Saga deildarinnar

Saga deildarinnar 1950 - 1968

Ungmennafélagið Breiðablik er stofnað árið 1950, á tímum er mikil gróska er í frjálsum íþróttum hér á landi og það er í frásögur, að áhugasamir Kópavogsbúar sæki æfingar sínar til Reykjavíkur. Þótti mönnum þó fljótlega bæði langt og tafsamt að sækja æfingar um svo langan veg. Það verður því eitt fyrsta verkefnið eftir stofnun félagsins að huga að svæði til æfinga og keppni.

Landslag og staðhættir í Kópavogi eru lítt fallin til íþróttavallagerðar og reyndist sú glíma félagsmönnum þá og jafnan síðan bæði löng og ill.

Fyrsta íþróttamót félagsins, sem getið er, var háð 17. sept. 1950. Keppt var í köstum og stökkum á nýruddu svæði neðan Kópavogsbrautar, en hlaup vour hins vegar þreytt á túnum Kópavogsbúsins. Þátttakendur voru alls 25. Það er kunnara en frá þurfi að segja,að tvífætlingar eru ekki fremur en ferfætlingar neinir auðfúsugestir í slægjum bænda og næsta ár eru æfingar félagsins fluttar upp á Kópavogsháls á lóð barnaskólans þar.

Þrátt fyrir frumstæðar aðstæður til æfinga og keppni virðist áhugi og bjartsýni ríkja meðal félagsmanna. Þetta sumar 1951, sendir Breiðablik í fyrsta sinn keppendur á Héraðsmót UMSK sem haldið er í síðasta sinn á Hvaleyri í Kjós. Átti félagið þarna 8 keppendur og náðu sumir athyglisverðum árangri. Sama sumar (1951) er svo háð meistaramót félagsins í 11 greinum þar af sigrar Ingvi Guðmundson í 7 greinum. Þessi vorhugur félagsins endist fram á næsta sumar. Á Héraðsmóti UMSK sem að þessu sinni er haldið á Leirvogstungubökkum í Mosfellssveit eignast Breiðablik sína fyrstu sigurvegara. Ingvi vinnur þar kúluvarp með 12.82m kasti og Þorsteinn Steingrímsson sigrar í stangarstökki á 2.78m. Á þessum árum virðist kveða einna mest að þessum mönnum ásamt Samúel Guðmundssyni í frjálsíþróttalífi félagsins. Eftir góðærið koma mögru árin og verður nú hljótt um frjálsíþróttir í Kópavogi næstu árin. Þó kemur fram á sjónarsviðið nýr maður. Unnar Jónsson sem um árabil verður fræknasti spretthlaupari Kópavogs. Ýmsar ástæður lágu til þess að íþróttir áttu svo erfitt uppdráttar hér framan af. Eiginleg leikfimikennsla í skólum hefst ekki fyrr en með tilkomu leikfimihússins við Kópavogsskóla um 1960. Ég hefi áður bent á hve frumstæð og ófullnægjandi æfingaskilyrði félagið hefur búið við yfir sumarmánuðina og loks er að geta þess að á næsta leiti eru hin stóru og öflugu íþróttafélög í Reykjavík. Þau bjuggu við góðan húsakost fyrir vetraræfingar, höfðu afnot löglegra hlaupabrauta og keppnisvalla. Þau höfðu og í þjónustu sinni þjálfara og leiðbeinendur árið um kring og veittu félögum sínum næg tækifæri til að reyna sig á ýmsum íþróttamótum. Þá var það og keppikefli þeirra að fara með íþróttahópa til útlanda og gefa þeim þannig tækifæri til að reyna sig við hin fullkomnu skilyrði úti. Þessi mikli aðstöðumunur freistaði oft efnilegra ungmenna sem settu markið hátt í íþrótt sinni og er þeim varla láandi, þótt þau öxluðu sín skinn, eins og málum var þá háttað. Árið 1957 (10. febrúar) er komið á deildaskiptingu innan félagsins og frjálsíþróttadeild formlega stofnuð. Fyrstu stjórn hennar skipuðu: Samúel Guðmundsson formaður., Birgir Ás Guðmundsson og Arthúr Ólafsson. Hefst nú nýtt framfaratímabil og er skipulega stefnt að því að sigra á næsta Héraðsmóti. Vorið 1958 ræður félagið til sín frjálsíþróttaþjálfara í fyrsta skipti og jafnframt eru teknar upp sérstakar æfingar fyrir drengi og stúlkur.

Höfundur þessa greinakorns, ræðst í þetta hlutverk. Hafði ég byrjað íþróttakennslu við Kópavogsskóla árið áður og jafnframt starfað við íþrótta- og leikjakennslu á leikvöllum bæjarins yfir sumarmánuðina. Með því að sami maður hafði þessi þjálfarastörf á hendi skapaðist ákjósanleg aðstaða til að finna íþróttaefnin og beina áhuga þeirra á réttar brautir. Ég minnist t.d. þriggja stúlkna er hófu íþróttaferil sinn á þessum leikjanámskeiðum en urðu síðar landskunnar fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum: Þær Kristín Harðardóttir, Sigrún Ólafsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Héraðsmótið 1958 markar á ýmsan hátt þáttaskil. Þá sendir Breiðablik stóran og harðsnúinn íþróttaflokk til keppni í drengja, kvenna og karlagreinum og sigrar í stigakeppni félaga með allmiklum yfirburðum. Vannst þá í fyrsta skipti glæsileg stytta gefin af Ólafi heitnum Thors.

Síðan má heita að Breiðablik beri ægishjálm yfir önnur félög innan UMSK og fellur að mestu í þess hlut að halda uppi merki sambandsins í keppni við önnur héruð. Þetta ár vinnur Arthúr Ólafsson marga góða sigra í kúluvarpi og verður drengjameistari Íslands í þeirri grein með 15,17m kasti. Þegar hér er komið sögu hafa frjálsar íþróttir náð öruggri fótfestu í Kópavogi og færa jafnt og þétt út kvíarnar. Verður því að stikla á stóru um það markverðasta er gerist næstu árin. 1959 sigrar UBK glæsilega á Héraðsmótinu og Þorsteinn Alfreðsson setur sambandsmet í kringlukasti 45,61m. Hann hefur síðan verið í röð bestu kringlukastara landsins. Sama ár eignast félagið sína fyrstu Íslandsmeistara í frjálsíþróttum. Kristín Harðardóttir sigraði í langstökki kvenna, stökk 4,60m og kvennasveit félagsins sigrar í 4x100m boðhlaupi. Sveitina skipuðu Ester Bergmann, Svava Magnúsdóttir, Guðný Guðmundsdóttir og Kristín Harðardóttir. 1960 vinnst Ólafsstyttan þriðja árið í röð og þar með til eignar. Árin 1959-1961 er háð bæjarkeppni við Hafnarfjörð og keppt suður frá í öll skiptin. Hafnfirðingar reyndust harðir heim að sækja og sigruðu með litlum mun. Sumarið 1961 er háð bæjarkeppni við Akurnesinga uppi á Skaga og keppt bæði í karla-og kvennagreinum. Sigruðu Kópavogsbúar eftir jafna og skemmtilega keppni. Sama ár er víðavangshlaup Kópavogs háð sumardaginn fyrsta og Drengjahlaupinu (víðavangshlaup) er hleypt af stokkunum fyrsta sunnudag í sumri. Bæði þessi hlaup urðu síðan árlegur viðburður í bæjarlífi Kópavogs og oft fjölsótt, sérstaklega Drengjahlaupið.

Þetta sumar (1961) á félagið 8 þátttakendur á landsmóti UMFÍ að Laugum í S-Þingeyjarsýslu. ´

Á árunum 1961 til 1964 kemur fram á sjónarsviðið undir forystu Ingólfs Ingólfssonar nýtt afreksfólk og hófst nú sú efling og uppbygging deildarinnar, sem síðan hefur staðið á þessum árum. Starfaði ungverski þjálfarinn Symony Gabor og lagði grundvöllinn að afrekum margra íþróttamanna.

Sumarið 1964 var háð í fyrsta sinn bæjarkeppni við Vestmannaeyinga og hefur svo verið árlega síðan. Haustið 1964 tók Pálmi Gíslason við formennsku deildarinnar og hófst undir hans forystu undirbúningur að landsmótinu á Laugarvatni. Á sumardaginn fyrsta sendi Breiðablik í fyrsta sinn keppendur í Víðavangshlaup ÍR, sem þá var háð í 50. sinn og var það fjölmennasta sem haldið hafði verið.

Þetta sumar(1964) var ljóst að um miklar framfarir var að ræða og æfði íþróttafólkið vel undir stjórn Þorkels St. Ellertssonar.

Á Laugarvatni kom frjálsíþróttafólk UBK í fyrsta sinn mjög verulega við sögu á landsmóti UMFÍ.

Fyrsti sigurvegari á Landsmóti frá UBK varð Þórður Guðmundsson sem sigraði í 1500m hlaupi mjög óvænt, hann varði svo þennan titil sinn á Eiðum þrem árum seinna. Einnig sigraði sveit UBK í 1000m boðhlaupi á nýju Landsmótsmeti sem enn stendur. Haustið 1966 var fyrsti UBK maðurinn valinn í landslið Íslendinga, það var Þórður Guðmundsson í 1 mílu hlaupi í keppni við Skota. Þórður setti í þessu hlaupi UMFÍ met, sem enn stendur.

Næstu tvö árin var formaður deildarinnar Einar Sigurðsson. Helstu verkefnin á þeim árum voru að 1966 var Kópavogur í fyrsta sinn þátttakandi í norrænu vinabæjarmóti, sem háð var í Þrándheimi. Í sambandi við þessa ferð var farin fyrsta utanferð á vegum frjálsíþróttadeildarinnar og tóku alls þátt í henni 19 manns, bæði keppendur og aðrir félagar. Mikil vinna var lögð af mörkum til þess að þessi ferð mætti takast og ýmsar fjáraflaleiðir reyndar, t.d. blaðaútgáfa og hlutavelta, sem hvoru tveggja tókst með ágætum. Þetta sumar var Þorsteinn Alfreðsson Íslandsmeistari í kringlukasti enda ósigrandi í þeirri grein. Þá var Þórður Guðmundsson valinn í landslið móti Skotum í 5000m hlaup. Sumarið 1967 var frekar dauft hvað karlagreinar snerti en í kvennagreinum var allmikil gróska, ber þar hæst nafn Kristínar Jónsdóttur, sem eftir um það bil mánaðaræfingu varð Íslandsmeistari í 100m og 200m hlaupum en það hefur hún verið óslitið síðan og einnig meistari í langstökki 1968. Hún hefur sett fjölmörg Íslandsmet í spretthlaupum.

Þetta sumar (1967) voru sendir 4 keppendur á vinabæjarmót í Norrköping.

Það sem aðallega háði starfseminni þessi tvö ár var þjálfaraleysti en félagar úr deildinni bættu úr því eftir bestu getu. Haustið 1967 tók Magnús Jakobsson við formennsku deildarinnar og hefur verið það síðan.

Undirbúningur að landsmóti hófst veturinn 1967-1968 og var Ólafur Guðmundsson ráðinn þjálfari deildarinnar. Einnig bættist deildinni þá nýtt afreksfólk þannig að hópurinn var nú albúinn til stórafreka á komandi sumri. Þennan vetur var Þórður Guðmundsson Íslandsmeistari bæði í 600m og 1000m hlaupum innanhúss. Fyrsta verkefni sumarsins var Víðavangshlaup ÍR, en þangað var sendur 10 manna flokkur, sem sigraði í öllum sveitakeppnunum.

Á landsmótinu að Eiðum sigruðu félagar úr UBK alls í 7 greinum og á því móti var Kristín Jónsdóttir sigahæst í kvennagreinum og Þórður Guðmundsson í karlagreinum. Ína Þorsteinsdóttir vann best afrek í kvennaflokki og Karl Stefánsson í karlaflokki.

 

Höfundar:

Hörður Ingólfsson

Magnús Jakobsson