Karate

Þrjú brons á Smáþjóðaleikunum í karate

Um helgina 30.september og 1.október fór fram Smáþjóðamót í karate, mótið var haldið í Andorra og voru um 400 keppendur skráðir til leiks frá 8 þjóðum. Ísland sendi 12 keppendur og þar af voru 3 frá Breiðablik, þær Arna Katrín Kristinsdóttir, Laufey Lind Sigþórsdóttir McClure og Svana Katla Þorsteinsdóttir.

Á fyrri deginum kepptu þær allar í einstaklingskata. Arna Katrín mætti Larissa frá Liechtenstein í fyrstu umferð, vann örugglega 5-0 en tapaði í annarri umferð fyrir Michaela frá Malta, sú datt út í næstu umferð og því fékk Arna ekki uppreisn. Laufey Lind mætti Aileen frá Liechtenstein í fyrstu umferð og tapa fyrir henni, var með því úr leik. Svana Katla mætti Melanie frá Liechtenstein, vann hana örugglega 5-0, mætti svo Celine frá Luxembourg í annarri umferð. Sú viðureign fór 3-2 fyrir Celine, þar sem Celine fór í úrslit fékk Svana uppreisn. Í fyrri viðureign í uppreisn mætti hún Sharon frá San Marino, vann hana 5-0 og í viðureigninni um 3ja sætið vann Svana Jessica frá Monako 5-0, endaði því með bronsverðlaun. Seinna sama dag keppti Arna Katrín í kumite -61kg þar sem hún tapaði fyrir Lena frá Luxembourg í undanúrslitum og endaði með því í 3ja sætið. 

Seinni daginn kepptu stúlkurnar okkar í hópkata þar sem þær mættu Malta í fyrstu umferð. Sú viðureign gekk ekki alveg eins og ætlað var og unnu stúlkurnar frá Malta þá viðureign sem og flokkinn í heild sinni, okkar stúlkur fengu því uppreisn og tækifæri til að keppa um 3ja sætið. Þar mættu þær liði frá Liechtenstein sem þær unnu örugglega 5-0 og því bronsið þeirra.

Niðurstaða fyrir okkar stúlkur voru því 3 brons eftir ánægjulega helgi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þær með verðlaun sín, frá vinstri Laufey Lind, Svana Katla og Arna Katrín.
 

  • #
  • #
  • #
  • #
  • #
  • #
  • #