnar fór fram að kvöldi síðasta vetrardags, þann 20. apríl. Þar komu saman leikmenn meistaraflokka og öflugt bakland deildarinnar, nutu glæsilegra veitinga, skemmtiatriða og góðs félagsskapar fram eftir nóttu. Sævar Sævarsson, fyrrum leikmaður Blika og einn skemmtilegasti penni landsins, stýrði veislunni, sló á létta strengi og skemmti gestum. Mikið var hlegið og ekki annað að sjá en að allir hafi skemmt sér konunglega. Meistaraflokkur kvenna bauð nýja stjórn körfuknattleiksdeildarinnar velkomna til starfa með því að leggja fyrir stjórnarfólk hinar ýmsu þrautir, svokallaðar minute-to-win-it þrautir, þar sem meðlimir stjórnar sýndu á sér nýjar hliðar og spauglegar. Meistaraflokkur karla lauk svo formlegri dagskrá með frábæru myndbandi þar sem ýmis atvik vetrarins voru rifjuð upp á spaugilegan hátt.

Að venju voru veitt verðlaun til þeirra leikmanna er þóttu hafa skarað framúr á nýliðnu tímabili. Þá var bryddað upp á þeirri nýjung að velja 6 manna úrvalslið vetrarins og var einnig í fyrsta sinn valinn leikmaður ársins.

Eftirfarandi aðilar unnu til verðlauna:

Meistaraflokkur kvenna
Efnilegasti leikmaðurinn: Elín Sóley Hrafnkelsdóttir
Mestu framfarir: Isabella Ósk Sigurðardóttir
Mikilvægasti leikmaðurinn: Telma Lind Ásgeirsdóttir

Meistaraflokkur karla
Efnilegasti leikmaðurinn: Breki Gylfason
Mestu framfarir: Sveinbjörn Jóhannesson
Mikilvægasti leikmaðurinn: Snorri Vignisson

Úrvalslið ársins
Berglind Karen Ingvarsdóttir
Breki Gylfason
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir
Snjólfur Björnsson
Snorri Vignisson
Telma Lind Ásgeirsdóttir

Leikmaður ársins
Telma Lind Ásgeirsdóttir 

Hér eru nokkrar myndir frá kvöldinu, en fleiri myndir má finna á facebook síðu körfuknattleiksdeildarinnar
Telma Lind Ásgeirsdóttir, leikmaður ársins

Körfubolti

Nýr rekstrarstjóri körfuknattleiksdeildarinnar

Körfuknattsleikdeild Breiðabliks hefur gengið frá ráðningu Helga Hrafns Ólafssonar sem rekstrarstjóra deildarinnar. Tekur hann til starfa þann 1. júní næstkomandi en ráðningin er til þriggja ára.

Helgi er íþróttakennari að mennt með meistargráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum en lokaverkefni hans var markaðssetning körfuknattleiks á Íslandi. Helgi hefur mikla reynslu bæði sem yngri flokka þjálfari og leikmaður en einnig sem leikskólakennari. En fyrst og fremst er hann uppalinn Bliki sem er öllum hnútum kunnugur í Smáranum og Kópavogi.

Sem rekstrarstjóri mun Helgi sjá meðal annars um skipulagningu mótahalds deildarinnar, samskipti við KKÍ, fjáraflanir og kynningarstarf. Þá mun hann einnig þjálfa nokkra yngri flokka.

Stjórn körfuknattsleikdeildar Breiðabliks lýsir mikilli ánægju með ráðninguna og væntir mikils af samstarfinu.
 

Körfubolti

Ný stjórn körfuknattleiksdeildar

Á aðalfundi körfuknattleiksdeildar Breiðabliks þann 30. mars sl. fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Var farið ítarlega yfir ársreikning og hann samþykktur. Góðar umræður voru síðan á milli fundargesta um störf deildarinnar og næsta tímabil.

Ný stjórn deildarinnar var kjörinn einróma. Kjörnir stjórnarmenn eru:

Sigríður H. Kristjánsdóttir, formaður
Eiríkur Aðalsteinsson
Heimir Snær Jónsson
Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir
Jónas Pétur Ólason
Þórólfur Heiðar Þorsteinsson

Stjórn fyrirhugar á næstu vikum að skipta á milli sín verkum og hefja undirbúning að skipulagningu næsta keppnistímabils.
 

Körfubolti

Nýr þjálfari meistaraflokkanna

Körfuknattsleikdeild Breiðabliks hefur gengið frá ráðningu Lárusar Jónssonar sem þjálfara meistarflokks karla og kvenna. Tekur hann til starfa þann 1. ágúst næstkomandi en ráðningin er til þriggja ára.

Lárus er íþróttakennari að mennt með meistargráðu í alþjóðasamskiptum en efni lokaritgerðar var íþróttir án landamæra. Jafnframt hefur hann lokið diplómu námi hjá FIBA Europe vegna afreksþjálfunar yngri flokka.

Lárus hefur mikla reynslu sem leikmaður og þjálfari. Hann var yfirþjálfari meistarflokks Hamars á árunum 2011 til 2013. Þá hefur hann sinnt yngri flokka þjálfun bæði í Danmörku og Spáni. Leikmannaferill Lárusar nær yfir tæplega 12 ár, en mestan part ferilisins spilaði með Hamri í efstu og næstefstu deild. Lárus spilaði átta landsleiki fyrir A-landslið Íslands.

Stjórn körfuknattsleikdeildar Breiðabliks lýsir mikilli ánægju með ráðningu Lárusar og hlakkar til samstarfsins á komandi misserum.
 

Körfubolti

Lokahóf körfuknattleiksdeildarinnar verður síðasta vetrardag

Lokahóf meistaraflokka verður haldið síðasta vetrardag, miðvikudaginn 20. apríl í veislusal Smárans.

Þar munu Blikar koma saman og eiga góða kvöldstund, í kvöldverð er lambasteik að hætti nýrrar stjórnar körfuknattleiksdeildarinnar ásamt óvæntum eftirrétt, verðlaun verða afhent fyrir veturinn, skemmtiatriði frá báðum meistaraflokkum og stendur geimið frá á nótt.

Skráning er á netfanginu .(JavaScript must be enabled to view this email address) en miðinn kostar 3900 kr

Körfubolti

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks

Aðalfundur KKD Breiðabliks verður haldinn miðvikudaginn 30. mars kl 19:00 í veitingasal Smárans

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf

Allir velkomnir
Stjórnin

Körfubolti

Sannfærandi sigur hjá strákunum gegn Ísfirðingum

Eftir mikil vonbrigði í síðasta leik gegn Skagamönnum mættu Blikar með bakið upp við vegg í leik gegn KFÍ, fimm leikir eftir af tímabilinu og líklega þarf liðið að vinna þá alla til að komast í úrslitakeppnina.

Pance Illievski, bróðir Borce Illievski fyrrverandi þjálfara Breiðabliks, skoraði fyrstu körfu leiksins þegar hann smellti niður þrist yfir útrétta hönd Snorra. Zachary sem náði sér engan vegin á strik uppi á Skaga var fljótur að svara því og skotaði 6 stig strax í kjölfarið. Blikar höfðu undirtökin allan hálfleikinn en náðu þó ekki að hrista Ísfirðinga af sér þar sem Nebojsa Knezevic og Kjartan Steindórsson voru sérstaklega skotvissir af millifærinu. Staðan í hálfleik 45-36.

Í seinni hálfleik héldu Blikar áfram smám saman að bæta við forskotið og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Liðsmenn KFÍ gáfust þó ekki upp og töluverður hiti var í leiknum, en það hjálpaði ekki til að dómarar leiksins áttu ekki sinn besta dag. Breiðabliks liðið virkaði mjög heilsteypt í leiknum og skipti engu hvað Ísfirðingar reyndu, hvort sem það var maður á mann vörn eða svæðisvarnir, alltaf virtust Blikar eiga svar. Lokatölur 84-67 Breiðablik í vil.

Breiðabliks liðið fékk framlag frá mörgum leikmönnum en til að nefna einhverja þá svaraði Zachary kallinu eftir að hafa átt dapran leik síðast, lauk leik með 30 stig, spilaði samherja sína vel uppi og lét einnig til sín taka í varnarleiknum. Snorri skoraði 11 og tók 8 fráköst og Helgi Björn skoraði 10 ásamt því að stýra varnarleiknum af mikilli festu.

Með þessum sigri steig liðið eitt skref í átt að úrslitakeppninni, en nú eru fjórir leikir eftir af deildarkeppninni. Næsti leikur er föstudaginn 26. febrúar þegar Hamarsmenn með Þorstein Gunnlaugsson í broddi fylkingar mæta í Smárann. Það verður hörkuleikur en þessi lið eru að berjast um síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.

Tölfræði leiksins
 

Körfubolti

Basl í byrjun reyndist Blikastúlkum dýrkeypt

Mynd: Karfan.is

Breiðablik og Njarðvík öttu kappi í kvöld í fjórða sinn í 1. deildinni þennan veturinn. Blikar eru án erlends leikmanns eftir að Latavia sleit krossband í síðasta leik en nýji erlendi leikmaður Njarðvíkur, Carmen Tyson-Thomas, var klár í slaginn og lét strax mikið til sín taka. Carmen skoraði 10 stig í fyrsta leikhluta og dreif sína leikmenn áfram. Blikar áttu oft fínar sóknir en gekk einstaklega erfiðlega að klára þær með körfum þar sem hvert skotið klikkaði á eftir öðru. Staðan eftir fyrsta fjórðung 7-23 Njarðvík í vil.

Thelma Lind og Kristín Rós komu 4 stigum á töfluna strax í byrjun annars leikhluta og Blikar virtust vera að ná úr sér hrollinum í sókninni en varnarlega gekk lítið að halda aftur af Carmen og hinum Njarðvíkurstúlkunum. Staðan í hálfleik 19-40, en Carmen hafði skorað 19 stig –jafn mikið og allt Breiðabliks liðið.

Breiðabliks liðið fór greinilega vel yfir málin í hálfleik því vörnin snarbatnaði í þriðja leikhluta. Títtnefnd Carmen komst ekkert áleiðis og Beggó fann fjölina sína, en eftir að hafa skorað 4 stig í fyrstu tveimur leikhlutunum setti hún fjórar þriggja stiga körfur í þriðja leikhlutanum. Breiðabliksliðið skoraði 24 stig í leikhlutanum, 5 stigum meira en í öllum fyrri hálfleik, staðan 43-55 fyrir síðasta fjórðunginn.

Blikastelpur héldu áfram að saxa á forskotið, en heldur hægði á stigaskori liðanna í fjórða leikhluta. Þegar 4 mínútur voru til leiksloka minnkaði Telma Lind muninn í 7 stig eftir glæsilega keyrslu að körfunni. Nær komust Blikar þó ekki, en Soffía Rún Skúladóttir skoraði 7 stig í lokin og kláraði leikinn fyrir Njarðvík, lokatölur 58-72.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur en þrátt fyrir að Blikar hafi lent töluvert undir í byrjun gáfust þær aldrei upp og spiluðu á köflum mjög flottan og skemmtilegan körfubolta. Hjá Breiðablik var Beggó stigahæst með 18 stig, Telma Lind skoraði 16 og Aníta 12. Hjá Njarðvík var Carmen með 22, Soffía Rún 18 og Björk 13.

Tölfræði leiksins
M
yndasafn karfan.is

Körfubolti

Skíðadagur Breiðabliks 13. febrúar


Laugardaginn 13. febrúar ætlum við að hafa fjör í Bláfjöllum í tilefni af 66 ára afmæli Breiðabkliks (sem er 12/2)
Leikjabraut verður sett upp fyrir börnin við diskalyfturnar fyrir neðan Breiðabliksskála á milli kl. 11:00 - 15:00
Afmæliskaka verður að sjálfsögðu í boði fyrir alla sem heimsækja okkur í Breiðabliksskála á milli kl. 13:00 - 15:00
Það verður fjör í Bláfjöllum á laugardaginn og tilvalið fyrir fjölskyldur að eiga góðan dag með okkur í tilefni dagsins

Kveðja
stjórn skíða- og brettadeildar Breiðabliks

Körfubolti

Helgi Björn Einarsson til liðs við Breiðablik

Breiðablik hefur borist liðsstyrkur í baráttunni um úrvalsdeildarsætii í körfubolta en Helgi Björn Einarsson hefur gengið til liðs við Blika frá Hetti á Egilsstöðum.

Helgi þekkir vel til leikmannahópsins en hann æfði með liðinu í sumar áður en hann fluttist til Egilsstaða.  Hann er uppalinn í Grindavík en hafði leikið um nokkurra ára skeið í úrvalsdeild með Haukum í Hafnarfirði áður en hann gekk til liðs við Hött.  

Helgi er stór og sterkur leikmaður sem mun án efa láta til sín taka í teignum.  Vertu velkominn í Kópavoginn.

Körfubolti

Styttist í Póstmótið

Nú er farið að styttast í einn stærsta árlega viðburð körfuknattleiksdeildarinnar, sjálft Póstmótið, en það fer fram í Smáranum helgina 30.-31. janúar.  Það eru ófá handtökin sem koma að móti af slíkri stærð og er öll hjálp vel þegin. Við munum leita til foreldra þeirra flokka sem taka þátt í mótinu um að standa vaktina í sjoppunni. 

Póstmótið er ákveðinn hápunktur í starfi deildarinnar en mótið hefur stækkað ár frá ári og í fyrra voru um 800 keppendur, sem gerir það að næststærsta körfuboltamóti landsins.   Keppt er í 6 aldursflokkum bæði hjá strákum og stelpum og fer mótið fram í Smáranum í Kópavogi þar sem körfum hefur verið fjölgað og verður aðstaðan öll hin glæsilegasta.

Stig eru ekki talin en leikgleðin er í fyrirrúmi, hvert lið spilar sína leiki á um 3 klukkutímum og allir fá verðlaunapening og gjöf frá Póstinum. Einnig verða teknar liðsmyndir af öllum liðum.

Síðasti skráningardagur er mánudagurinn 25. janúar en skráningar skilast á netfangið .(JavaScript must be enabled to view this email address), þátttökugjald er 2500 kr á iðkanda.

Mótsreglur
· Leiktími er 2x12 mínútur
· 4 leikmenn eru inná í hvoru liði, nema í 6-7 ára þar sem 3 leikmenn eru inná
· Skipta má inná hvenær sem er á leiktímanum
· Leikið er eftir minniboltareglum KKÍ
· Stig eru ekki talin
· Vörn er ekki leyfð fyrir framan miðju
· Ef brotið er í skottilraun er gefið eitt vítaskot

Körfubolti

Blikar gáfu toppliðinu hörkuleik en dugði ekki til

Efsta lið 1. deildar kvenna, Skallagrímur úr Borgarnesi, mætti í Smárann í gærkvöldi en þær höfðu ekki tapað deildarleik á tímabilinu. Byrjunarlið Breiðabliks var skipað þeim Beggó, Telmu Lind, Anítu Rún, Elín Sóley og Lataviu Dempsey sem var að spila sinn fyrsta heimaleik fyrir félagið.
Leikurinn var í jafnvægi allan fyrri hálfleikinn, þjálfarar beggja liða, Árni Eggert og hinn spænski þjálfari Skallagríms Manuel Rodríguez gerðu báðir tilraunir með svæðisvarnir en hvorugt liðið náði að slíta sig frá hinu. Hálfleikstölur 34-36 Skallagrím í vil.

Í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum framan af þriðja leikhluta en þegar á hann leið fór að hægja á leik Breiðabliks, virtist sem þær misstu örlítið áræðnina í að keyra að körfunni og fóru að sætta sig of oft við þriggja stiga skot sem fæst rötuðu rétta leið. Á meðan hélt Skallagrímur dampi og skoruðu 11 stig gegn engu hjá Blikum sem þýddi að staðan var 42-53 og 8 mínútur til leiksloka. Það var svo ekki fyrr en síðustu 3 mínúturnar sem Blikar náðu aftur upp ákafanum, minnkuðu muninn í 5 stig og fengu tækifæri til að minnka muninn enn frekar en Skallagrímur skartar reynslumiklu liði sem landaði sigri 55-60.

Latavia skoraði 18 stig og sýndi á köflum flotta spretti, er snögg, góð með boltann og fínasta skytta en virtist á köflum týnast aðeins í sóknarleik liðsins sem mun væntanlega lagast þegar hún hefur aðlagast liðinu betur og hún kemst í betra leikform.

Tölfræði leiksins
Myndasafn á facebook síðu körfuknattleiksdeildarinnar
 

Körfubolti

Sjóðheitur Zach sökkti Glímufélaginu

Tíunda umferð í 1. deild karla hófst í kvöld og fengu Blikar hið geðþekka Glímufélag Ármann í heimsókn á þann iðjagræna í Smárann. Fyrir leikinn höfðu Kópvægingar fjóra sigra í farteski sínu og sátu í 7. sæti deildarinnar meðan gestirnir voru með tvo vinninga sem gaf þeim 9. sætið.

Þjálfarafernan byrjaði með sama lið og gegn Valsmönnum; Snjólfur, Rúnar, Zach, Breki og Sveinbjörn. Þrír bakverðir og tveir stórir og stæðilegir leikmenn. Halldór, Egill, Snorri, Þröstur og Ragnar voru á bekknum ásamt Ásgeiri og Matta.

Blikar byrjuðu leikinn með látum eða öllu heldur hinn leikni & ljúfi Zach sem gerði sjö fyrstu stig heimamanna. Maður fékk það á tilfinninguna að nú ætluðu Blikar að skora 6 stig í hverri sókn og ná fullnaðarsigri á Glímufélaginu strax í fyrsta leiklhuta. En öðru nær. Gestirnir voru lunknir, náðu oft og tíðum góðum hindrunum í sókninni sinni og uppskáru auðveld en kærkomin sniðskot. Blikar léku dapra vörn og náðu ekki að hrista þá af sér í fyrri hálfleik og var staðan 48-38 þegar hinir vel dressuðu dómarar flautuðu til hálfleiks.

Í upphafi seinni hálfleiks var aðeins eitt lið á vellinum. Blikum héldust öngvin bönd og náðu Ármenningar ekki að gera stig í rúmar fimm mínútur í þriðja leikhlutanum. Zach var sjóðheitur á þessum tíma og lék gestina grátt á löngum stundum. Hann lauk leik með 40 stig og frábæra skotnýtingu ef undan eru skilinn vítinn hjá kappanum.

Leikmenn Blika sigldu svo þægilegum 36 stiga sigri í höfn í 4. leikhluta, 96-60 og fengu allir leikmenn að spreyta sig. Seinni hálfleikurinn leit út eins og um æfingaleik væri að ræða og verður að segjast að undirritaður datt út á löngum köflum og lætur því umfjöllun sinni lokið að þessu sinni!

Næsti leikur Blika verður hörkurimma norðan heiða þegar Þórsarar verða heimsóttir. Áfram Breiðablik! 

Tölfræði leiksins
Myndasafn á facebook síðu körfuknattleiksdeildarinnar

Gylfi Gröndal

 

Körfubolti

Stelpurnar gerðu góða ferð til Njarðvíkur

Telma Lind skoraði 14 stig í kvöld

Meistaraflokkur kvenna hélt til Njarðvíkur í kvöld og mættu þar heimastúlkum.  Blikar tefldu fram nýjum erlendum leikmanni, Latavia Dempsey, en Njarðvíkingum tókst ekki að koma sínum nýja erlenda leikmanni til landsins í tæka tíð.

Leikurinn var í jafnvægi lengst af fyrsta leikhluta en í stöðunni 11-9 fyrir Njarðvík tóku Blikastúlkur sig til og skoruðu 6 síðustu stig leikhlutans.  Þetta áhlaup Blika hélt áfram í öðrum leikhluta og Aníta Rún kom þeim í 17-32 áður en flautað var til hálfleiks.  Blikar virtust hafa leikinn í höndum sér en Njarðvíkingar voru ekki á því að leggja árar í bát og þær stöllur Hera Sóley og Soffía Rún skoruðu samtals 14 stig gegn einungis 6 stigum Blika.  Staðan eftir þriðja leikhluta 31-39 og öll stemmning Njarðvíkurmegin.

Eitthvað hefur Árni Eggert sagt við sínar stelpur í hléinu því Blikar skoruðu 8 fyrstu stig leikhlutans, þar af skoraði Telma Lind 6 stig.   Blikar aftur komnir í bílstjórasætið og kláruðu leikinn af öryggi, lokatölur 40-55.

Telma Lind var stigahæst Blika með 14 stig, Beggó bætti við 10 stigum og þá var frákastadrottningin Isabella með 15 fráköst.  Nýji leikmaður Blika, Latavia Dempsey, gekk illa að finna fjölina sína en aðeins 3 af 14 skotum hennar utan að velli rötuðu rétta leið.  

Næsti leikur stelpnanna er föstudaginn 15. janúar, en þá er tvíhöfði í Smáranum þegar meistaraflokkur kvenna mætir liði Skallagríms og meistaraflokkur karla fær Ármann í heimsókn.

Tölfræði leiksins

Körfubolti

Sannfærandi hjá stelpunum gegn Fjölni

Meistaraflokkur kvenna mætti í kvöld liði Fjölnis úr Grafarvogi. Fjölnisstúlkur hafa átt erfitt uppdráttar í vetur og Blikastúlkur gáfu þeim engin grið, eftir fyrsta leikhluta var staðan 22-13 heimastúlkum í vil. Þær stöllur Elín Sóley og Isabella réðu ríkjum í teignum, en Blikar tóku heil 70 fráköst gegn 33 hjá Fjölni.

Fjölnir reyndi svæðisvörn en hún dugði skammt þar sem Blikar sundurspiluðu hana trekk í trekk. Að leik loknum var staðan 92-49 Blikum í vil.  Elín Sóley var fremst í flokki í stigaskorun með 27 stig og 12 fráköst, Beggó hjó nærri þrennunni með 17 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar, Isabella bætti við 14 og heilum 19 fráköstum og Telma Lind skoraði 14 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.  

Búast má við meiri mótspyrnu í næsta leik stelpnanna, en hann er núna á sunnudag í Njarðvík. Þar munu bæði lið skarta nýráðnum erlendum leikmönnum, en Njarðvík samdi á dögunum við Carmen Tyson-Thomas sem lék með Keflavík í Dominos deildinni á síðustu leiktíð. Þá hafa Blikar einnig gengið frá ráðningu á nýjum leikmanni, en stúlkan sú heitir Latavia Dempsey og verður hún kynnt frekar á allra næstu dögum hér á síðunni.
 

Tölfræði leiksins má finna hér, en haft var á orði að líklega hafi vantað einhver varin skot á tölfræðiblaðið

Baldur Már Stefánsson

Körfubolti

Frábær sigur hjá strákunum í framlengdum leik

Breiðablik byrjaði nýtt ár með glæsibrag og sigraði topplið Vals, 82-81, eftir feikilega spennandi og framlengdan leik í Smáranum. Staðan í hálfleik var 35-39, Hlíðarendapiltum í vil. Blikar hafa nú unnið fjóra leiki en tapað fimm í 1. Deild karla og dvelja í 7. sætinu meðan Valsmenn hafa unnið sjö en tapað tveimur og eru í toppsætinu, í bili að minnsta kosti.

Blikar hófu leikinn ágætlega í 1. leikhluta. Liðið hefir endurheimt Egil Vignisson og Rúnar Inga aukinheldur sem liðið skartar nú Bandaríkjamanninum Zachary Jamarco Warren sem beið öngvra boða í fyrsta leik sínum fyrir okkur Kópvæginga og setti niður 32 stig. Takk fyrir, borga sælir hepði nú verið sagt um slíka frammistöðu í minni sveit. Hvað um það.
Þjálfarateymi Blika kom undirrituðum örlítið á óvart með byrjunarliði sínu hvar þeir sendu inn á þann iðjagræna þrjá bakverði samtímis; Rúnar, Zachary og Snjólf auk þess sem Breki og Sveinbjörn stóðu vaktina á vellinum. Bræðurnir Egill og Snorri voru svo til taks á tréverkinu ásamt Halldóri, Þresti, Ásgeiri, Ragnari og Sigurði. Lögfræðingurinn og Presleyaðdáandinn geðþekki, Kjartan Ragnars, sat í borgarlegum klæðum á bekknum ásamt hinum unga og efnilega Brynjari Karli og reyndar fleiri góðum mönnum.

Blikar leiddu leikinn eftir 1. leikhluta 20-15. Þeir léku vel og áttu sérstaklega góða spretti í vörninni. Í næsta leikhluta náðu piltar séra Friðriks að þétta vörn sína. Þeir gerðu 11 stig í röð og breyttu stöðunni úr 20-15 í 20-26. Eftir þennan kraftmikla sprett gestanna komust Blikar ekki aftur yfir í leiknum fyrr en rúmlega 20 sekúndur voru eftir að venjulegum leiktíma. Meir um það síðar.

Kópavogspiltar náðu aðeins að rétta úr kútnum í seinni hluta annars leikhluta og náðu að skora fjögur síðustu stigin í fyrri hálfleik og breyta stöðunni úr 31-39 í 35-39. Akkilesarhæll Blika í sókninni var að boltahreyfing var ekki nógu góð og hröð. Allir virðast vilja rekja boltann áður en þeir gefa hann sem hægir sóknarleikinn og gerir andstæðingunum yfirleitt of auðvelt fyrir í vörninni.

Í seinni hálfleik náðu Blikar að narta í hælana á sveinum séra Friðriks og misstu þá aldrei úr augsýn. Breki var í banastuði fyrir utan þriggja stiga línuna og setti fjóra þrista. Það er athyglisvert að þessi rúmlega tveggja metra maður gerði 18 stig í leiknum en ekkert af þeim inn í teig! Öngvu að síður var hann með stórleik eins og reyndar Rúnar Ingi, sem stýrði sóknarleiknum af yfirvegun, og Sveinbjörn og Egill sem börðust til hins hinsta manns undir körfunni; að ekki sé minnst á Snjólf sem var frábær í vörninni sem og í sókninni. Snorri var líka góður í leiknum, aðrir léku minni hlutverk að þessu sinni en koma örugglega sterkir inn í næsta leik gegn Ármenningum. En aptur að leiknum – maður lifandi!

Í fjórða leikhluta náðu Blikar loksins að jafna leikinn og allt á suðurpunkti á þeim iðjagræna, jafnt hjá leikmönnum sem og þeim fjölmörgu áhorfendum sem lögðu leið sína í Smárann. Eins og áður segir náðu Blikar forystunni í blálokin þegar Sveinbjörn smokraði knettinum ofan í körfuna þegar um 2 sekúndur voru eftir að leiknum, 73-71. Valsmenn geystust í sókn, tóku svo leikhlé þegar 17 sekúndur voru eftir. Þeir hófu sóknina og vildu margir stúkuþjálfararnir að Blikar myndu brjóta á þeim þar sem gestirnir voru ekki komnir í skotrétt. Það gerðu Kópvægingar hinsvegar ekki og náðu Valsarar að skora með sniðskoti þegar 5 sekúndur lifðu leiks, 73-73. Blikar náðu svo ekki að nýta síðustu sóknina og því var framlenging staðreynd.

Í fimm mínútna framlengingu var jafnt á komið með liðunum. Valsmenn jöfnuðu leikinn, 81-81, úr vítaskotum þegar um 15 sekúndur voru eftir. Blikar fóru í sókn og aldrei þess vant gaf Zachary góða sendingu á Egil undir körfunni. Brotið var á honum og fékk hann tvö vítaskot. Hann nýtti seinna skotið og því var staðan, 82-81. Valsmenn tóku leikhlé og höfðu 5 sekúndur til þess að knýja fram sigur. Þeir náðu opnu þriggja stiga skoti í horninu en boltinn dansaði á hringnum og vildi ekki ofan í. Gall þá leikklukkan og Blikar ærðust úr gleði enda fyrsti sigur þeirra í vetur á liði sem er ofar en þeir í töflunni.

Þessi sæti sigur mun án efa efla liðið og fátt betra en að byrja nýtt ár á sigri á toppliðinu. Næsti leikur Blika er heimaleikur við Ármann eftir rúma viku.

Áfram Breiðablix! 

Tölfræði leiksins

Gylfi Gröndal

Körfubolti

Zachary Jamarco Warren til liðs við Breiðablik

Nýr erlendur leikmaður hefur gengið til liðs við meistaraflokk karla, kappinn sá heitir Zachary Jamarco Warren og er Íslenskum körfuboltaáhugamönnum að góðu kunnur, en hann lék með liði ÍA við góðan orðstýr síðastliðin 2 ár.  Þrátt fyrir að vera ekki hár í loftinu er hann gríðarlega öflugur leikmaður sem  gerði meðan annars heil 48 stig gegn Blikum í fyrra.

Jamarco 27 ára gamall, 175 cm hár bakvörður sem er mikil þriggja stiga skytta og skoraði 30,6 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili á frábærri skotnýtingu, 50% í tveggja stiga skotum og 44% í þriggja stiga skotum, auk þess að gefa rúmar 4 stoðsendingar og taka 5,5 fráköst.   Árið áður skoraði hann hvorki meira né minna en tæp 39 stig að meðaltali í leik.

Blikar binda miklar vonir við Jamarco en liðið hefur verið án erlends leikmanns hingað til í vetur og er þetta skýr yfirlýsing um að liðið ætlar sér ekkert minna en að vinna sér sæt í úrvalsdeild.  Næsti leikur er á heimavelli gegn toppliði Vals fimmtudaginn 7. janúar klukkan 18:00 og verður forvitnilegt að sjá kappann á hinum iðjagræna.

Myndbönd

Nokkur tilþrif frá síðasta tímabili

Körfubolti

3 Blikar í U20 ára landsliðshóp

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari U20 ára landsliðs karla hefur valið 28 manna æfingahóp liðsins fyrir verkefni sumarsins en liðið mun fara á Norðurlandamót 26.-31. júní og Evrópumót 16.-24. júlí.

Við í Breiðablik erum stolt af því að eiga þarna 3 fulltrúa, þá Breka Gylfason, Ragnar Jósef Ragnarsson og Snorra Vignisson og óskum þeim til hamingju með valið.

Hægt er að sjá allan hópinn hér á heimasíðu KKÍ

Körfubolti

Skallarnir unnu eftir skrýtnar lokamínútur

Breiðablik tók á móti Skallagrími í 7. umferð 1. deildar karla í kvöld og tapaði, 70-81, eftir æsispennandi lokamínútur. Staðan í hálfleik var 44-46, Borgnesingum í vil. Með sigrinum komust gestirnir í 3. sæti deildarinnar með 10 stig meðan Blikar sitja enn í sjöunda sætinu með sex stig. Þetta var annar leikur liðanna á innan við viku en síðastliðinn laugardag unnu Skallarnir nauman sigur í Poweradebikarnum 75-78.

Blikar voru heldur þunnskipaðir í kvöld en í liðið vantaði Brynjar, Egil, Kjartan, Rúnar Inga og Þröst. Munar um minna. Inn í liðið kom Ásgeir, sem hefur verið meiddur, og Sigurður Þórarinsson, sem lék sinn fyrsta leik fyrir Kópvæginga.

Í fyrri hálfleik byrjuðu Blikar betur og voru með forystuna í upphafi. Aldursforsetinn Halldór var sjóðheitur á upphafsmínútunum en gerði alls 20 stig á þeim iðjagræna í kvöld.

Í öðrum leikhluta voru Skallarnir með tögl og hagldir en Blikar þó aldrei langt undan. Í þriðja leikhlutanum léku gestirnir vel; stemmning var í liðinu og bestu leikmenn þeirra Sigtryggur Arnar og Jean Cadet reyndust Blikum erfiðir.

Blikar komu hinsvegar vel stemmdir í lokaleikhlutanum og var gaman að sjá kraftinn og áræðnina í Snjólfi, Halla, Snorra, Breka og Sveinbirni. Þeir börðust vel og svo voru Garðar og Sigurður tilbúnir að koma inn á og viðhalda baráttunni.

Þegar um ein og half mínúta lifði leiks voru Blikar í sókn. Staðan var 77-76 fyrir heimamenn og allt á suðurpunkti á þeim iðjagræna í Smáranum. Snorri tók þriggja stiga skot; boltinn fór í hringinn en eigi ofan í. Halldór náði sóknarfrákasti fyrir Blika en skotklukkan endurnýjaðist ekki. Urðu þeir hvítklæddu því að taka neyðarskot fljótt og misstu boltann. Þetta var gríðarlega mikilvægt og afar slæm mistök á ritararborðinu og hjá dómurunum að sjá þetta ekki.

Annað atvik var heldur skrýtið. Þegar 6 sekúndur voru eftir báðu Blikar um leikhlé. Staðan var 77-79 fyrir Skallagrím og vildu Kópvægingar ráða ráðum sínum. Þegar leikhlé þeirra var að klárast báðu Skallarnir um leikhlé – og fengu án þess að boltinn færi í leik! Kannski er það samkvæmt laganna bókstaf í þessari fögru íþrótt en eitthvað annkannarlegt er við það að lið geti skipst á að taka leikhlé án þess að boltinn fari í leik. Hvað um það.

Skallagrímur hélt haus á lokasekúndunum og vann nauman en mikilvægan sigur, 79-81.

Blikar geta þrátt fyrir allt verið nokk sáttir. Þeir tefldu ekki fram Kana – og hafa ekki gert í vetur - líkt og Borgnesingar en hafa sýnt það í þessum tveimur leikjum við Skalanna að þeir standa þeim fyllilega að sporði.

Næsti leikur Blika er heimsókn í Grafarvoginn þann 20. Desember nk. Nú þurfa Kópvægingar – nær & fjær – að skella sér í strætisvagn númer 24 & fylkja sér á bakvið drengina. Áfram Breiðablik!

Tölfræði leiksins

Gylfi Gröndal

Körfubolti

Naumt tap hjá strákunum

Snjólfur var stigahæstur Blika, skoraði 19 stig og tók einnig 9 fráköst

Skallagrímur vann Breiðablik í Smáranum 75-78 í kvöld en leikurinn var liður í Powerade-bikarkeppni karla. Borgnesingar bruna því í næstu umferð bikarkeppninnar en þátttöku Blika er lokið þennan veturinn. Leikurinn fór fram á laugardagskveldi en gestirnir áttu í nokkrum erfiðleikum með að komast á leikstað vegna veðurs.

Það eru talsverð meiðsli í herbúðum Blika þessa dagana og var byrjunarliðið að þessu sinni Snjólfur, Ragnar, Þröstur, Halli og Sveinbjörn. Það blés ekki byrlega hjá Blikum í upphafi leiks því gestirnir komust í 0-14 eftir 5 mínútna leik! Blikar léku þó ágætlega fyrstu mínúturnar og fengu opin skot en settu þau ekki niður. Fyrstu stig Blika komu eftir 3ja stiga skot frá Snjólfi en hann átti skínandi leik í kvöld og gerði 19 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Í liði Skallagríms fór Sigtryggur Arnar hamförum í byrjun og gerði 19 stig í fyrsta leikhluta! Hann kann greinilega vel við sig á þeim iðjagræna í Smáranum enda steig hann sín fyrstu spor á körfuboltavellinum þar.

Eftir fyrsta leikhluta leit út fyrir léttan sigur gestanna. Þeir leiddu 16-31 og ugglaust hafa margir farið að velta fyrir sér hversu stór yrði sigur Skallanna í lokin. Hinsvegar unnu Blikar sig hægt og rólega inn í leikinn og höfðu sigur í öðrum leikhluta 22-12. Munaði þar talsvert um að Sigtryggur Arnar var ískaldur í hlutanum og gerði aðeins 1 stig fyrir gestina.

Þjálfarar heimamanna leituðu talsvert á bekkinn og áttu þar nokkrir sterka innkomu, eins og t.d. Snorri, Brynjar og Garðar. Þá var gaman að sjá hinn 15 ára gamla Hafstein Guðna fá mínútur en hann lék sinn fyrsta leik gegn Hamri á dögunum; framtíðarleikmaður þarna á ferð.

Í seinni hálfleik héldu Blikar áfram að minnka muninn. Vörnin var góð og menn greinilega staðráðnir í að gefast ekki upp og láta finna fyrir sér. Þegar flautað var til loka 3. leikhluta var staðan, 59-60, og ljóst að síðasti leikhluti yrði spennandi.

Sem og rétt var. Þegar um ein og hálf mínútna lifði leiks var staðan, 75-77, Skallagrími í vil. Blikar fengu þá nokkur tækifæri til þess að jafna leikinn – eða komast stigi yfir – en skripluðu jafnan á skötu, illu heilli. Þar má eflaust kenna reynsluleysi um en hið kópvægska lið er afar ungt að árum. Lokamínútur sem þessar fara í reynslubanka leikmanna og það skiptir mestu máli.

Blikar geta heilt yfir verið þokkalega sáttir. Þeir gáfust ekki upp eftir hroðalega byrjun og það er góðs viti. Blikar fá tækifæri til að ná fram hefndum á föstudaginn en þá mætast liðin í Smáranum í 7. umferð 1. deildar karla.

Áfram Breiðablik!

Tölfræði leiksins

Gylfi Gröndal
 

Körfubolti

11 Blikar í æfingahópum yngri landsliða Íslands

Þjálfarar yngri landsliða KKÍ hafa valið sína fyrstu æfingahópa fyrir verkefni næsta sumars. Valið var tilkynnt í dag en Breiðablik á hvorki fleiri né færri en 11 fulltrúa í þessum hópum. Liðin koma saman til æfinga fyrir jólin og er verið að stefna á æfingar dagana 19.-21. desember.

Fulltrúar Breiðabliks:

U18 kvenna
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir

U18 karla
Brynjar Karl Ævarsson
Matthías Örn Karelsson
Sveinbjörn Jóhannesson

U16 drengja
Guðlaugur Hrafn Kristjánsson
Hafsteinn Guðnason
Leó Steinn Larsen
Þorsteinn Breki Eiríksson

U15 stúlkna
Snædís Birna Árnadóttir

U15 drengja
Freyr Gíslason
Steinar Snær Guðmundsson
 

Tilkynning körfuknattleikssambandsins 

Körfubolti

Tvíhöfði í körfunni á föstudaginn

Á föstudaginn verður tvíhöfði í Smáranum þegar meistaraflokkur kvenna mætir Njarðvík og meistaraflokkur karla mætir ÍA.

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks ætlar í samstarfi við aðalstjórn félagsins að gefa öllum iðkendum fjölskyldukort, en kortið veitir aðgang að heimaleikjum meistaraflokka karla og kvenna í körfubolta veturinn 2015-2016.  Fjölskyldukortið gildir fyrir iðkendur og forráðamenn þeirra. Eitt kort fyrir alla fjölskylduna sem sent hefur verið út til iðkenda Breiðabliks gegnum Nóraskráningakerfið.

Kvennaleikurinn hefst kl 18:00 og karlaleikurinn kl 20:00.

Grillaðir hamborgarar fyrir svanga áhorfendur milli leikja. Börger og ísköld kók á aðeins 1.000 kall.

Blikasjoppan verður einnig á sínum stað og Blikaklúbburinn mun bjóða klúbbmeðlimum upp á kaffi og bakkelsi.

Sjáumst í Smáranum!! 

Körfubolti

Fjölskyldukortið - gjöf frá Breiðablik

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks ætlar í samstarfi við aðalstjórn félagsins að gefa öllum iðkendum fjölskyldukort, en kortið veitir aðgang að heimaleikjum meistaraflokka karla og kvenna í körfubolta veturinn 2015-2016.

Fjölskyldukortið gildir fyrir iðkendur og forráðamenn þeirra. Eitt kort fyrir alla fjölskylduna.

Kortið hefur verið sent til iðkenda Breiðabliks gegnum Nóraskráningakerfið.

Hlökkum til að sjá ykkur á tvöföldum heimaleik næsta föstudag!

Kl. 18:00 Mfl.kvk, gegn Njarðvík
Kl. 20:00 Mfl.kk gegn ÍA

Á milli leikja verða grillaðir hamborgarar – börger og gosdós á litlar 1.000 krónur.

Körfubolti

Breyting í minnibolta 6-7 ára

Breyting hefur orðið á æfingatöflu minnibolta 6-7 ára stúlkna, en þær verða á sama tíma og strákarnir.  Það þýðir þriðjudagsæfingin færist frá 16:30 til 17:00.  Það verða þá þrír þjálfarar með hópinn, þeir Gylfi Gröndal, Leifur Heiðar Leifsson og Kristín Rós Sigurðardóttir.  Æfingarnarnar eru eftirfarandi:

MB 6-7 ára (2008-2009)
Þri 17:00-17:50 Smárinn
Fös 15:30-16:15 Smárinn
Sun 11:00-12:00 Smárinn
 

Körfubolti

Blikastúlkur unnu sterkan heimasigur

Stelpurnar fagna sigri. Mynd: Bjarni Antonsson

Breiðablik hafði betur gegn Þór Akureyri í Smáranum í gærkvöldi, 58-55. Hjá Breiðablik var Aníta Rún Árnadóttir stigahæst með 21 stig & 6 fráköst og Isabella Ósk Sigurðardóttir bætti við 6 stigum ásamt því að taka 14 fráköst og verja 2 skot. Hjá Þórsurum var Rut Herner Konráðsdóttir með 15 stig & 6 fráköst og Fanney Lind G. Thomas var með 13 stig & 12 fráköst.

Það var vel mætt í Smárann í kvöld og stuðningsmenn beggja liða á svæðinu. Stelpurnar áttu fyrri leikinn og heimkonur fóru vel af stað. Blikarnir komust í 9-0 og það tók gestina næstum 6 mínútur að koma sér á blað en fyrsta stig þeirra kom af vítalínunni. Það hafði þá loksins lifnað yfir Þórsurunum söxuðu á forystuna sem Blikarnir náðu á fyrstu mínútunum. Það var lítið skorað allan leikinn en staðan var 14-8 fyrir Breiðablik eftir 1. leikhlutann.

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu 2. leikhluta á því að jafna leikinn með 6-0 áhlaupi en eftir það tók Breiðablik aftur stjórn á leiknum og áttu einungis eftir að setja tvö stig til viðbótar allan leikhlutann. Blikarnir héldu aftur af Þórsurum með góðri vörn en skoruðu í raun heldur fá stig sömuleiðis. Leikhlutinn fór 13-8 og staðan í hálfleik því 27-16 fyrir heimakonum.

Eitthvað var sagt í klefa Þórsara í hálfleik sem kom gestunum í betri gír. Gestirnir sóttu mun harðar að körfunni og lokuðu oft algjörlega á Blikana varnarmegin. Breiðablik stóðst þó mesta áhlaupið og gaf aldrei forystuna af hendi þrátt fyrir að missa hana niður í einungis eitt stig á einum tímapunkti. Leikhlutann sigruðu Þórsarar 15-20 og staðan komin í 42-37 fyrir Blikum.

Lokaleikhlutinn fór jafn af stað, liðin skiptust á körfum og þrátt fyrir að munurinn í stigaskorinu sveiflaðist þá hélt Breiðablik forystunni áfram. Lokamínúturnar voru hins vegar gífurlega spennandi. Þórsarar áttu virkilega góðan kafla, söxuðu á forystuna og þegar 15 sekúndur voru eftir á klukkunni skildi aðeins eitt stig liðin að. Blikar fór þá á vítalínuna en hvorugt vítið fór niður. Það var þá Isabella Ósk Sigurðardóttir sem steig upp og reif niður frákastið fyrir Blikana og kom þar með í veg fyrir að Þórsarar fengju tækifæri á skyndisókn. Fanney Lind braut næst á Isabellu sem fór á vítalínuna og gerði sér lítið fyrir og setti niður bæði vítin og kom Blikum aftur þremur stigum yfir þegar aðeins 5 sekúndur voru eftir af leiknum. Þórsarar náðu ekki að koma boltanum niður í loka sókninni og Breiðablik vann því leikinn, 59-55.

Elín Lára Reynisdóttir

Myndasafn Bjarna Antonssonar

Skjöl


Körfubolti

Norðanmenn nældu í stigin í karlaleiknum

Brynjar Karl Ævarsson sækir á Danero Thomas leikmkann Þór Akureyri. Mynd: Bjarni Antonsson

Norðanmenn nældu í stigin

Það var mikið um dýrðir í gærkvöldi í Smáranum hvar bæði meistaraflokkur karla og kvenna öttu kappi við Þór frá Akureyri. Umgjörðin var glæsileg og eiga stjórnamenn og sjálfboðaliðar deildarinnar þakkir skildar fyrir hana. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir í fyrri viðureigninni og skelltu norðanstúlkum í háspennuleik, 59-55, og unnu þar með sinn annan leik á þrem dögum.

Strákarnir biðu hinsvegar lægri hlut fyrir norðanmönnum, 58-75, eftir að staðan hafði verið 25-33, Þórsurum í hag. Blikar eru því um miðja deild eftir tvo leiki meðan gestirnir tróna á toppnum og eru taplausir.

Fyrirfram hefði undirritaður haldið að um ramman reip væri að draga fyrir Blika hvar Þórsarar hafa safnað liði fyrir veturinn. Þeir skarta tveimur erlendum leikmönnum, Þresti Leó Keflvíking ásamt öðrum góðum mönnum meðan Blikar byggja á ungu og stórefnilegu liði.

Blikar blésu á allar slíkar hugrenningar í byrjun leiks og léku vel í 1. leikhluta. Boltinn gekk vel í sókninni og baráttan var til staðar í vörninni. Þegar flautað var eftir 10 mínútna leik leiddu Kópvægingar 19-13 & allt stefndi í hörkuleik.

Í öðrum leikhluta hélt baráttan áfram og Blikar ávallt með frumkvæðið. En upp úr miðjum hlutanum virtust heimamenn skripla á skötu á þeim iðjagræna í Smáranum. Sóknarleikurinn gekk stirðlega og þá gerist stundum hjá ungum og efnilegum leikmönnum að þeir ætla að gera þetta upp á eigin spýtur og helst skora 7-9 stig í hverri sókn. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þarna þurfa þeir reynslumeiri – sem eru samt ungir(!) – að stíga upp og stýra leiknum.

Í stuttu máli sigldu Blikar ekki á sælum sel frá viðureigninni eftir þennan slæma kafla í fyrri hálfleik. Þriðji leikhluti var svipaður en í þeim fjórða var jafnari enda sigurinn löngu orðinn norðanmanna.

Margt var jákvætt í leik Blika. Vörnin var betri en í fyrsta leiknum en sóknin döpur. Það kemur öngvin til með að fljóta á feitum hval í þessari fögru íþrótt ef hann skorar undir 60 stigum á 40 mínútum.

Næsti leikur Blika í 1. deildinni verður gegn Reyni Sandgerði suður með sjós föstudaginn 6. nóvember. 

Gylfi Gröndal

Myndasafn Bjarna Antonssonar

Körfubolti

Blikaklúbburinn

Blikaklúbburinn er bakhjarlahópur körfunnar, meðlimir greiða 1.000 kr. mánaðarlega og fá sérstakt Blikaklúbbskort.  Blikakortið gildir fyrir tvo sem fá frítt á alla leiki og er boðið upp á kaffi og bakkelsi á leikjunum. 

Skráning er hér
 

Körfubolti

Tvíhöfði í körfunni á föstudag

Föstudaginn 30. október er svokallaður tvíhöfði í körfunni, en þá mæta Þórsarar frá Akureyri í Smárann með bæði karla og kvennalið félagsins.

Kvennaleikurinn hefst kl 18:00 og karlaleikurinn beint á eftir eða kl 20:00. Á milli leikja verða seldir grillaðir hamborgarar og þá geta Blikaklúbbsmeðlimir körfunnar gengið í kaffihlaðborðið.  Kvennalið Breiðabliks hefur leikið tvo deildarleiki, unnu Njarðvík en máttu þola tap gegn Skallagrím.  Karlaliðið hefur leikið einn leik, unnu stórsigur á liði Ármanns.

Einar P. & Kó byggingarverktakar bjóða frítt á leikina.

Sjáumst í Smáranum!!

Myndbönd

Allir iðkendur Breiðabliks og fjölskyldur þeirra fá frítt á leikina í körfunni í vetur

Körfubolti

Slæm byrjun í fjórða leikhluta varð stelpunum að falli

Elín Sóley er komin heim í Kópavoginn

Blikastelpur léku í kvöld fyrsta heimaleik vetrarins þegar þær fengu lið Skallagríms í heimsókn. Skallagrímur teflir á ný fram kvennaliði í meistaraflokk og hafa hlaðið inn þekktum nöfnum á borð við systurnar Sigrúnu og Guðrúnu Ámundadætur og Kristrúnu Sigurjónsdóttur sem allar hafa gert garðinn frægan í úrvalsdeild.

Fyrsti leikhluti var hnífjafn, Borgnesingar tóku forystuna í upphafi en þriggja stiga körfur frá Guðrúnu, Anítu og Tellmu komu Blikastúlkum yfir og liðin skiptust svo á að leiða. Elín Sóley sem er nýkomin aftur heim frá Hamri í Hveragerði skoraði síðustu körfu leikhlutans og Blikar leiddu eftir fyrsta leikhluta, 19-18.

Barningurinn hélt áfram í öðrum leikhluta, en Blikastúlkur áttu erfitt með að stöðva Sigrúnu Ámundadóttur sem þegar hálfleiknum lauk gert alls 19 stig. Skallagrímur leiddi í hálfleik 32,37.
Blikar hófu þriðja leikhluta af krafti og Beggó minnkaði muninn í eitt stig, 40-41, með snyrtilegri körfu. Sólrún Sæmundsdóttir svaraði þá með þriggja stiga körfu og Skallagrímsstúlkur voru ekki á því að gefa forystuna af hendi og staðan 48-52 fyrir síðasta leikhlutann.

Þær stöllur í Skallagrímsliðinu, Sigrún og Kristrún byrjuðu lokaleikhlutann af þvílíkum krafti og skoruðu í sameiningu 12 fyrstu stig leikhlutans. Sólrún bætti svo við 2 stigum af vítalínunni áður en Telma Lind náði loks að koma Blikum á blað þegar hún skoraði þriggja stiga körfu og minnkaði muninn niður í 15 stig. Hið leikreynda lið Skallagríms lét það þó ekki á sig fá og sigldi öruggum sigri í höfn, lokatölur 64-78.

Breiðabliksliðið spilaði vel í þrjá leikhluta en hugsanlega kom munurinn á reynslu liðanna í ljós í fjórða leikhluta þegar Blikastúlkur misstu algerlega dampinn. Margt jákvætt var í leik liðsins og ljóst að það verður gaman að fylgjast með stelpunum í vetur sem eru með hörkulið í 1. deild sem hefur líklega aldrei verið sterkari.
Bilun varð í tölfræðikerfinu og verður endanleg tölfræði leiksins ekki klár fyrr en á morgun.
 

Körfubolti

Auðvelt hjá meistaraflokki karla gegn Ármanni

Brynjar Karl átti stórleik í kvöld

Meistaraflokkur karla í körfuknattleik hóf leiktíð sína í kvöld 1. deild karla hvar liðið vann auðveldan sigur á Ármenningum í Kennaraháskólanum, 80-104, eftir að staðan hafði verið 37-56 í hálfleik, Blikum í vil.

Blikar tefla fram afar ungu og bráðefnilegu liði í vetur sem gaman verður að fylgjast með. Hópurinn er stór og breiður og til marks um það komust ellefu af tólf leikmönnum liðsins á blað í kvöld í stigaskoruninni. Þá voru bræðurnir Egill og Snorri Vignissynir ekki með þar sem Egill er staddur erlendis og Snorri meiddur á hendi og á leið í aðgerð. Munar um minna!

Jafnræði var með liðunum til að byrja með þó gestirnir úr Kópavoginum væru nú oft og einatt með forystu í leiknum. Maður fékk það á tilfinninguna að Blikar gætu skorað þegar þeir vildu enda með mörg vopn í vopnabúri sínu í sóknarleiknum. Hinsvegar verða þeir grænklæddu að skoða hjá sér varnarleikinn fyrir komandi átök. Þessi “klassísku” atriði í vörninni eins og t.d. að yfirdekka sendingar, hafa hendur uppi, spila hjálparvörn, stíga út o.s.frv þarf að bæta. Hið fantagóða þjálfarafjóreyki Blika Jónas, Baldur, Heimir og Tóti verða að fara vel yfir þessi atriði fyrir næsta leik.

Í kvöld dreifðu þjálfarnir leiktímanum nokkuð vel á milli manna og léku nánast allir leikmennirnir tólf meira en tíu mínútur í leiknum. Brynjar Karl átti stjörnuleik og skoraði 28 stig á rúmum 26 mínútum aukinheldur sem skotnýting hans var afar góð. Aðrir voru góðir og verður afar fróðlegt að fylgjast með strákunum í framhaldinu. Þeir fá svo sannkallaða eldskírn þann 30. október nk. þegar gjörbreytt lið Þórsara frá Akureyri arkar inn á þann iðjagræna í Smáranum.

Þar verð ég pottþétt – hvað með þig??? 

Gylfi Gröndal

Tölfræði leiksins

Körfubolti

Tímabilið hefst hjá strákunum í körfunni

Nú er körfuboltatímabilið að hefjast að nýju og því kominn tími til að taka stöðutékk á meistaraflokki karla.
Strákarnir leika í 1. Deildinni í vetur, en ásamt Blikur eru það Ármann, Fjölnir, Hamar, ÍA, KFÍ, Reynir Sandgerði, Skallagrímur, Valur og Þór Akureyri sem skipa deildina. Leikið er heima og heiman, efsta lið deildarinnar hlýtur sæti í úrvalsdeild en næstu 4 leika um annað laust sæti. Fyrsti leikur Blika er útileikur gegn Ármanni í Kennaraháskólanum föstudaginn 16. október kl 20:00. Fyrsti heimaleikur er svo 30. október gegn liði Þórs frá Akureyri.

Þjálfarateymið

Jónas Ólason er aðalþjálfari liðsins en hann tók við liðinu í desember á síðasta ári af Borce Illievski. Þetta er því hans fyrsta heila tímabil með liðið. Jónas er uppalinn Bliki og lék í fjölmörg ár fyrir félagið allt þangað til hann þurfti að leggja skóna á hilluna sökum meiðsla. Síðustu ár hefur Jónas þjálfað yngri flokka hjá félaginu og hefur hann þjálfað marga af yngri leikmönnum liðsins um árabil.
Jónasi til aðstoðar eru þeir Baldur Már Stefánsson og Heimir Snær Jónsson og þá er Þórólfur Heiðar Þorsteinsson sérlegur ráðgjafi.

Leikmennirnir

  Nafn Leikstaða Hæð (cm) Árg
Aron Brynjar Þórðarson Bakvörður 186 1997
Ásgeir Nikulásson Bakvörður 186 1993
Bjarni Steinn Eiríksson Bakvörður 182 1998
Breki Gylfason Framherji 204 1997
Brynjar Karl Ævarsson Bakvörður 188 1998
Davíð Guðmundsson Bakvörður 186 1994
Egill Vignisson Miðherji 198 1991
Garðar Pálmi Bjarnason Framherji 197 1993
Halldór Halldórsson Framherji 186  1989
Hlynur Logi Víkingsson Framherji 192  1996
Kjartan Ragnars Kjartansson Framherji 198 1989
Matthías Örn Karelsson Bakvörður 180 1998
Ragnar Jósef Ragnarsson Bakvörður 188 1997
Rúnar Ingi Erlingsson Bakvörður 187 1989
Snjólfur Björnsson Bakvörður 183 1994
Snorri Vignisson Framherji 191 1997
Sveinbjörn Jóhannesson Miðherji 202 1998
Þröstur Kristinsson Framherji 192 1995

Leikmannahópurinn er nokkuð svipaður og á síðasta ári en liðið er án erlends leikmanns og Hraunar Karl Guðmundsson gekk til liðs við Þór Þorlákshöfn, þá verður miðherjinn Egill Vignisson ekki með liðinu fram að áramótum en hann fór í skiptinám til Svíþjóðar. Fimm nýjir leikmenn hafa komið inn, Snjólfur Björnsson kom frá Snæfelli en hann er baráttuglaður bakvörður sem hefur farið vel af stað á undirbúningstímabilinu. Ragnar Jósef Ragnarsson kom frá KR en hann er mikill skorari og var meðal annars í úrtökuhópi U18 ára landsliðs Íslands í sumar. Stórskyttan Davíð Guðmundsson kom frá Skallagrím og þá hafa tvö kunnugleg andlit bæst í hópinn en Þröstur Kristinsson er kominn aftur heim eftir að hafa verið við nám í Bandaríkjunum í fyrra og Kjartan Ragnars kemur aftur inn eftir að hafa leikið með Heklu síðastliðinn vetur.
Það er ljóst að liðið er einstaklega ungt, aldurforsetar liðsins þeir Halldór, Kjartan og Rúnar eru einungis á 26. aldursári og eru “langelstir” í hópnum. Þrátt fyrir ungan aldur er liðið hæfileikaríkt og til að mynda voru 3 leikmenn liðsins í U18 ára landsliði íslands á Evrópumótinu í sumar og 2 til viðbótar voru í úrtakshópnum.
Þá er langstærstur hluti liðsins uppaldir Blikar og mikil eftirvænting eftir að hefja tímabiliði en strákarnir ætla sér stóra hluti og hver veit nema að þeim takist að vera fyrsta liðið í næstum áratug sem fer upp í úrvalsdeild án erlends leikmanns.

Leikmenn komnir

Davíð Guðmundsson frá Skallagrím
Kjartan Ragnars frá Heklu
Ragnar Jósef Ragnarsson frá KR
Snjólfur Björnsson frá Snæfelli
Þröstur Kristinsson kominn heim frá Bandaríkjunum

Leikmenn farnir
Hraunar Karl Guðmundsson í Þór Þorlákshöfn
Jerry Lewis Hollis

Undirbúningsmót í Herlev í Danmörku

Í sumar tók liðið þátt í æfingamóti í Herlev í Danmörku. Ásamt Blikum voru lið Stevnsgade Supermen, og Wolfpack. Fyrri daginn lágu drengirnir fyrir liði Stevnsgade Supermen í hörkuleik og einnig gegn Hørsholm 79'ers. Seinni daginn var spilað aftur gegn Stevnsgade þar sem lið Værlose hafði dregið sig úr mótinu, nú unnu drengirnir góðan sigur og kláruðu svo síðasta leikinn gegn liði Wolfpack frekar sannfærandi.
Kvennalið Blika var einnig með í för og var ferðin einkar vel heppnuð og ekki ólíklegt að þetta verði árlegur viðburður.

Nokkrar myndir frá undirskriftum í sumar

Jónas þjálfari skrifaði undir nýjan samning í sumar, hér er hann ásamt Eggert formanni og hluta leikmannahópsins

Davíð Guðmundsson gekk til liðs við liðið frá Skallagrím

Ragnar Jósef Ragnarsson kom frá KR

Snjólfur Björnsson kom frá Snæfelli

Rúnar Ingi skrifaði undir áframhaldandi samning við Breiðablik

Körfubolti

Körfuboltaæfingar falla niður í Smáranum sunnudaginn 18. október

Vegna dansmóts í Smáranum verða engar körfuboltaæfingar í húsinu sunnudaginn 18. október

Körfubolti

Æfingar hefjast hjá leikskólahóp í körfunni

Kópurinn Bliki í heimsókn hjá krökkunum á leikskólanum Læk

Í vetur mun Körfuknattleiksdeild Breiðabliks bjóða upp á æfingar einu sinni í viku fyrir leikskólabörn sem eru fædd árið 2010 og fyrr. Við teljum mikilvægt að fyrstu kynni barna af íþróttum séu jákvæð. Íþróttaiðkun veitir börnum líkamlega og andlega vellíðan, byggir upp sjálfstraust og andlegan þroska auk þess að vekja og viðhalda áhuga sem oft endist þeim ævilangt. Þá sýna börn sem stunda íþróttir oft góðan árangur í námi sem og öðru sem þau taka sér fyrir hendur.

Þjálfarar leikskólahópsins verða þær Berglind Karen Ingvarsdóttir og Arndís Þóra Þórisdóttir. Berglind er 30 ára, hefur æft körfubolta frá 12 ára aldri og æfir nú með meistaraflokki Breiðabliks. Hún á eina dóttur á leikskólaaldri og hefur sérstaklegan áhuga á hreyfingu og heilbrigði barna. Berglind hefur sótt skyndihjálparnámskeið Rauða Krossins. Arndís Þóra er 17 ára og vann síðastliðið sumar á leikskólanum Læk í Dalsmára og hefur því góða reynslu af því að vinna með leikskólakrökkum. Arndís Þóra hefur æft boltaíþróttir frá 5 ára aldri og æfir nú með meistaraflokki Breiðabliks. Berglind og Arndís munu leggja ríka árherslu á að skapa hvetjandi umhverfi sem á fyrst og fremst að vera skemmtilegt fyrir börnin og þar sem leikgleðin verður höfð að leiðarljósi.

 Arndís  Berglind

Æfingar leikskólahóps verða einu sinni í viku og fara fram á sunnudögum kl. 13:00, í Smáranum.

Fyrsta æfing verður sunnudaginn 11. október kl. 13:00 og er öllum velkomið að mæta, taka þátt, spjalla við þjálfara og kynna sér starfið sem er framundan. Kópurinn Bliki tekur þátt í æfingu með börnunum þann dag og mun að auki mæta á æfingar af og til hjá þeim í vetur en hann hefur undanfarnar vikur kíkt í heimsókn á nokkra leikskóla bæjarins.
 Kópurinn Bliki ásamt krökkum í leikskólanum Dal

Bliki kíkti líka í Arnarsmára

Krakkarnir á Læk voru ánægðir með að fá Blika í heimsókn

Körfubolti

Styttist í Íslandsmótið hjá meistaraflokki kvenna

Nú þegar nær dregur Íslandsmótinu er ekki úr vegi að skoða hvað sé að frétta af meistaraflokki kvenna frá síðasta tímabili.

Liðið lék í Dominos deildinni í fyrra en féll naumlega eftir hetjulega baráttu fram í síðasta leik. Liðið verður því í 1. deildinni í ár og ætlar sér ekkert annað en beint upp aftur. Deildin verður virkilega athyglisverð en það stefnir í að hún verði sterkari og jafnari en nokkru sinni fyrr. Ásamt Breiðablik eru í deildinni Fjölnir, KR, Njarðvík, Skallagrímur og Þór Akureyri en leikin er fjórföld umferð og því 20 deildarleikir en svo leika efstu tvö liðin til úrslita um sæti í úrvalsdeild. Fyrsti leikur er sunnudaginn 11. október á útivelli gegn Njarðvík og svo er fyrsti heimaleikur föstudaginn 16. október klukkan 19:15 gegn Skallagrím í Smáranum.

En lítum á það helsta sem er að frétta frá síðasta tímabili.

Nýr þjálfari

Árni Eggert handsalar samninginn við Eggert formannAndri Þór Kristinsson sem þjálfað hafði liðið allt frá því meistaraflokkur kvenna var endurvakinn árið 2011 lét af störfum og flutti sig yfir til Hauka en við starfinu tók Árni Eggert Harðarson sem var Andra innan handar sem aðstoðarþjálfari í fyrra.

Árni Eggert er uppalinn Breiðhyltingur sem hefur lengi verið áberandi í körfuboltahreyfingunni, en hann var leikmaður ÍR í úrvalsdeild og hefur síðan þjálfað hjá þeim ýmsa flokka og var síðast með drengjaflokk og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Auk þess að vera hjá ÍR hefur hann einnig þjálfað meistaraflokk karla hjá Vængjum Júpiters, Fram og var aðstoðarjþjálfari hjá Drang í Vík í Mýrdal. Auk þess að þjálfa kvennaliðið í ár er hann starfsmaður körfuknattleikssambandsins.
 

Undirbúningsmót í Herlev í Danmörku

Á undirbúningstímabilinu hélt liðið í víking og tók þátt í móti í Herlev í Danmörku ásamt meistaraflokki karla. Ferðin var mikið ævintýri og mættu stelpurnar liðum Herlev, Hvidovre og DTU. Skemmst er að segja frá því að stelpurnar unnu sinn riðil afar sannfærandi og úrslitaleikinn sömuleiðis.  Þær kepptu í 2. styrkleikaflokki og ljóst að ef þetta verður árlegt þá munu þær fara í efsta styrkleikaflokk að ári. 

Liðsskipan


Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra og ber þar helst að nefna að liðið mun vera án erlends leikmanns í vetur og þá hefur Jóhanna Björk Sveinsdóttir fylgt unnusta sínu honum Andra Þór til Hauka en hún komst í A-landsliðið í sumar. Einnig ákvað Elín Sóley Hrafnkelsdóttir að skipta yfir í Hamar í Hveragerði og Kristrún Pálsdóttir fór til Stjörnunnar.

Nokkrir leikmenn gengu til liðs við liðið í sumar, Telma Lind Ásgeirsdóttir er leikstjórnandi sem lék síðast fyrir Keflavík og hefur leikið með öllum unglingalandsliðum Íslands. Inga Sif Sigfúsdóttir er framherji sem kemur frá Haukum og þá komu tvær stelpur frá Fjölni, framerjinn Aníka Linda Hjálmarsdóttir og bakvörðurinn Katla Marín Stefánsdóttir.

Liðið er að mestu byggt á mjög ungum leikmönnum sem fengu mikla reynslu í úrvalsdeildinni í fyrra, en Berglind Karen (Beggó) mun leiða þennan unga hóp. Beggó átti frábært tímabil í fyrra og óx ásmegin eftir því sem leið á tímabilið. Aníta Rún er líkleg til að leiða liðið í stigaskorun en hún hefur tekið á sig stærra hlutverk í sóknarleiknum á undirbúningstímabilinu og skilað því vel. Annars er hópurinn gríðarlega jafn og eru þær margar sem iða í skinninu eftir að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. 

Leikmenn komnir
Aníka Linda Hjálmarsdóttir frá Fjölni
Inga Sif Sigfúsdóttir frá Haukum
Katla Marín Stefánsdóttir frá Fjölni
Telma Lind Ásgeirsdóttir frá Keflavík

Leikmenn farnir
Arielle Wideman, 
Birna Eiríksdóttir, hætt
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir í Hamar
Guðlaug Rún Sigurjónsdóttir í Tindastól
Jóhanna Björk Sveinsdóttir í Hauka
Kristbjörg Pálsdóttir í Stjörnuna


 

Nokkrar myndir frá undirritunum samninga í sumar

Aníka Linda Hjálmarsdóttir 

Aníta Rún Árnadóttir

Arndís Þóra Þórisdóttir

Berglind Karen Ingvarsdóttir (Beggó)

Eyrún Ósk Alfreðsdóttir

Hafrún Erna Haraldsdóttir

Hlín Sveinsdóttir

Inga Sif Sigfúsdóttir

Isabella Ósk Sigurðardóttir

Katla Marín Stefánsdóttir

Telma Lind Ásgeirsdóttir

Körfubolti

Facebook grúppur flokka í körfunni

Nú er orðið mikið um að flokkar notist við facebook síður til að miðla upplýsingum til foreldra og er það einnig góður vettvangur til að ræða málefni hvers flokks.  Hér eru því tenglar inn á síður flokkanna sem aðstandendur geta gerst meðlimir að.

Minnibolti 6-7 ára drengir (2008-2009) Minnibolti 6-7 ára stúlkur (2008-2009)
Minnibolti 8 ára drengja (2007) Minnibolti 8-10 ára stúlkna (2005-2007)
Minnibolti 9-10 ára drengja (2005-2006) Minnibolti 11 ára stúlkna (2004)
Minnibolti 11 ára drengja (2004) 7. flokkur stúlkna (2003)
7. flokkur drengja (2003) 8.- 9. flokkur stúlkna (2001-2002)
8. flokkur drengja (2002)  
9. flokkur drengja (2001)  
10. flokkur drengja (2000)  
Drengjafl og unglingafl kk (1995-1999)  
Körfubolti

Breiðablik vinnur Skallagrím í hörkuleik

Mynd: karfan.is

Lið Breiðabliks fékk Skallagrím í heimsókn í Lengjubikarnum í kvöld en þessi lið eru bæði í 1. deildinni í ár og er fyrirfram búist við að þau verði í toppbaráttunni þar, því ætti þessi leikur að gefa eitthvað til kynna um hvar liðin standa í byrjun tímabils.

Leikurinn var þó ekki áferðarfallegur til að byrja með, mikið af töpuðum boltum hjá báðum liðum og fátt um fína drætti. Til dæmis skoruðu liðsmenn Blika einungis 4 körfur utan af velli í 1. leikhluta, restin var úr vítum en staðan var 18-20 Skallagrím í vil að honum loknum.

Liðsmenn Skallagríms höfðu undirtökin í öðrum leikhluta og Atli Aðalsteinsson kom þeim 10 stigum yfir, 27-37, með þriggja stiga körfu þegar 2 og hálf mínúta voru til hálfleiks. En þá tóku Blikar við sér og Þórir Sigvaldason minnkaði muninn í 2 stig fyrir hálfleik, 35-37.

Breiðablik hóf svo seinni hálfleikinn af krafti og eftir að Halldór Halldórsson hafði skorað fyrstu körfuna setti fyrrum Skallagrímsmaðurinn Davíð Guðmundsson tvær þriggja stiga körfur í röð og Blikar komnir með 6 stiga forskot, 43-37. Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms tók þá leikhlé og hrissti upp í leik sinna manna. Sigryggur Arnar Björnsson setti þriggja stiga körfu í kjölfarið sem virtist kveikja í liðinu. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 54-52 Breiðablik í vil.

Í fjórða leikhluta hélt Sigtryggur áfram að gera Blikum lífið leitt en hann skoraði 2 fyrstu körfurnar og eftir að Davíð Ásgeirsson bætti þriðju körfunni við greip Jónas Ólason þjálfari Blika til þess að taka leikhlé. Kjartan Ragnars skoraði þá 4 stig á stuttum tíma og Snjólfur Björnsson og Davíð settu sitt vítið hvor til að jafna leikinn í 60-60 þegar 2 og half mínúta voru til leiksloka. Sigtryggur stal þá boltanum og náði forystunni á nýjan leik fyrir Skallagrím en Rúnar Ingi skoraði úr vítaskoti og Halldór Halldórsson skoraði svo með snyrtilegu sniðskoti og kom Blikum yfir 63-62. Snjólfur bætti við 2 í viðbót af vítalínunni þegar 36 sekúndur voru eftir og í næstu sókn brást Sigtryggi bogalistin þegar hann reyndi þriggja stiga skot til að jafna leikinn. Halldór tók frákastið, kom boltanum á Snjólf en Davíð Ásgrímsson braut á honum og því átti Snjólfur 2 vítaskot til að koma Blikum í fjögurra eða fimm stiga forskot þegar 13 sekúndur liðu leiks. Hvorugt skotið vildi hins vegar niður og Sigtryggur fékk annað tækifæri til að jafna leikinn en þriggja stiga skot hans geigaði og Breiðablik átti innkast þegar 7 sekúndur voru eftir. Blikar taka leikhlé en dæmd var sóknarvilla á Davíð um leið og boltinn var tekinn inn og Skallar fengu því enn einn séns í viðbót til að jafna leikinn. Þeir komu boltanum á Sigtrygg sem náði upp erfiðu skoti sem geigaði og Blikar fögnuðu því sigri.

Leiksins verður ekki sérstaklega minnst fyrir fegurð en rétt er að taka fram að það vantaði 4 leikmenn í lið Breiðabliks, Snorri Vignisson er handarbrotinn og verður frá í að minnsta kosti 6 vikur, Breki Gylfason á við eymsl að stríða í hné og þá voru Brynjar Karl Ævarsson og Ragnar Jósef Ragnarsson voru veikir.

Hjá Breiðablik var Halldór Halldórsson með flottan leik, skoraði 12 stig og tók heil 16 fráköst, Kjartan stigahæstur með 18 stig, Davíð skoraði 10 og þá átti Þórir flotta innkomu í leiknum.
Hjá Skallagrím var títtnefndur Sigtryggur Arnar með 21 stig, Davíð Ásgeirsson með 12 og Atli Aðalsteinsson með 10.
Tölfræði leiksins
 

Körfubolti

Breytingar á æfingatöflu körfunnar

Nokkrar breytingar hafa orðið á æfingatöflu körfunnar.

Nýja taflan er komin á síðuna: http://www.breidablik.is/korfubolti/aefingatafla3/

Körfubolti

Opið hús hjá körfunni í dag

Í dag frá kl 17-18 verður opið hús hjá körfuknattleiksdeildinni í Smáranum, þar sem öllum er boðið að koma og spreyta sig í hinum ýmsu körfuboltaleikjum.

Þjálfarar verða á svæðinu og gefa upplýsingar um æfingar og fleira og einnig verða góðir gestir úr Íslenskra landsliðinu sem eru nýkomnir heim frá Evrópumótinu í Þýskalandi

Körfubolti

Snjólfur Björnsson til liðs við Breiðablik

Snjólfur Björnsson skrifaði í dag undir samning um að spila með Breiðablik í vetur. Snjólfur er 21 árs, 183 cm baráttuglaður bakvörður sem kemur frá Snæfelli þar sem hann spilaði um 15 mínútur í leik á síðasta tímabili.
Snjólfur er þekktur fyrir mikla baráttu og sterkan varnarleik auk þess að vera mikill leiðtogi á velli. Við bjóðum Snjólf hjartanlega velkominn í Kópavoginn.
 

Körfubolti

Ragnar Jósef Ragnarsson til liðs við Breiðablik

Ragnar Jósef Ragnarsson hefur gengið til liðs við meistaraflokk karla frá KR.  Ragnar er fæddur árið 1997 og spilar stöðu bakvarðar.  Hann var í úrtökuhóp U18 landsliðs Íslands fyrir EM núna í sumar ásamt 4 Breiðabliksdrengjum og fellur vel inn í þennan unga hóp sem liðið hefur á að skipa í vetur.

Ragnar spilaði með liðinu á Icelandic Glacial mótinu í Þorlákshöfn um helgina og stóð sig vel og sem dæmi þá skoraði hann 15 stig gegn Hetti.  

Mynd: Ragnar Jósef og Baldur Már framkvæmdastjóri handsala leikmannasamninginn

Körfubolti

Æfingatafla körfunnar er komin

Nú á mánudaginn 31. ágúst hefst vetrarstarfið í körfunni að nýju og tekur þá eftirfarandi tafla gildi

MB 6-7 ára kk (2008-2009)
Þri 17:00-17:50 Smárinn
Fös 15:30-16:15 Smárinn

MB 6-7 ára kvk (2008-2009)
Mið 16:30-17:30 Smárinn
Fös 15:30-16:15 Smárinn

MB 8-9 ára kk (2006-2007)
Þri 16:00-17:00 Lindaskóli
Fim 15:30-16:30 Smárinn
Lau 14:00-15:00 Smárinn

MB 8-9 ára kvk (2006-2007)
Þri 17:00-18:00 Lindaskóli
Fim 16:30-17:30 Smárinn
Sun 12:00-13:00 Smárinn

MB 10 ára kk (2005)
Mán 15:30-16:30 Smárinn
Fim 16:00-17:00 Kársnes
Lau 13:00-14:00 Lindaskóli

MB 10 ára kvk (2005)
Þri 15:30-16:30 Smárinn
Fös 16:30-17:30 Smárinn
Lau 14:30-15:30 Lindaskóli

MB 11 ára kk (2004)
Mán 16:30-17:30 Smárinn
Mið 16:00-17:00 Smárinn
Lau 12:00-13:00 Smárinn

MB 11 ára kvk (2004)
Mán 16:00-17:00 Lindaskóli
Fös 16:30-17:30 Smárinn
Sun 14:00-15:00 Smárinn

7.fl kk (2003)
Mán 15:30-16:30 Smárinn
Þri 15:30-16:30 Smárinn
Fim 15:30-16:30 Smárinn
Lau 10:00-11:00 Lindaskóli

7.fl kvk (2003)
Mán 17:00-18:00 Lindaskóli
Þri 17:00-18:00 Smárinn
Fim 15:30-16:30 Smárinn
Sun 13:00-14:00 Smárinn

8. fl kk (2002)
Þri 18:00-19:00 Lindaskóli
Mið 18:30-19:30 Smárinn
Fös 17:30-18:30 Smárinn
Lau 12:00-13:00 Lindaskóli

8-9fl kvk (2001-2002)
Mán 17:30-18:30 Smárinn
Þri 19:00-20:00 Lindaskóli
Fim 17:30-18:30 Smárinn
Lau 13:00-14:30 Smárinn

9.fl kk (2001)
Mán 16:30-18:00 Smárinn
Þri 18:00-19:30 Kársnes
Fim 17:00-18:30 Kársnes
Sun 12:00-13:00 Smárinn

10. fl kk (2000)
Mán 16:00-17:00 Kársnes
Mið 17:00-18:00 Lindaskóli
Fös 16:00-17:00 Smárinn
Sun 12:00-13:30 Smárinn

Körfubolti

Davíð Guðmundsson til liðs við Breiðablik

Davíð Guðmundsson hefur gengið til liðs við Breiðablik frá Skallagrími, en hann er tvítugur framherji sem kann vel við sig fyrir utan þriggja stiga línuna.

Við bjóðum Davíð kærlega velkominn og teljum við hann vera góða viðbót við hið unga og efnilega lið sem Blikar tefla fram í vetur. 

Körfubolti

U18 komnir í milliriðil á EM, Blikarnir standa sig vel

U18 ára landslið drengja vann öruggan sigur á Írum, 84-55, og komust því uppúr D-riðli ásamt Ísraelsmönnum. Framundan eru tveir leikir í milliriðli, á miðvikudag gegn Georgíu og fimmtudag gegn Svíþjóð.
Okkar menn stóðu sig vel í leiknum.

Snorri Vignisson skoraði 11 stig, 9 fráköst, 2 stoðsendingar, 1 stolinn bolit og eitt varið skot ásamt því að leiða Íslenska liðið í framlagi með 23 framlagsstig.
Sveinbjörn Jóhannesson skoraði 2 stig, tók 5 fráköst og stal 2 boltum.
Breki Gylfason skoraði 5 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Körfubolti

Kjartan Ragnars og Þröstur Kristinsson til liðs við Breiðablik

Þröstur og Kjartan handsala samningana við Baldur Má framkvæmdastjóra

Það voru kunnugleg andlit sem skrifuðu undir samninga í Smáranum í dag en þeir Kjartan Ragnars og Þröstur Kristinsson hafa ákveðið að ganga að nýju til liðs við Breiðablik.

Kjartan er hávaxinn framherji og skotmaður góður sem lék í annarri deildinni með Heklu á síðasta tímabili en hann lék áður með Breiðablik.

Þröstur er framherji fæddur árið 1995, er uppalinn Bliki og snýr aftur eftir árs dvöl í Bandaríkjunum þar sem hann spilaði fyrir Lower Columbia háskólann í Washington fylki. Hér fyrir neðan fylgja svo smá tilþrif úr hans síðasta leik fyrir Breiðablik.
 

Myndbönd

Þröstur í sínum síðasta leik fyrir Breiðablik áður en hann hélt til Bandaríkjanna

Körfubolti

Hafsteinn og Þorsteinn Breki með U15 í Danmörku

Um helgina léku U-15 landslið Íslands á Copenhagen Invitational mótinu. Breiðablik átti 2 fulltrúa í U15 –liði drengja, þá Hafstein Guðnason og Þorstein Breka Eiríksson.
Liðið gerði sér lítið fyrir og komst alla leið í úrslitaleikinn á mótinu en varð þar að sætta sig við tap gegn úrvalsliði frá Berlín.

Leiðin í úrslitin var alls ekki auðveld því í riðlakeppninni unnu strákarnir Dani 67-65, Rúmena 89-72 og sterkt lið Eista 82-70.
Í undanúrslitum unnu drengirnir 49-45 sigur á úrvalsliði frá Belgíu sem heitir TopSportsSchool og fleytti það þeim í úrslitaleikinn sem því miður tapaðist eins og áður segir.
Við látum hér fylgja myndir af okkar mönnum enda stolt af okkar krökkum sem spila með landsliðum Íslands.

Körfubolti

Árni Eggert Harðarson tekur við meistaraflokki kvenna

Árni og Eggert formaður handsala samninginn

Í gær var undirritaður samningur milli körfuknattleiksdeildar Breiðabliks og Árna Eggerts Harðarsonar um að hann taki við þjálfun meistaraflokks kvenna, unglingaflokks og stúlknaflokks.

Árni er deildinni að góðu kunnur en hann kom sterkur inn sem aðstoðarþjálfari hjá Andra Kristinssyni á síðastliðnu tímabili.  Hann hefur mikla reynslu og er metnaðarfullur þjálfari  sem deildin bindur miklar vonir við.  Liðið er ungt og metnaðarfullt og á klárlega framtíðina fyrir sér.  

Körfuknattleiksdeildin býður Árna velkominn til starfa! 

Körfubolti

Uppskeruhátíð yngri flokka í körfunni

Yngri flokkarnir í körfunni héldu árlega uppskeruhátíð nú á dögunum.  Farið var í sívinsælan stinger og fleiri leiki og góðir gestir mættu á svæðið.  Þau Ragnar Nathanaelsson úr karlalandsliðinu og þær Sara Rún Hinriksdóttir og Sandra Lind Þrastardóttir úr kvennalandsliðinu heilsuðu upp á krakkana, svöruðu spurningum og sögðu frá verkefnum sínum í sumar sem eru meðal annars Smáþjóðaleikarnir sem fram fara hér á landi 1.-6. júní.

Þá fengu iðkendur verðlaunaskjal með persónulegum skilaboðum frá sínum þjálfara, en ekki voru veitt einstaklingsverðlaun eins og áður hefur verið gert enda hefur verið mikil umræða um einstaklingsverðlaun í yngri flokkum innan íþróttahreyfingarinnar.  

Sumaræfingar hefjast svo í næstu viku.
 

Körfubolti

Fyrirlestur fyrir foreldra íþróttaiðkenda

Miðvikudaginn 6. maí verður Brynjar Karl Sigurðsson með fyrirlestur fyrir alla foreldra iðkenda í körfunni. Brynjar Karl hefur getið sér gott orð sem körfuknattleiksþjálfari og er einnig maðurinn á bakvið  Key Habits markmiðastjórnun sem og Sideline Organizer þjálfunarforritið.

Á efnisskránni er meðal annars

- Þjálfun á skapgerð og viðhorfi í íþróttum
- Markmiðastjórnun í íþróttum
- Tilfinningagreind í íþróttum

Fyrirlesturinn hefst kl 19:30 í veislusal Smárans.

Körfubolti

Lokahóf meistaraflokka körfunnar

Andri Þór lætur af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna eftir fjögurra ára starf. Hann fékk í kveðjugjöf treyju áritaða af öllum leikmönnum liðsins

Lokahóf meistaraflokka Breiðabliks var haldið síðasta vetrardag.

Lokahóf meistaraflokkanna var haldið síðasta vetrardag.
Dagskrá var nokkuð hefðbundin en í matinn var lambalæri með öllu tilheyrandi og súkkulaðikaka og kaffi í eftirrétt.
Þjálfarar liðanna fóru með stutta tölu um tímabilið og afhentu verðlaun.
Andri Þór Kristinsson fráfarandi þjálfari meistaraflokks kvaddur með gjöfum en hann hættir með liðið eftir fjögurra ára starf.
Að lokum voru svo sýnd glæsileg myndbönd gerð af leikmönnum liðanna sem gerðu upp tímabilið á léttu nótunum.
 

Verðlaunahafar:

Meistaraflokkur karla
Mikilvægasti leikmaður: Rúnar Ingi Erlingsson
Bliki ársins: Halldór Halldórsson
Varnarmaður ársins: Garðar Bjarnason
Mestu framfarir: Snorri Vignisson
Efnilegasti leikmaður: Brynjar Karl Ævarsson

Meistaraflokkur kvenna
Mikilvægasti leikmaður: Jóhanna Björk Sveinsdóttir
Bliki ársins: Elín Kara Karlsdóttir
Varnarmaður ársins: Isabella Ósk Sigurðardóttir
Mestu framfarir: Berglind Karen Ingvarsdóttir
Efnilegasti leikmaður: Elín Sóley Hrafnkelsdóttir

Unglingaflokkur kvenna
Mikilvægasti leikmaður: Aníta Rún Árnadóttir
Bliki ársins: Hlín Sveinsdóttir
Varnarmaður ársins: Guðrún Edda Bjarnadóttir
Mestu framfarir: Thelma Rut Sigurðardóttir
Efnilegasti leikmaður: Kristín Rós Sigurðardóttir
 

Verðlaunahafar unglingaflokks kvenna, frá vinstri Andri Þór þjálfari, Kristín Rós efnilegasti leikmaður, Thelma Rut mestu framfarir, Aníta Rún mikilvægasti leikmaður, Guðrún Edda varnarmaður ársins og Hlín Bliki ársins.

Verðlaunahafar meistaraflokks karla ásamt Jónasi þjálfara, á myndina vantar Halldór sem valinn var Bliki ársins.  Frá vinstri Brynjar Karl efnilegasti leikmaður, Snorri mestar framfarir, Jónas þjálfari, Garðar varnarmaður ársins og Rúnar Ingi mikilvægasti leikmaður.

Meistaraflokkur kvenna, frá vinstri Andri Þór þjálfari, Elín Sóley efnilegasti leikmaður, Isabella Ósk varnarmaður ársins, Elín Kara Bliki ársins, Berglind Karen mestar framfarir og Jóhanna Björk mikilvægasti leikmaður

Meistaraflokkur kvenna þakkaði Árna Eggerti Harðarsyni fyrir frábær störf

Meistaraflokkur kvenna leysti Andra út með gjöfum

Eggert formaður afhenti Andra treyju áritaða af öllum leikmönnum sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf

Körfubolti

Jónas Ólason heldur áfram með meistaraflokk karla

Jónas þjálfari og Eggert formaður ásamt hluta þeirra leikmanna sem nú þegar hafa skrifað undir samning

Stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks hefur komist að samkomulagi við Jónas Ólason um áframhaldandi þjálfun meistaraflokks karla. Jónas tók við liðinu í desember og fær nú að taka sitt fyrsta heila tímabil með liðið.

Baldur Már Stefánsson mun verða honum til aðstoðar og sjá um þjálfun drengja og unglingaflokks og þá mun Heimir Snær Jónsson einnig vera þeim innan handar.

Gengið hefur verið frá samningum við flesta leikmenn liðsins frá síðasta og er stefnt á að klára það á næstu dögum. Þegar eru hafnar sumaræfingar þar sem strákarnir njóta handleiðslu Sveins Ómars Sveinssonar styrktarþjálfara auk Jónasar og Baldurs en félagið hefur innanborðs mikinn og góðan efnivið ungra leikmanna sem ætla sér stóra hluti á komandi árum.
 

Körfubolti

Lokahóf KKD Breiðabliks verður síðasta vetrardag

Lokahóf meistaraflokka körfuknattleiksdeildar Breiðabliks verður haldið í veitingasal Smárans síðasta vetrardag, miðvikudaginn 22. apríl.

Að venju verða stórkostleg skemmtiatriði en frekari upplýsingar koma þegar nær dregur

Körfubolti

Jóhanna Björk valin dugnaðarforkur Domino’s deildar kvenna

Í hádeginu var úrvalslið Domino's deildar kvenna á seinni hluta tímabilsins tilkynnt og verðlaun afhent.  Hún Jóhanna Björk Sveinsdóttir úr Breiðablik var valinn dugnaðarforkur deildarinnar og óskar körfuknattleiksdeildin henni til hamingju með verðlaunin.

Úrvalsliðið er skipað eftirtöldum leikmönnum:
Hildur Sigurðardóttir · Snæfell
Gunnhildur Gunnarsdóttir · Snæfell
Kristen McCarthy · Snæfell
Sara Rún Hinriksdóttir · Keflavík
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · Valur

Besti þjálfarinn í seinni hlutanum: Ingi Þór Steinþórsson · Snæfell
Dugnarðarforkurinn: Jóhanna Björk Sveinsdóttir · Breiðablik
Besti leikmaðurinn/MVP: Kristen McCarthy · Snæfell

Besti dómarinn í Domino's deildum karla og kvenna í seinni hlutanum:
Sigmundur Már Herbertsson 

Fréttin á heimasíðu KKÍ

Körfubolti

Allt undir í síðasta leik tímabilsins

Í kvöld kl 19:15 mætir meistaraflokkur kvenna nýkrýndum deildarmeisturum Snæfells í lokaleik tímabilsins og það er óhætt að segja að það sé allt undir.  Með sigri geta nýliðar Breiðabliks haldið sér í deildinni en eftir erfiða byrjun í haust hefur liðið rétt úr kútnum eftir áramót og sigur gegn KR í síðasta leik hélt voninni á lífi um áframhaldandi veru í úrvalsdeild.

Breiðablik hefur á að skipa ungu og gríðarlega efnilegu liði sem er komið í úrvalsdeild aðeins 3 árum eftir að meistaraflokkur kvenna var endurvakinn hjá félaginu.  Það er von körfuknattleiksdeildarinnar að Blikar fjölmenni í Smárann í kvöld og styðji sitt lið.

Áfram Breiðablik!!

https://www.facebook.com/events/914798185208540/

Körfubolti

Breiðablik á 6 fulltrúa á Norðurlandamótinu í körfubolta í sumar

Körfuknattleikssambandið tilkynnti í dag á heimasíðu sinni leikmannahópa yngi landsliðanna fyrir Norðurlandamótið 2015 sem fram fer í Solna í Svíþjóð dagana 13.-17. maí.  Breiðablik á hvorki fleiri né færri en 6 fulltrúa í þessum liðum sem ber glöggt merki um hversu öflugt yngri flokka starf félagsins er.  Körfuknattleiksdeildin óskar þeim innilega til hamingju með valið en liðin koma saman til æfingu í byrjun maí í lokaundirbúningi sínum fyrir NM

U15 Drengir
Hafsteinn Guðnason
Þorsteinn Breki Eiríksson

U18 Drengir
Breki Gylfason
Snorri Vignisson
Sveinbjörn Jóhannesson

U18 Stúlkur
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir
 

Körfubolti

Aníta Rún og Elín Sóley í U20 ára landsliði Íslands

Aníta Rún Árnadóttir var valin í U20 ára landsliðsúrtak kvenna

Í dag voru tilkynntir æfingahópar U20 ára landsliða Íslands bæði í karla og kvennaflokki.  Þær stöllur úr Breiðabliki, Aníta Rún Árnadóttir og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, hafa verið valdar í 24 manna æfingahóp U20 ára landsliðs kvenna og óskar körfuknattleiksdeildin þeim til hamingju með valið.  Þjálfari liðsins er Bjarni Magnússon og honum til aðstoðar er Andri Þór Kristinsson þjálfari kvennaliðs Breiðabliks.

Fréttin á http://www.kki.is

Elín Sóley

Aníta Rún

Myndir: http://www.karfan.is

Körfubolti

Aðalfundur körfuknattleiksdeildar

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks árið 2015 verður haldinn fimmtudaginn 12. mars nk kl.18:00 í Smáranum.

Dagskrá verður með hefðbundnu sniði
- skýrsla stjórnar
- ársreikningur lagður fram
- kosning nýrrar stjórnar
- önnur mál

Hvetjum alla til að mæta
Stjórnin 

Körfubolti

7 Blikar í unglingalandsliðum Íslands

Í dag var tilkynnt hverjir halda áfram æfingum með unglingalandsliðum Íslands en búið er að fækka leikmönnum niður í 16 til 18 leikmenn hjá U16 og U18 ára liðunum og 20 leikmenn hja U15 liðunum.

Leikmenn Breiðabliks sem komust gegnum niðurskurðinn eru:

U15 drengir
Þorsteinn Breki Eiríksson
Hafsteinn Guðnason

U18 kvenna
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir

U18 karla
Snorri Vignisson
Sveinbjörn Jóhannesson
Breki Gylfason
Brynjar Karl Ævarsson
 

Körfubolti

Stúlknaflokkur leikur í undanúrslitum Powerade bikarsins og myndband úr sigri meistaraflokks á KR

Í dag, föstudaginn 13. febrúar, leika stelpurnar í stúlknaflokki til undanúrslita gegn liði Keflavíkur í Smáranum kl 19:15.

Þarna eru á ferð efnilegar stúlkur sem eiga möguleika á að tryggja sér farseðil í bikarúrslitaleikinn í Laugardalshöll og viljum við hvetja alla Blika til að mæta á leikinn og styðja stelpurnar.

Stelpurnar stefna á að fylgja fordæmi meistaraflokks kvenna úr síðasta leik, en þær unnu glæsilegan sigur á liði KR í Dominosdeildinni.  Hér meðfylgjandi er myndband af lokamínútum leiksins frá snillingunum á Leikbrot.is

Skjöl


Myndbönd

http://leikbrot.is/islensk-efni/breidablik-kr/

Körfubolti

Breiðablik - KR á morgun: Peppmyndband

Kíkið á þetta til að koma ykkur í gírinn fyrir morgundaginn.

Myndirnar eru af æfingum, leikjum og viðburðum körfuknattleiksdeildarinnar undanfarin ár. Sannarlega flottar stelpurnar okkar.

Myndbönd

  • #
  • #
  • #
  • #
  • #
  • #
  • #