Siður og reglur

Þegar einhver byrjar í karate er hann fljótur að reka sig ýmsa furðulega hluti. Fólk er sífellt að hneigja sig, kennarinn kallar fullt af óskiljanlegum orðum og svo er fólk öskrandi í tíma og ótíma svo eitthvað sé nefnt. Byrjandinn kann því að spyrja sig. Af hverju í ósköpunum?
Hefðin og virðing fyrir uppruna íþróttarinnar er helsta ástæðan fyrir þessu. Í íþróttinni er lögð mikil áhersla á hefðir og virðingu. Þó allir geti lært það sem fram fer (jafnvel 5 til 6 ára krakkar) þá sakar ekki að vera viðbúinn helstu atriðum sem þú munt rekast á þegar þú byrjar að æfa karate:

Sá staður þar sem karate er æft kallast dojo. Allir hneigja sig (rei) þegar þeir fara inn og út úr"dojo. Allir hneigja sig einnig fyrir fyrir kennara fyrir og eftir æfingu, fyrir hvor öðrum fyrir og eftir "kumite" og í byrjun og enda "kata".

Allir setjast á hnén (seiza) fyrir og eftir æfingu, loka augunum og slappa af í smá tíma (mukuso). Á meðan þetta er gert á að vera algjört hljóð. Mukuso er mikilvægur hluti æfinganna. Þetta er einskonar hugleiðsla. Sumir hreinsa hugann og hugsa um ekki neitt á meðan á mukuso stendur. Aðrir hugsa um að nú ætli þeir að einbeita sér á æfingunni (mukuso fyrir æfingu) eða fara yfir í huganum hvað þeir gerðu rangt (mukuso eftir æfingu).

Age uke, Yoko geri, Kiba dachi og Uraken uchi - Allt eru þetta japönsk heiti yfir einhverja tækni (sjá orðalista). Í karate bera allar tæknir japönsk heiti og eru þau almennt notuð á æfingum. Þetta hefur þá kosti að þegar kennarinn / þjálfarinn segir "Zenkutsu dachi - gedan barai - kamae" skilja allir hvað hann á við og skiptir þá engu hvort hann kemur frá Japan, Svíþjóð, Englandi eða Íslandi. Öll þessi orð og miklu fleiri lærir nemandinn mjög fljótt og á því ekki í neinum vandræðum með að skilja það sem í fyrstu virkar gjörsamlega óskiljanlegt bull.

Kennari er ýmist kallaður sempai eða sensei. Almenna reglan er sú að kalla þá sem eru 3. dan (sjá upplýsingar um gráður í kaflanum 'Gott að vita') eða ofar "sensei" og þá sem eru lægra gráðaðir "sempai". Yfirleitt láta kennarar nemendur vita hvað sé ætlast til að þeir séu kallaðir. Sumir kjósa að nota bara sitt eigið nafn sem er í góðu lagi líka, enda er notkun þessara orða í Japan háð mjög ströngum reglum. T.d. telst það mikil ókurteisi af einhverjum að krefjast þess að vera kallaður "sensei". Aftur á móti hefur þessi siður fest sig í sessi á vesturlöndum og ekkert að því að fylgja honum.

Þegar nemendur raða sér fyrir framan kennara, fyrir og eftir æfingu, eiga þeir að raða sér eftir gráðun frá hægri til vinstri. Þannig á iðkandinn alltaf að hafa hærra gráðaðann nemanda sér á hægri hönd.

Í karatetíma á að vera hljóð. Sá sem er að æfa á að hafa hljótt og einbeita sér að sjálfum sér og æfingunni og því sem kennarinn er að segja. Allt annað er ókurteisi og virðingarleysi við aðra sem eru á æfingunni og eru þar til að læra karate. Helst á að geyma spurningar þar til eftir æfingu, eða þá að biðja kennarann um að aðstoða sig þegar hann á leið framhjá og þá þannig að það trufli ekki aðra. Flestir kennarar ganga á milli nemenda til að aðstoða þá og því óþarft að kalla á hann yfir allan salinn og með því trufla aðra. Munið að Funakoshi sagði, "andi karate er einskins virði án hæversku og kurteisi".

Allir eiga að bera virðingu fyrir þeim sem æfa með þeim og koma fram við þá eins og þeir vilja að komið sé fram við þá sjálfa.