Uppruni Karate

Lítið er vitað um hvenær karate varð í raun til. Þó eru til heimildir um Buddamunkinn Duruma (Bodhidharma), upphafsmann Zen Búddisma, sem var uppi á 6. öld. Sagan segir að Duruma hafi ferðast frá Indlandi til Kína til að kenna Zen Búddisma. Að hans mati uppfylltu nemendur hans ekki þá líkamlegu og andlegu kröfur sem hann taldi þurfa til að stunda Búddisma. Til að byggja upp styrk og þol nemenda sinna setti hann saman kerfi sem saman stóð af öndunaræfingum og kínversku Kenpo, til að byggja upp líkama og hug.
Aðferðir hans voru kenndar í munkaklaustrinu í Shaolin musterinu í Kína og þar voru þær þróaðar yfir í bardagalist sem þekkt er sem Shaolin Box. Buddamunkar ferðuðust um víða og kenndu þessar listir. Voru þeir þekktir fyrir bæði andlegt og líkamlegt þol sem og mikla bardagatækni. Upp frá þessu fóru hin ýmsu afbrigði bardagalistarinnar að þróast í hinum ýmsu héruðum Kína.

Á sextándu öld er talið að einhver afbrigði Shaolin Box hafi borist til Okinawa, sem er eyja fyrir utan Japan. Þar hafi það blandast saman við þá tækni sem Okinawabúar notuðu í vopnlausum bardaga og haldið svo áfram að þróast yfir í hina ýmsu stíla. Vopnaburður almennings á Okinawa var bannaður í kjölfar hernáms Japana á eyjunni á 17. öld. og hefur það eflaust ýtt undir þróun þeirrar tækni sem var notuð í vopnlausum bardaga.