Gráðunarkröfur

Iðkendur í karate gangast reglulega undir svokallað gráðupróf. Þá er metið hvernig þeir standa hvað varðar tækni og fleira sem máli skiptir í íþróttinni. Gráður sem iðkendur ná eru auðkenndar með lit á beltum sem iðkendur bera á æfingum og eru kallaðar "kyu" þar til svörtu belti er náð. Eftir það heita gráðurnar "dan". Allir sem byrja að æfa karate byrja með hvítt belti. Við fyrstu gráðun fá byrjendur gult belti og gráðuna 9. kyu. Síðan lækka númer kyu þar til svörtu belti er náð en það kallast 1. dan. Næsta gráða þar á eftir er 2. dan o.s.frv. Þeir sem eru 14 ára og yngri taka þó hálfa gráðu í einu og fá þannig nýtt belti við aðra hverja gráðun.

Fyrir hverja gráðu eru gerðar ákveðnar kröfur sem samræmdar eru innan shotokan karate. Kröfurnar aukast eftir því sem á líður. Á gráðuprófi er prófdómari sem nota gráðunarkröfurnar sem aðstoðargagn í prófinu. Honum er fyllilega heimilt að bæta við og breyta útaf því sem þar stendur, þó verður að gera þá kröfu að nemendur kunni það sem þar stendur. Dómari sem dæmir í eigin félagi veit hvað nemendurnir kunna og getur því farið mikið út fyrir gráðunarkröfurnar. En ef um er að ræða dómara sem eru ókunnir nemendunum fara þeir ekki útfyrir kröfurnar að neinu marki.
Gráðunarkerfið er bæði einstaklingsbundið og staðlað, þ.e. byggt upp til að vera framfaraskrá hvers og eins án tillits til annarra og líka þannig að allir sýni jafna getu undir hverja gráðu. Þetta er gert vegna þess að fólk er misjafnlega byggt og hæfileikum búið.


Gráðureglur S.K.S.Í.

Um prófdómara:

Þeim einum er heimilt að gráða nemendur, sem hefur til þess heimild frá S.K.S.Í. og hefur viðurkennt svart belti (Sho-Dan) innan sambandsins. Prófdómarar skulu hafa náð 22 ára aldri og hafa iðkað karate í a.m.k. 6 ár

Sho-Dan prófdómara er heimilt að gráða nemendur í 3. Kyu
Tveimur Sho-Dan prófdómurum er heimilt í sameiningu að gráða nemendur í 2. Kyu .
Ni-Dan prófdómara, sem hefur hlotið viðurkenningu S.K.S.Í. er heimilt að gráða nemendur í 1. Kyu.
Þeim einum er heimilt að veita karatenemendum Svart belti 1.Dan, sem hefur minnst 3.Dan og að auki þarf slíkur prófdómari viðurkenningu S.K.S.Í., sbr. 1.gr hér að ofan.

Sá sem brýtur gegn reglum þessum og gráðar ólöglega, skal eftir atvikum sviptur réttindum. Sérstakur dómstóll S.K.S.Í. fer með slík mál.
Um rétt til gráðunar:
Á milli prófa í Kyu-gráðum skulu minnst líða 3 mánuðir með minnst tveimur æfingum á viku í eigin flokki. Til prófs gilda viku-æfingabúðir jafnt og einn mánuður við æfingar.
Nemendur skulu mæta a.m.k. 65% í eigin flokk síðustu 3 mánuði fyrir próf.
Á milli 1. Kyu og 1. Dan skulu líða 6 mánuðir og skulu nemendur vera komnir með full 1. Kyu áður en þeir þreyta próf í Sho-Dan.
Tímabundnir 1. Kyu skulu bíða í 3 mánuði áður en þeir þreyta aftur próf í 1. Kyu og síðan í 6 mánuði fyrir Sho-Dan.
Sho-Dan til Ni-Dan – æfingatími minnst 2 ár.
Nemendum sem ætla að þreyta próf er skylt að fá leyfi þjálfara síns til próftöku, ef þeir hyggjast þreyta próf hjá öðrum prófdómara.
Nemendum yngri en 14 ára, er einungis heimilt að taka hálfa gráðun í einu, unglingagráðun. Þegar 14 ára aldri er náð skulu þeir klára unglingagráðun áður en þeir fá að taka heila gráðun, fullorðinsgráðun.
Þeir sem byrja æfingar í SHOTOKAN-karate eftir að hafa náð árangri í öðrum Karate-stíl, skulu bera sitt fyrra belti, en eftir 6 mánuði við æfingar skal þeim heimilt að þreyta próf undir sömu gráðu í SHOTOKAN (einnig Dan-gráður).
Engum skal heimil próftaka, nema hafa áður gert upp æfingagjöld sín.
Meðlimir sem uppvísir verða að broti á reglum S.K.S.Í. skulu ekki viðurkenndir af S.K.S.Í.
Nefnd Svartbeltinga, tækniráð S.K.S.Í. skal segja til um hvað sé rétt tækni.