Shotokan Karate

Þann 10. nóvember árið 1868 fæddist Gichin Funakoshi, stofnandi Shotokan Karate, í Shuri sem þá var höfuðborg Okinawa. Hann hóf að stunda karate 11 ára gamall og kynntist hinum ýmsu tegundum og afbrigðum bardagalista sem stundaðar voru á eyjunni.
Funakoshi lærði hjár tveimur mestu meisturum síns tíma, Yasutsune Azato og Yasutsune Itosu "Anko". Azato, sem auk þess að kunna karate var snillingur í bogfimi og skylmingum, sá um menntun Funakoshi. Azato var einnig eignað það að hafa komið á kné besta skylmingarmeistara þess tíma með berum höndum.

Funakoshi var svo leikinn að hann var vígður inn í alla stærstu Karate-stílana á Okinawa. Shotakan Karate mótaði hann á grunni bardagalistar sem þróaðist í kringum borgina Shuri og þorpið Tomari á Okinawa á 18. og 19 öld. Sú bardagalist var í nokkru ólík þeirri bardagalist sem almennt var stunduð á eyjunni. Hún hafði mótast af japanskri bardagalist, nánar tiltekið skylmingarlistinni Jigen Ryu Kenjutsu.

Árið 1917 var Funakoshi valinn til að fara til Kyoto á meginlandi Japan til að sýna opinberlega. Hann notaði orðið Karate yfir þá bardagalist sem hann sýnd. Fimm árum síðar, eða árið 1922, fór Funakoshi aftur til meginlandsins að sýna Karate. Í þetta sinn fór hann fyrir hópi Karateka (karateiðkendur) til Tokyo til að sýna bardagalist á mikilli íþróttasýningu. Þá var Funakoshi forseti Sambands Okinawa um anda bardagalista. Eftir sýninguna var Funakoshi hvattur af vinum sínum og öðrum til að vera áfram í Tokyo og kenna þessa bardagalist og snéri hann því ekki aftur til Okinawa.

Eftir að hafa búið í nokkur ár á stúdendagörðum hafði Funakoshi loks ráð á að stofna sinn eigin karateskóla. Skólann stofnaði hann í Tokyo árið 1936. Nemendur hans nefndu skólann Shotokan, sem merkir hús Shoto en það var pennanafn Funakoshi sem einnig var ljóðskáld. Þetta var til þess að bardagastíll Funakoshi fékk nafnið Shotokan Karate. Með stofnun karateskólans í Tokyo gerðist Funakoshi helsti frumkvöðull nútíma karate og hin forna bardagalist breiddist hratt út um Japan og síðar út til annarra landa og átti Funakoshi einnig ríkan þátt í þeirri útbreiðslu.