Körfubolti

Bikarævintýri Breiðabliks

Breiðablik reið á vaðið í bikarviku KKÍ, þegar strákarnir okkar mættu stórskota- og stjörnuliði KR í fjögurra liða úrslitum Maltbikars karla. Var þetta í fyrsta sinn í sögu félagsins sem Breiðablik lék í undanúrslitum bikarkeppni í Laugardalshöll og óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt í hópnum. Fyrir leikinn voru flestar spár á þann veg að margfaldir og ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar KR myndu einfaldlega valta yfir hið unga lið Breiðabliks. Raunin varð önnur og mættu Kópavogspiltar dýrvitlausir í leikinn, gáfu allt sem þeir áttu og veittu KR-ingum harða keppni og hörkuleik. Að lokum fór þó svo að vesturbæjarliðið vann sanngjarnan sigur, sem þó var ekki eins afgerandi og spáð hafi verið.

Við erum gríðarlega stolt af strákunum okkar, en þeir voru félaginu til mikils sóma og geta svo sannarlega borið höfuð hátt. Körfuknattleiksdeild Breiðabliks vill þakka öllu stuðningsfólki sem lagði leið sína í höllina og gerði þennan leik að ógleymanlegri stund. Við erum á því að stemningin hafi öll verið okkar megin á pöllunum allan leikinn. Allt það jákvæða sem út úr leiknum kom, verður tekið og byggt á því til framtíðar. Áfram Breiðablik
 

  • #
  • #
  • #
  • #
  • #
  • #
  • #